Innihaldslýsingar á matvælum

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 18:04:42 (4430)

2003-03-05 18:04:42# 128. lþ. 89.14 fundur 640. mál: #A innihaldslýsingar á matvælum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[18:04]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt:

,,Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa svo að sambærilegur árangur náist hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum varðandi innihaldslýsingar á matvælum?``

Því er til að svara að löggjöf og reglur um merkingar matvæla hér á landi eru almennt með sama hætti og á hinum Norðurlöndunum. Þær byggjast á reglum EES þar að lútandi. Samkvæmt lögum er það á ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila að matvæli uppfylli ákvæði laga og reglna um matvæli. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fer með eftirlit í matvælafyrirtækjum um land allt og er það m.a. í hlutverki heilbrigðisfulltrúa að fylgjast með að innihaldslýsingar á umbúðum séu í samræmi við innihald matvæla. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjónar- og samræmingarhlutverki að gegna við matvælaeftirlit í landinu.

Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hafa nýlega látið útbúa einblöðung til neytenda þar sem fram koma helstu upplýsingar varðandi merkingar á matvælum eins og hér kom fram í máli fyrirspyrjanda. Þessu kynningarspjaldi var dreift í helstu verslanir í landinu í byrjun ársins og var ætlunin með því m.a. að virkja neytendur í eftirliti með umbúðamerkingum á matvælum. Umhverfisstofnun, áður Hollustuvernd ríkisins, hefur í gegnum tíðina skipulagt samræmt eftirlitsverkefni, sem tekur á ýmsum atriðum er varðar merkingar á matvælum.

Af verkefnum sem lúta sérstaklega innihaldslýsingum má nefna samræmt eftirlitsverkefni um aðgengi neytenda að upplýsingum um innihaldsefni á brauðvörum í bakaríum sem unnið var á síðasta ári. Samkvæmt niðurstöðum sem fengust úr verkefninu virtist aðgengi neytenda að upplýsingum almennt vera í góðu lagi.

Í haust er gert ráð fyrir samræmdu eftirlitsverkefni þar sem kjötvinnslur verða heimsóttar og innihaldslýsingar og næringargildismerkingar á umbúðum kjötvöru sannreyndar.

Nýverið fékk Umhverfisstofnun ábendingu um að matvælaframleiðendur gættu í mörgum tilvikum ekki að því að tilgreina aukaefnið MSG, eða E621, á umbúðum matvæla. Um er að ræða bragðaukandi efni sem er þekktur óþolsvaldur og heimilt að nota í flestöll matvæli samkvæmt reglum sem gilda í Evrópu um aukaefni í matvælum.

Reglur hér á landi um umbúðamerkingar á matvælum eru samræmdar reglum Evrópusambandsins eins og ég nefndi áður. Í reglunum er að margra mati að finna gloppu er varðar merkingar á samsettum innihaldsefnum í matvælum, þ.e. að ekki er nauðsynlegt í öllum tilvikum að merkja öll innihaldsefni þegar samsett innihaldsefni eru notuð í matvæli, ef samsetta innihaldsefnið er undir 25% af þyngd vörunnar. Mikið hefur verið deilt um þetta í Evrópu á síðustu árum enda þjónar þetta illa þeim einstaklingum sem haldnir eru ofnæmi og óþoli fyrir tilteknum innihaldsefnum. Evrópusambandið hefur í hyggju að bæta úr þessum vanköntum á merkingarreglugerð og taka meira tillit til þeirra hópa sem þurfa að fylgjast grannt með mataræði sínu vegna óþols eða ofnæmis. Hefur m.a. verið rætt um að afnema hina svokölluðu 25% reglu.

Umhverfisstofnun mun leggja á það sérstaka áherslu í eftirlitsverkefnum að skoða innihaldslýsingar hjá matvælafyrirtækjum með tilliti til óþols og ofnæmisvaldandi efna. Umhvrn. hefur fylgst grannt með þróun þessara mála í Evrópu á undanförnum árum og er þeirrar skoðunar að merkingar hér á landi séu að fullu í samræmi við reglur á hinum Norðurlöndunum og í þeim löndum sem eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Matvælafyrirtæki, ekki síst þau sem starfa á alþjóðamarkaði, standa sig í flestum tilfellum vel í að uppfylla reglur um merkingar.

Virðulegur forseti. Ég tel að matvælamerkingar hér á landi séu í heildina góðar og að við förum eftir settum reglum. Að vísu hefðum við gjarnan viljað merkja erfðabreytt matvæli hraðar en okkur hefur tekist. Það hefur hins vegar ekki náðst inn í EES-samninginn, að vissu leyti vegna afstöðu Norðmanna. Núna er verið að skoða nýjar reglur í Evrópusambandinu varðandi merkingar á erfðabreyttum matvælum og við höfum nýlega sett niður nefnd til að skoða það. Í þeirri nefnd er m.a. fulltrúi Neytendasamtakanna. Þar er skoðað með hvaða hætti við getum brugðist við til að merkja matvöru eftir því hvort hún er erfðabreytt eða ekki þannig að fólk sé upplýst og geti valið hvaða matvöru það vill neyta.

En ég vil taka undir meginmál hv. fyrirspyrjanda, Þuríðar Backman. Það er mikilvægt fyrir neytendur að matvörur séu vel merktar.