Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 10:39:06 (4441)

2003-03-06 10:39:06# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, EMS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[10:39]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er auðvitað rétt í upphafi umræðunnar um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003 að fagna því alveg sérstaklega að við skulum þó fá að sjá hér frv. til fjáraukalaga á þessum árstíma. Fyrir því eru líklega ekki mörg fordæmi og það er auðvitað af hinu góða að gripið sé til þess að leggja fram frv. til fjáraukalaga þegar tilefni gefst til, sem svo sannarlega er nú. En tilefni hafa að sjálfsögðu oft verið áður og þau ekki nýtt. Það sem vekur auðvitað sérstaka athygli við þetta frv. er kannski það sem ekki er í því.

Herra forseti. Vegna þess að það liggur svo vel við að hæstv. dómsmrh. var rétt í þessu að rabba við hæstv. fjmrh., þá er eðlilegt að maður velti því fyrir sér hvernig á því standi að í þessu frv. til fjáraukalaga er ekki minnst á eina stofnun, frumvarp sem hæstv. dómsmrh. lagði fyrir þingið fyrir áramótin en dagaði uppi og hefur ekki enn fengið afgreiðslu, og á ég þá við flutning Almannavarna til ríkislögreglustjóra. Hæstv. dómsmrh. hefur sagt frá því í þinginu að þau hæstv. fjmrh. hafi gert með sér samkomulag um að rekstri Almannavarna verði haldið áfram í óbreyttu formi miðað við það sem verið hefur undanfarin ár, þrátt fyrir að fjárlög geri ekki ráð fyrir því, heldur geri ráð fyrir því að fjármunir séu færðir til ríkislögreglustjóraembættisins og með því, herra forseti, sparaðar rúmlega 20 millj. kr., ef ég man rétt. Það liggur því fyrir að það hlýtur að verða einhver fjárskortur hjá Almannavörnum þegar líður á árið ef ekki verður gripið til einhverra aðgerða. Og það er eðlilegt, herra forseti, í þessu samhengi að rifja upp fyrir hæstv. menntmrh. 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins, þar sem m.a. segir, með leyfi forseta:

,,Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.``

Nú liggur hér fyrir frv. til fjáraukalaga og ég sé hvergi að á málefni Almannavarna eða ríkislögreglustjóra sé minnst í því annars ágæta frv. Það má við þetta bæta, herra forseti, að fjárln. hefur enga tilkynningu fengið um þennan samning sem átt hefur sér stað milli þessara hæstv. ráðherra en ég trúi því að þegar við fáum fulltrúa frá fjmrn. í heimsókn til nefndarinnar við umfjöllun um frv. til fjáraukalaga, þá verði okkur gerð fyllilega grein fyrir þessu ef hæstv. ráðherra hefur ekki öll gögn til þes að gera það hér á eftir.

Herra forseti. Hér er fyrst og fremst verið að leggja fram frv. til fjáraukalaga sem skýrir blaðamannafund sem hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. héldu fyrir nokkru síðan þegar ástæða þótti til að grípa til aðgerða og í raun og veru fyrst og fremst flýta ýmsum framkvæmdum sem ella hefðu lent á öðru árabili þegar aðrar framkvæmdir verða í hámarki. Þetta er vissulega í anda þess sem ýmsir hv. þm. Samfylkingarinnar voru búnir að æskja eftir og þess vegna er það heild sinni jákvætt að gripið sé til þessara aðgerða vegna þess að það þarf auðvitað innspýtingu í atvinnulífið af þeirri einföldu ástæðu að slakinn í efnahagslífinu hefur verið meiri en menn gerðu ráð fyrir og einnig það að til framtíðar litið mun verða mikill vöxtur í því þegar stórframkvæmdirnar fyrir austan ná hámarki.

Hins vegar er það alveg ljóst að ýmsar þær framkvæmdir sem hér eru boðaðar hljóta að sjálfsögðu að vera umdeildar og það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort þær séu nákvæmlega þær einu réttu. Vissulega munum við fara yfir það í meðförum fjárln.

