Komugjöld á heilsugæslustöðvum

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:33:45 (4390)

2003-03-05 14:33:45# 128. lþ. 89.3 fundur 609. mál: #A komugjöld á heilsugæslustöðvum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi þykir mér leitt að geta ekki svarað um hvernig þessar greiðslur skiptast á þjóðfélagshópana en það hefur því miður tekið lengri tíma en ætlað var að koma upp bærilegu kerfi á heilsugæslustöðvunum til þess að greina þetta en vonandi verður hægt að komast að þessu. Ég tek undir að nauðsynlegt er að geta gert sér grein fyrir þessum þáttum.

Í öðru lagi er ég sammála hv. 15. þm. Reykv. í því að ég tel að taka eigi hóflegt gjald í heilsugæslunni en stilla því mjög í hóf. Ég er alveg sammála um þá hlið málsins. Ég tel að það sé eðlilegt að þarna sé greitt lágt gjald, enda hefur þessum gjöldum verið stillt í hóf miðað við önnur komugjöld, t.d. til sérfræðinga. Gjöld til heilsugæslunnar eru miklum mun lægri og þar er líka gerður greinarmunur á þjóðfélagshópunum hvað þetta snertir því að börn, öryrkjar og eldri borgarar greiða lægra gjald.

Varðandi aðgang að heimilislæknum, í fyrsta lagi á Suðurnesjum þar sem uppi hafa verið ákveðin vandamál eins og allir vita, þá höfum við reynt að fylgjast grannt með tilraunum til að ráða lækna þar í stað þeirra sem sögðu upp. Ég átti síðast í gær fund með forstöðumanni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja út af þessum málum og það eru allar leiðir reyndar í því og reynt er að leysa þau mál í gegnum heilbrigðisstofnunina meðan þetta ástand varir. Á Reykjavíkursvæðinu höfum við sett okkur forgangsröð, það er Salahverfið í Kópavogi og Heimahverfið. Hins vegar eru margir heimilislæknalausir. Sumir hafa ekki skráð sig hjá heimilislæknum en það er ekki þar með sagt að menn fái ekki læknaþjónustu en það er auðvitað eðlilegt að menn geti skráð sig hjá heimilislæknum og við stefnum auðvitað að því. En ég vil samt vara við að setja samasemmerki þar á milli að allir sem eru ekki skráðir fái ekki þjónustu. (ÁRJ: Þeir þurfa að bíða.) Já.