Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:57:31 (4401)

2003-03-05 14:57:31# 128. lþ. 89.6 fundur 628. mál: #A geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja spurningar fyrir hæstv. heilbrrh. um stöðu geðheilbrigðismála og þjónustu fyrir börn og unglinga á því sviði.

Í fyrsta lagi spyr ég um þróun mála hvað varðar bið eftir almennri þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Eins og allir vita sem fylgst hafa með fréttum að undanförnu er þar langt frá því að vera viðunandi ástand. Deildin annar alls ekki eftirspurn eða því álagi sem á henni er og brýnt að bæta þar úr hvað varðar fjölgun rúma, að efla göngudeildar- og neyðarþjónustu ýmiss konar. Í raun er alveg sama hvar að málinu er komið, þrátt fyrir góðan vilja starfsfólks og nokkra aukningu fjármuna á undanförnum árum hrekkur það skammt, ósköp einfaldlega vegna þess að vandinn sem við er að glíma er mikill. Ég held að öllum sem hafa sett sig inn í málin sé ljóst að við svo búið má ekki standa.

Í öðru lagi spyr ég hve mikil brögð séu að því að vista hafi þurft börn eða unglinga á geðdeildum fyrir fullorðna. Það tengist að sjálfsögðu fyrra atriðinu. Fram hefur komið í fréttum og mér er kunnugt um það eftir samtöl við aðstandendur barna og unglinga sem hafa þurft á þjónustu að halda. Veruleg brögð eru að því, því miður, að einasta úrræðið sem í boði hafi verið, jafnvel þegar ungmenni eru í bráðum háska, að vista þau á geðdeildum fyrir fullorðna sem að sjálfsögðu er ekki æskilegur kostur.

Í þriðja lagi spyr ég hversu löng bið sé eftir meðferðarúrræðum fyrir unga fíkniefnaneytendur sem jafnframt eiga við geðræn vandamál að stríða. Auðvitað er það svo, herra forseti, að stundum er grátt svæði milli heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins þegar kemur að vandamálum ungmenna sem kunna að eiga við samsett vandamál að stríða, þunglyndi, geðræna erfiðleika en hafa jafnframt ánetjast fíkniefnum. Oft getur verið áhorfsmál hvorum megin eigi að reyna að leysa vanda þeirra.

Ég inni sem sagt eftir því hvernig staðan með þjónustu að því leyti sem meðferðin tilheyrir heilbrigðiskerfinu.

Í fjórða og síðasta lagi spyr ég: Hvað líður fyrirhugaðri uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri? Þar hafa legið fyrir áætlanir um að standsetja slíka deild. Fjárveitingar hafa reyndar verið veittar til rekstrar en þá vantar fjárveitingar til að innrétta húsnæði sem þó stendur ónotað og hefur gert um árabil, þ.e. í nýbyggingu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Það er auðvitað ákaflega bagalegt, herra forseti, að þar skuli vera óinnréttuð aðstaða og jafnvel fjármunir fráteknir til rekstrar sem nýtast ekki og þar af leiðandi er ekki hægt að láta Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri létta á þessum vanda með því að sinna þjónustu fyrir norðan- og austanvert landið eins og það annars gæti.