Það vekur auðvitað athygli að nú fjórum árum eftir að fyrst var minnst á menningarhús, þá er menningarhúsum enn á ný lofað, en það verður þó að segja, herra forseti, að á þeim tíma hefur margt jákvætt gerst sem hefur aðstoðað ríkisstjórnina við það að fara út af þessari steinsteypuleið sinni um það að reisa menningarhús eins og ætlunin var fyrir fjórum árum, en ef ég man rétt var ætlunin að reisa ein sex menningarhús. Framförin hefur auðvitað sýnt sig í því að nú er eingöngu lofað tveimur menningarhúsum. Og, herra forseti, mér kæmi ekki á óvart, ef þessir ágætu herrar verða enn við völd eftir fjögur ár, að þá verði lofað einu menningarhúsi. Síðan verði þetta gleymt. (Gripið fram í.) Málið er ósköp einfaldlega það, herra forseti, eins og einn hv. þm. kallar hér fram í, við vonum að sjálfsögðu að við þurfum ekki að lifa þá tíð að eftir fjögur ár verði enn farið að ræða um loforð vegna menningarhúsa.

En þannig er, herra forseti, og eðlilegt að spyrja hæstv. fjmrh. vegna þess að hér er augljóslega gert ráð fyrir að sá milljarður sem ætlaður er í menningarhúsin verði nýttur á yfirstandandi ári, ef ég skil þetta frv. rétt. Það er að vísu ekki gerður greinarmunur á því hvernig þessar upphæðir, þ.e. þessi 1.600 þús., hvað af þessum framkvæmdum muni liggja á árinu 2004, en ég skil það svo að það sé hluti af þeim samgöngubótum sem boðaðar eru í frv. en menningarhúsin eða milljarðurinn sem eigi að fara í menningarhúsin verði væntanlega nýttur á þessu ári. Þess vegna, herra forseti, er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort staða þessara mála sé þannig að það sé tryggt að milljarðurinn fari í menningarhúsin á þessu ári og eðlilegt að hæstv. ráðherra fari þá yfir það hvernig þau mál standa annars vegar gagnvart Akureyri og hins vegar gagnvart Vestmannaeyjum.

[10:45]

Það er auðvitað athyglisvert þegar maður nefnir Vestmannaeyjar að horfa til þess að menningarhúsið þar er þá væntanlega flokkað undir menningarhús á Suðurlandi. Ef ég man upphaflegu hugmyndirnar rétt voru menn að tala um þessi hús eftir landshlutum. Það er athyglisvert þegar maður heyrir frá Árborg að þar sé búinn að vera til í um 25 ár fokheldur menningarsalur sem ætti ekki að þurfa að kosta mjög háar upphæðir, kannski um 100 millj., að koma í gagnið.

Það er auðvitað eðlilegt, herra forseti, að við í fjárln. skoðum það mál alveg sérstaklega og veltum fyrir okkur hvort þarna sé eðlilegt að horfa einnig til Árborgar þegar horft er til framlags til Suðurlands í þessu samhengi.

Það væri líka fróðlegt, herra forseti, ef hæstv. fjmrh. gæti upplýst okkur um hugsanlega skiptingu þessa milljarðs á milli menningarhúsanna, annars vegar á Akureyri og hins vegar í Vestmannaeyjum. Það er annars ánægjulegt að Akureyri skuli enn vera nefnd á nafn í þessu samhengi. Ef ég man rétt voru Akureyringar hvað fyrstir til að hoppa fram þegar fyrst fóru fram kynningar á menningarhúsunum og þeir hafa æ síðan minnt á það að þeir væru reiðubúnir að fara í þetta samstarfsverkefni. En spurningin er hins vegar hvort þeir eru tilbúnir nú í ár, með þetta skömmum fyrirvara, til þess að koma með þau mótframlög sem þeir þurfa að koma fram með til þess væntanlega að nýta þann hlut sem ríkisvaldið er reiðubúið að leggja fram í málið. En vonandi er að samningar um það náist og það verði hægt að nýta það fjármagn sem fyrir liggur.

Herra forseti. Ég sagði áðan að það vekti helst mikla athygli sem ekki væri í frv., og nefndi ég eitt dæmi af því tilefni að hæstv. dómsmrh. var hér í viðræðum við hæstv. fjmrh., en það eru auðvitað fleiri dæmi sem koma upp í hugann. Við höfum á undanförnum árum ætíð velt fyrir okkur t.d. vandanum í menntakerfinu, og nú kemur í ljós bara í fréttum í morgun að framhaldsskólarnir hafa áhyggjur af auknum fjárútlátum vegna ákveðins verkefnis og mun það þá væntanlega bætast við þann fjárhagsvanda sem þar er fyrir. Hér er ekki minnst á framhaldsskóla. Hér er ekki minnst á menntakerfið einu einasta orði.

