Flutningur hættulegra efna um jarðgöng

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:14:33 (4409)

2003-03-05 15:14:33# 128. lþ. 89.7 fundur 647. mál: #A flutningur hættulegra efna um jarðgöng# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Þann 15. desember 2000 samþykkti Alþingi samhljóða þáltill. mína um að settar skyldu reglur um flutning hættulegra efna um jarðgöng en þar segir að í reglunum verði kveðið á um hvort slíkir flutningar skuli leyfðir og þá með hvaða skilyrðum, þ.e. flutningstækjum, ökuhraða, eftirliti og hvort loka skuli göngum fyrir annarri umferð meðan flutningurinn fer fram. Nú eru að verða liðnir 27 mánuðir síðan Alþingi gerði þessa samþykkt og enn bólar ekki á þessum reglum. Hæstv. dómsmrh. skipaði starfshóp í mars 2001 til að fjalla um þessa þál. Starfshópurinn skilaði ekki niðurstöðu fyrr en í októberlok 2002, þ.e. meira en einu og hálfu ári eftir að hann var skipaður. Síðan eru liðnir fjórir mánuðir og eðlilegt að spurt sé hvenær þessara reglna sé að vænta.

Umferð um jarðgöng margfaldaðist með tilkomu Hvalfjarðarganga sem voru opnuð fyrir umferð í júlí 1998. Umferð um Hvalfjarðargöng er miklu meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og eykst ár frá ári. Árið áður en göngin voru opnuð fóru 747 þús. bílar fyrir Hvalfjörð og með Akraborginni. Árið 1999 fór 1.030 þús. bílar um göngin, árið 2000 1.132 þús. bílar, árið 2001 1.233 þús. bílar og árið 2002 1.292 þús. bílar. Umferð um göngin er eðlilega misjöfn eftir mánuðum, frá 50 og upp í 150 þús. bílar.

Sem betur fer hafa ekki orðið alvarleg slys í umferðinni um göngin þó að orðið hafi að loka þeim í örfá skipti vegna minni háttar óhappa. Margir hafa þó áhyggjur af því að eldsvoði í göngunum gæti valdið stórtjóni og horfa þá til þeirra alvarlegu slysa sem orðið hafa af völdum elds í jarðgöngum erlendis á undanförnum árum. Einn eldsvoði ofan í þessum djúpu göngum gæti valdið óbætanlegu tjóni. Þess vegna þarf að stórherða reglur um flutning eldfimra efna um göngin og það er ólíðandi að bensín, gas og önnur hættuleg efni skuli flutt um göngin á sama tíma og umferð er þar mikil. Ég minni á að t.d. á morgnana er mikil umferð um göngin og fjöldi manns sem fer þar daglega til vinnu og í skóla. Það er auðvitað fráleitt að leyfa gas- og bensínflutninga um göngin á sama tíma.

Í nál. samgn. Alþingis í desember 2000 sagði m.a. um tillögu mína, með leyfi forseta:

,,Nefndin telur að hér sé um mjög brýnt mál að ræða. Reynslan erlendis hefur sýnt að flutningur hættulegra efna um jarðgöng getur valdið hörmulegum slysum.

Nefndin telur þær reglur sem nú eru í gildi og birtar eru sem fylgiskjal með tillögunni ekki fullnægjandi og að nauðsynlegt sé að setja skýrari og ítarlegri reglur um þessi mál.``

Spurning mín til hæstv. dómsmrh. er: Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um flutning hættulegra efna um jarðgöng sem samþykkt var á Alþingi 15. desember 2000?