Langtímameðferðarheimili og neyðarvistun

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 16:01:28 (4423)

2003-03-05 16:01:28# 128. lþ. 89.10 fundur 629. mál: #A langtímameðferðarheimili og neyðarvistun# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[16:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það var meiningin með þjónustusamningnum við Árvelli og þjónustusamningnum við SÁÁ að það væri sveigjanleiki og að hægt væri að grípa til úrræða og vista ungmenni fyrirvaralaust og það er hægt. En staðan er reyndar þannig nú að það er metið svo að sumt af þessum börnum sé í það vondu ástandi að þau úrræði passi ekki og er reyndar búið að prófa a.m.k. sum þeirra á þessum stöðum og þau hafa gengið í burtu. Þess vegna erum við að undirbúa að koma upp nýju meðferðarheimili og síðan líka að stækka neyðarvistunina á Stuðlum.

Ríkisstjórnin veitti sumarið 1999 70 millj. til að koma á laggirnar sameiginlegri bráðamóttöku fyrir Barnaverndarstofu og barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Það tókust ekki samningar við Landspítalann vegna þessara áforma. Niðurstaðan varð sú að stækka neyðarvistun á Stuðlum annars vegar og fjölga bráðarýmum hjá barna- og unglingageðdeild Landspítala hins vegar. Gerður var sérstakur þjónustusamningur við Landspítalann sem m.a. kvað á um síðarnefnda atriðið, en samkvæmt honum fóru 40 millj. til þess verkefnis, þ.e. til Landspítalans. Í ljós kom að byggingarkostnaður vegna nauðsynlegrar viðbyggingar á Stuðlum reyndist hærri en gert hafði verið ráð fyrir eða um 65 millj. Barnaverndarstofa þurfti því að fresta fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum þar til safnast hefði fyrir þessum framkvæmdum. Fyrir skömmu var ákveðið að stækka neyðarvistunina á Stuðlum og verður beiðni send samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir um að bjóða verkið út á næstu dögum, en það er verið að uppfæra kostnaðaráætlun. Því miður reyndist samningurinn við BUGL ekki eins gagnlegur og við höfðum vonast eftir og Barnaverndarstofa telur sig ekki hafa fengið þá þjónustu sem við héldum að við værum að greiða fyrir. Ég vil líka nefna að við erum að fara í svokallað Foster Pride-verkefni sem er til að þjálfa fósturforeldra.