Það hlýtur jafnframt að vekja athygli að heilbrigðiskerfið er heldur ekki nefnt einu orði. Þó hafa verið uppi umræður um það mjög víða í heilbrigðiskerfinu að fjárskortur sé þar fyrir hendi og þar sé mikill halli. Ég get nefnt sem dæmi að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ku nú eiga við mikinn rekstrarvanda að etja, og eðlilegt að við í fjárln. horfum við vinnslu þessa frv. sérstaklega til þess hvernig staðan er í heilbrigðisstofnununum. Miðað við þetta dæmi sem ég hef heyrt af í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hljótum við að skoða það alveg sérstaklega.

En ég hlýt að minna á að við afgreiðslu fjárlaga vorum við, t.d. fulltrúar Samfylkingarinnar, með tillögur um að það þyrfti að bæta töluverðu fjármagni við til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þar sem mikill vandi blasti við þá þegar. Við í fjárln. hljótum að óska eftir því að við fáum yfirlit yfir stöðu stofnana þannig að við getum metið það hver staðan er hjá ríkisstofnunum og það verði því reynt að bæta það frv. til fjáraukalaga sem hér liggur fyrir á þann hátt að það nái sem best utan um það að skapa eðlilegar aðstæður hjá ríkisstofnunum og hjá ríkissjóði.

Herra forseti. Ég vék örlítið að því áðan að það væri ekki alveg ljóst hvaða samgöngubætur mundu nást fram á yfirstandandi ári og hverjar færu yfir á árið 2004. Við sem erum í þingmannahópum eftir gömlu kjördæmunum höfum auðvitað velt fyrir okkur hvernig best væri farið með þá fjármuni sem eyrnamerktir eru, ef við getum orðað það svo, okkar svæðum og það er a.m.k. ljóst í hinu forna Austurlandskjördæmi að við þurfum að velta vel fyrir okkur hvernig best verður farið með þessa fjármuni. Það er augljóst að við þurfum að færa fjármuni töluvert til og, eins og við köllum, ,,að lána á milli framkvæmda``, ekki síst vegna þess að svo virðist sem okkar annars ágæta ríkisstjórn hefði mátt gefa sér örlítið meiri tíma við það að deila út þessum fjármunum og huga örlítið betur að því hvernig undirbúningur framkvæmda stæði. Það verða hins vegar ekki nein vandræði með það að nýta þessa fjármuni því mikil verk bíða, get ég fullyrt, um allt land.

Það eru hins vegar ákveðin verk tekin hér út og það er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort þau verk, öll þau verk sem hér eru sérstaklega eyrnamerkt með ákveðnum upphæðum, verði öll örugglega í framkvæmdum á yfirstandandi ári, eða hvort einhver af þeim verkum fari yfir á árið 2004 og þá hvaða verk þar er um að ræða.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða í þessari umræðu um einstök verk sem hér eru boðuð, aðeins endurtaka það sem ég sagði áðan að almennt séð er hér um jákvæðar aðgerðir að ræða og í raun nauðsynlegar miðað við ástandið í hagkerfinu og efnahagslífinu. Það vekur samt sérstaka athygli gagnvart þeim verkefnum sem verið er að vinna í samgöngumálum þegar farið er ofan í svona sértækar aðgerðir eins og þessar og flýtiframkvæmdir að þar skuli algjörlega einn þáttur vera skilinn eftir sem ég hélt, herra forseti, að væri kominn nokkuð upp á yfirborðið og það væri, eða ætti a.m.k. að vera, mikil samstaða um. Þar á ég við það sem ber vinnuheitið ,,svartir blettir`` í vegakerfinu. Þar eru auðvitað mjög mörg verk sem bíða og augljóst mál að það væru kannski þau verk sem mundu skila okkur mestu, a.m.k. í umferðaröryggi, og þar að auki í því mikilvæga verkefni að fækka slysum í umferðinni. Ég hefði talið eðlilegt að það væri eitthvert hlutfall af því fjármagni sem nú er látið í samgöngumálin sem færi sérstaklega í þetta og þannig gætum við stigið mikilvægt og stórt skref í því að festa inni ákveðið hlutfall sem við gætum ákveðið til nokkurra ára, sem færu sérstaklega í það að vinna á þessum svörtu blettum og þeir eru, miðað við mínar upplýsingar, dreifðir mjög víða um landið og marga hverja skilst mér að hægt sé að fara í með mjög litlum fyrirvara.

