Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:05:00 (4403)

2003-03-05 15:05:00# 128. lþ. 89.6 fundur 628. mál: #A geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég var að vona að hæstv. félmrh. blandaði sér í þessa umræðu vegna þess að t.d. spurningin um unglinga í fíkniefnavanda og með geðræn vandamál tengist jafnframt ráðuneyti hans. Ég minnist þess að þegar tillögur komu fram og voru mótaðar eftir að sjálfræðisaldur var hækkaður höfðu menn miklar áhyggjur af þessum hópi og hugmyndir voru uppi um bráðaþjónustu vegna unglinga í þessum vanda. Það hefur verið svolítið erfitt að skilja að jafnvel pólitískar ákvarðanir ráðherranna virðast ganga illa fram í þessum geira. Það var gerður þjónustusamningur um bráðarými og afeitrunarrými og mikil blaðaskrif urðu bæði í júní í sumar og líka nú fyrir skemmstu vegna þess að sá samningur var ekki endurframlengdur og þessi mál eru mjög alvarleg.