Framkvæmd laga um leikskóla

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 16:16:27 (4428)

2003-03-05 16:16:27# 128. lþ. 89.11 fundur 585. mál: #A framkvæmd laga um leikskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Mér finnst frekar dapurlegt að umræður á Alþingi skuli snúast út í útúrsnúninga eins og þá sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir beitti hér. Hún talar um bírókratískt svar við þessari spurningu. En svarið er miðað við spurninguna sjálfa. Það er spurt um hvernig háttað sé eftirliti og hvort lagaákvæðinu um eftirlit hafi verið fullnægt. Ég veitti upplýsingar um með hvaða hætti þessu eftirliti er fullnægt. Ég gaf upplýsingar um hvaða lágmarkseftirliti lagaákvæðið greinir frá og hvernig menntmrn. hefur framkvæmt þetta, þ.e. að eftirlitið hefur verið langt umfram það sem lágmarkið segir til.

Ég gat þess einnig að þar sem athugasemdir kæmu fram af hálfu þeirra sem með eftirlitið fara er þeim athugasemdum komið til skila til sveitarfélaganna. Því er fylgt eftir að úr sé bætt. Ég vil taka fram að berist ráðuneytinu upplýsingar um að lögum sé ekki framfylgt mun það að sjálfsögðu fara yfir þau mál.

Ég vil ekki taka beinlínis undir það hér að í texta reglugerðarinnar og laganna sé ósamræmi. Ég hlýddi á þennan lestur hv. þm. Mér sýnist rétturinn ótvíræður í lögunum en að í reglugerðinni sé verið að tala um framkvæmd málsins. Ég vil ekki hér og nú taka undir þá fullyrðingu hv. þm. að þar sé ósamræmi. En það er sjálfsagt að fara yfir það og skoða það. (ÖJ: Og framkvæmdina.) Og framkvæmdina að sjálfsögðu líka.