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka þessa skoðun mína með því að vitna í grein eftir Rögnvald Jónsson, sem situr einmitt í rannsóknarnefnd umferðarslysa. Hann skrifaði þessa grein í Morgunblaðið 17. febrúar sl. og fer þar mjög yfirvegað og með mikilli rökfestu yfir þessi mál. Hann flokkar þau eftir þeim vinnubrögðum sem þeir hafa stundað niður í nokkra flokka, þ.e. eftir aðalorsökum banaslysa í umferðinni. Þá eru ekki öll slys undir, heldur þau allra alvarlegustu, þ.e. banaslysin, og hér segir í grein Rögnvaldar, með leyfi forseta:

,,Síðasti flokkurinn nefnist ytri aðstæður ráðandi og er þar átt við slys þar sem vegur og umhverfi hans er aðalorsök. Um 15% slysa má rekja til þess. Í langflestum tilvikum eða 55% er um að ræða samspil tveggja eða þriggja þátta, þ.e ökumanns, öryggisbúnaðar og vegar og umhverfis hans. Í umræðunni í dag er ökumanni yfirleitt kennt um þegar óhapp verður en þetta er ekki svona einfalt eins og rannsóknir rannsóknarnefndar umferðarslysa hafa m.a. sýnt. Í þeim löndum sem leggja hvað mesta áherslu á að bæta umferðaröryggi, er farið að ræða um að skipta ábyrgð, þ.e. á milli ökumanns og veghaldara. Þessi skipting ábyrgðar byggist á því að það sé mannlegt að gera mistök.``

Herra forseti. Örlitlu síðar í greininni segir Rögnvaldur, með leyfi forseta:

,,Við sem höfum rannsakað banaslys frá árinu 1998 höfum séð þess allt of mörg dæmi að mistök ökumanns hafa leitt til dauða eða alvarlegra meiðsla vegna þess að vegi eða umhverfi hans var ábótavant. Skurðir, stórir steinar, gjótur, ljósastaurar og ræsi við hlið vegar hafa m.a. verið orsök fyrir því að illa fór. Einnig hefur vöntun á vegriðum leitt til þess að bílar hafa lent í sjó, vötnum, ám eða farið niður brattar hlíðar.``

Og skömmu síðar, með leyfi forseta, segir Rögnvaldur:

,,Það er því að mínu mati forgangsverkefni í vegagerð á Íslandi að bæta núverandi vegakerfi.``

Herra forseti. Það er þess vegna sem ég minntist á hvort ekki væri eðlilegt að nýta eitthvert hlutfall af þeim fjármunum sem hér er verið að ræða um til vegagerðar til þess að bæta núverandi vegakerfi og stíga þannig mikilvægt skref til fordæmis fyrir næstu ár um að þannig viljum við halda áfram að nota örlítið hlutfall af þeim fjármunum sem við setjum til vegagerðar til þess að bæta núverandi vegakerfi og þar með auka öryggi vegfarenda og taka hlut af þeirri ábyrgð sem felst í því að leggja vegi nú til dags.

Herra forseti. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni munum við í fjárln. auðvitað fara vel yfir þetta frv., skoða ýmsa þætti þess, gefa okkur ekki fyrir fram að það séu nákvæmlega þær framkvæmdir sem hér er rætt um sem þurfi alla þá fjármuni sem hér eru boðaðir, heldur verði ýmsar hliðar málsins skoðaðar. Við munum fara fram á það að sjálfsögðu að fá yfirlit yfir stöðu ríkisstofnana og kanna hvort ekki sé full þörf á því að þetta frv. til fjáraukalaga verði burðugra heldur en það er í mynd frá hæstv. fjmrh.