Framkvæmd laga um leikskóla

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 16:07:37 (4425)

2003-03-05 16:07:37# 128. lþ. 89.11 fundur 585. mál: #A framkvæmd laga um leikskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[16:07]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir fyrirspurnina. Leikskólar eru alfarið reknir af sveitarfélögum og er það á ábyrgð þeirra að lögum um þá, nr. 78/1994, sé framfylgt. Samkvæmt 3. gr. leikskólalaga ber menntmrn. hins vegar að gæta þess að ákvæðum laganna og reglugerðar með þeim sé framfylgt, sbr. 6. gr. laganna. Í reglugerðinni er m.a. að finna nánari útfærslu á gæðaeftirliti menntmrn. með framkvæmd laganna, m.a. með þeim lagaákvæðum sem fjalla um rétt barna í leikskólum til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar.

Í reglugerðinni er kveðið á um þætti sem varða húsnæði og starfsmannahald í leikskólum með sérstöku tilliti til fatlaðra barna sem þar dvelja, um aðstoð og þjálfun, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla og starfssvið hennar m.a. Ráðuneytið sinnir eftirlitshlutverki sínu í samræmi við reglugerðina og fullnægir þannig eftirlitsskyldu sinni.

Í nóvember 1997 var gerður samningur milli Hagstofu Íslands og menntmrn. um öflun tölulegra upplýsinga um skólamál. Markmið samningsins er m.a. að styrkja hagsýslugerð um skólamál í þeim tilgangi að fá tölulega yfirsýn yfir alla helstu þætti skólamála sem nýtist til eftirlits og ákvarðanatöku. Hvað varðar leikskólastigið ber Hagstofunni m.a. að afla upplýsinga um fjölda barna á leikskólum, um fjölda barna eftir aldri og kyni og fjölda barna sem njóta sérstaks stuðnings, en með sérstökum stuðningi er átt við börn sem vegna fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika fá sérstaka aðstoð eða þjálfun undir handleiðslu sérfræðinga.

Í þessu sambandi vil ég enn fremur benda á ákvæði í lögum um grunn- og framhaldsskóla sem kveða á um að ráðuneytinu beri að gera Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í grunn- og framhaldsskólum á þriggja ára fresti. Skýrslu um grunnskólann var dreift á Alþingi í janúar sl. Það er umhugsunarefni hvort þörf sé á að slík ákvæði séu sett í lög um leikskóla til að tryggja að sambærilegar upplýsingar liggi fyrir um leikskólahald.

Samkvæmt 26. gr. reglugerðar um starfsemi leikskóla skal menntmrn. láta gera úttekt og mat á a.m.k. einum leikskóla á hverju ári. Mati þessu er ætlað að tryggja að starfsemi leikskóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá leikskóla. Utanaðkomandi aðili leggur mat á stjórnun, innra starf, aðstöðu, samskipti innan skóla og við aðila utan skólans, þjónustu við nemendur og starfsfólk, þróunarstarf og umbætur í skólastarfi. Ráðuneytið hefur frá árinu 1998 látið gera úttekt á tíu leikskólum eða tvær á ári, í fjórum leikskólum í Reykjavík, einum í Kópavogi, einum á Dalvík, einum á Hólmavík, einum í Grindavík, einum í Reykjanesbæ og einum í Árborg. Leiði úttektir í ljós að úrbóta sé þörf óskar ráðuneytið eftir að úr verði bætt með bréfi til viðkomandi sveitarfélags.

Menntmrn. fylgist með því að úrbætur séu gerðar og aflar upplýsinga um hvernig sveitarfélögin standa að þessum úrbótum. Með útgáfu aðalnámskrár fyrir leikskóla 1999 var lagður stefnumótandi rammi um uppeldisstörf í leikskólum sem byggist á markmiðslýsingu laga um leikskóla og reglugerðar um starfsemi leikskóla. Ég mun koma nánar inn á þetta ef tími minn er búinn nú.

(Forseti (ÁSJ): Tíminn er ekki búinn.)

Tíminn er ekki búinn. Ég tók eftir því að hér blikkaði ljósið.

(Forseti (ÁSJ): Það eru mistök.)

Þá skal ég halda áfram umfjöllun minni. Í aðalnámskránni er fjallað sérstaklega um börn með sérþarfir. Leikskólunum ber að taka tillit til barns sem á einhvern hátt er fatlað eða með tilfinningalega eða félagslega erfiðleika og veita því þá þjónustu sem þörf er á hverju sinni til að vega upp á móti þeirri hömlun sem fötlunin setur því. Sama gildir um heyrnarlaust, heyrnarskert, blint eða sjónskert barn. Hvert og eitt barn þarf að fást við viðfangsefni við sitt hæfi. Leikskólanum ber að gæta þess að barn aðlagist vel þeim barnahóp sem fyrir er í leikskólanum og barnið einangrist ekki heldur njóti eðlilegra félagslegra tengsla.

Í ráðuneytinu er að fara af stað vinna við að móta verklag við úttektir á aðalnámskrám skólastiganna sem tóku gildi 1999, þar með talinni aðalnámskrá leikskóla. Í þeim úttektum gefst tækifæri til að skoða hvernig lögunum er framfylgt m.a. er varðar réttindi fatlaðra barna til aðstoðar og þjálfunar innan leikakólans undir handleiðslu sérfræðinga.

Að lokum vil ég nefna að starfandi er samráðsnefnd um leikskóla sem í eiga sæti fulltrúi frá ráðuneytinu, fulltrúi frá Félagi leikskólakennara, fulltrúi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og fulltrúi frá Eflingu, stéttarfélagi. Þessi nefnd er umræðu- og samstarfsvettvangur um ýmis fagleg málefni leikskóla, vettvangur fyrir samráð og umræður þar sem tekin eru fyrir einstök mál, skipst á skoðunum, veittar upplýsingar og reynt að finna ýmsum úrlausnarefnum réttan farveg.

Ég vil að lokum geta þess þau örfáu sekúndubrot sem ég á eftir að í þeim úttektum sem fram hafa farið þá minnist ég þess ekki að komið hafi fram verulegir annmarkar á þjónustu við fötluð börn nema í tveimur tilfellum. Það var þá aðstöðuleysi og upplýsingum um það og beiðni um úrbætur var beint til þeirra sveitarfélaga sem í hlut áttu.