Flutningur hættulegra efna um jarðgöng

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:17:37 (4410)

2003-03-05 15:17:37# 128. lþ. 89.7 fundur 647. mál: #A flutningur hættulegra efna um jarðgöng# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvað líði framkvæmd þál. um flutning hættulegra efna um jarðgöng sem samþykkt var á Alþingi þann 15. desember árið 2000, en hv. fyrirspyrjandi átti einmitt frumkvæði að þeirri þál. sem mér finnst ástæða til að þakka honum fyrir. Bætt umferðaröryggi á svo sannarlega erindi til okkar allra.

Skipaður var starfshópur til þess að fara yfir málið og gera tillögur um hvaða reglur eigi að gilda um slíkan flutning, eins og nánar var tíundað í þál. Þær tillögur voru sendar formönnum þingflokkanna og tillöguflytjendum en auk þess var skýrslan birt á heimasíðu ráðuneytisins. Starfshópurinn var undir formennsku hv. alþm. Arnbjargar Sveinsdóttur en auk hennar sátu í honum fulltrúar ýmissa stofnana og samtaka sem málið varða.

Starfshópurinn skilaði áliti í nóvember sl. og í því kemur fram að í jarðgöngum, sérstaklega í löngum göngum, eru slys yfirleitt fátíðari en á opnum vegum. Vegna hins lokaða rýmis geta slys, og þá einkum eldsvoðar, hins vegar haft mjög alvarlegar afleiðingar. Hv. fyrirspyrjandi nefndi það sérstaklega í ræðu sinni áðan. Í skýrslunni kemur enn fremur fram að margir hafa bent á að óþarfatakmarkanir á flutningi hættulegra efna skapi aukakostnað fyrir flutningsaðila og þar með neytendur og geti auk þess valdið slysahættu á öðrum leiðum sem flutningunum er beint á í staðinn. Í Hvalfjarðargöngunum voru settar takmarkanir á umferð með auglýsingu lögreglustjórans í Reykjavík í júní 1998. Ekki hafa verið auglýstar neinar takmarkanir á umferð í öðrum jarðgöngum.

Í niðurstöðum starfshópsins er m.a. bent á að verið er að vinna að alþjóðlegum reglum og aðferðum til að bæta öryggi við flutning hættulegra efna um jarðgöng, og eru tillögur þar að lútandi nú til meðferðar hjá hinum ýmsu ríkjum sem að verkefninu hafa komið. Gert hefur verið áhættumatslíkan um Hvalfjarðargöngin, og var m.a. leitað til norsku vegagerðarinnar um aðstoð í því sambandi. Norðmenn hafa mikla reynslu af umferð um jarðgöng. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens kom einnig að því máli en hún hafði áður gert slíkt áhættumat. Það virðist ljóst miðað við niðurstöður þessarar athugunar og þessara athugana að Hvalfjarðargöngin eru örugg þegar litið er til sambærilegra mannvirkja annars staðar. Starfshópurinn taldi að þetta táknaði hins vegar ekki að ástæðulaust væri að huga að frekari öryggismálum í göngunum og lagði til að fylgt yrði þeim tillögum sem ég gat um að væru til meðferðar hjá hinum ýmsu ríkjum sem tóku þátt í alþjóðlega jarðgangaverkefninu. Þessar tillögur eru í nokkrum liðum og er meginefni þeirra að hættulegum farmi verði skipt í fimm flokka og gildi mismunandi reglur um hvern flokk fyrir sig. Sett verði upp sérstök skilti við öll jarðgöng í vegakerfinu þar sem fram kemur hvaða flokka efna er leyft að flytja um viðkomandi göng. Sé um takmörkun að ræða geti hún verið mismunandi innan ársins, vikunnar eða dagsins.

Starfshópurinn leggur til að gert verði áhættumat fyrir öll jarðgöng með nýju áhættumatslíkani, og að ákvörðun um hugsanlegar takmarkanir á flutningi hættulegs farms í þeim verði teknar út frá niðurstöðum þess mats. Þá verði stuðst við ákvarðanalíkan sem OECD er að láta gera til samanburðar áhættu við flutning eftir mismunandi leiðum. Lagt er til að ákveðin skipan gildi um Hvalfjarðargöng sem nánar eru tilteknar í niðurstöðum nefndarinnar. Lagt er til að ákvæði verði sett í reglugerð um flutning á hættulegum farmi og að reglugerð um sektir og önnur viðurlög verði endurskoðuð með tilliti til brota á þeim ákvæðum. Einnig er lagt til að lögreglustjóri geti í samráði við veghaldara sett sérstök skilyrði um flutningstæki, ökuhraða, eftirlit eða lokun ganga fyrir annarri umferð meðan á flutningi hættulegs farms stendur.

Mér gefst ekki tækifæri hér sökum tímatakmarkana til að gera nákvæmari grein fyrir niðurstöðum starfshópsins en ég hef eintak þeirra meðferðis fyrir þá hv. þm. sem áhuga hafa. Niðurstöðurnar eru til skoðunar í dóms- og kirkjumrn. og ég hef ákveðið að samdar verði reglur um flutning hættulegra efna í jarðgöngum sem séu í aðalatriðum í samræmi við niðurstöðurnar.