Langtímameðferðarheimili og neyðarvistun

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:58:17 (4422)

2003-03-05 15:58:17# 128. lþ. 89.10 fundur 629. mál: #A langtímameðferðarheimili og neyðarvistun# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég vil taka það skýrt fram að ég veit af samskiptum við starfsmenn á þessu sviði, bæði hjá Barnaverndarstofu og Félagsþjónustu, og sama mætti segja um barna- og unglingageðdeild og marga aðra sem að þessum málum koma, að þar er fólk undantekningarlaust allt af vilja gert til að leysa úr málum. Vandinn er bara ósköp einflaldlega sá að kerfið annar ekki ástandinu. Það er sprungið, bæði heilbrigðisráðuneytismegin og félagsmálaráðuneytismegin. Það má kannski segja að vandinn hafi ekki versnað ef hann er mældur í biðlistum eða öðru slíku á sviði hæstv. félmrh. en við höfum heldur ekki náð árangri í að vinna þá upp. Þetta ástand sem hæstv. ráðherra lýsti mjög vel, og birtist m.a. í því að heimilin tengjast skólaárinu á þann hátt að það losnar sjaldan pláss frá hausti og fram á vor, er ávísun á það að ungmenni sem lenda í vanda sem kannski greinist síðsumars eða að hausti þurfa að bíða lengi eftir úrræði. Ég þekki einmitt til slíkra tilvika þar sem foreldrar hafa leitað til mín. Vandinn jafnvel versnar dag frá degi þangað til svo er komið að sjálfsvígstilraunir hafa verið reyndar og gripið hefur verið til alls konar bráðabirgðaúrræða í framhaldinu, skammtímavistunar o.s.frv., en langtímaúrræðin sem mælt er með eru þá ekki í boði fyrr en aftur að vori eða þegar komið er fram á sumar. Þarna getur myndast millibilsástand í 6--9 mánuði og þannig held ég að það megi ekki vera.

Nú er ég ekki endilega talsmaður þess að eingöngu eigi að horfa á vistunarúrræði í þessum efnum. Það er þó alveg ljóst, herra forseti, og um það ber mönnum saman, að í vissum tilvikum er það eiginlega það eina sem hægt er að mæla með þegar svo er komið að ungmennin eru jafnvel í bráðri hættu og opnari úrræði duga ekki, eins og Árvellir sem hæstv. ráðherra nefndi, en menn þurfa á stuðningi, aðstoð og aðhaldi að halda sem er þá fyrst og fremst í boði við þessar aðstæður á heimilunum þar sem sálfræðiþjónusta er á bak við og annað í þeim dúr. Ég held þess vegna að það sé ekki hægt að bjóða upp á annað en að reka þetta kerfi þannig að einhver pláss séu til staðar eða sem hægt sé að opna upp nánast fyrirvaralaust þegar neyðarástand skapast. Það er ekki hægt að segja við foreldra sem hafa tekið öll þessi erfiðu spor og reynt skammtímaúrræðin, hafa jafnvel búið við það að börnin þeirra eru vistuð á fullorðinsgeðdeildum af því að þau eru sjálfum sér hættuleg o.s.frv., að þau verði bara að bíða til vors og þá sé von um að pláss losni. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til þess og ég veit að hann vantar ekki viljann til að fara þarna í frekari aðgerðir, drífa í að opna heimili eða kaupa viðbótarpláss. Hér á að fara að taka til afgreiðslu fjáraukalög og ég er viss um að hæstv. ráðherra á allan stuðning þingmanna til þess að taka þar inn fjárveitingar.