Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:35:50 (4453)

2003-03-06 11:35:50# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, KHG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:35]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Eðlilega hefur verið gripið á nokkrum málum sem tengjast atvinnumálum í þessari umræðu. Ég held að fyllsta ástæða sé til þess að fara aðeins yfir þau mál svo að ekki fari milli mála hver hlutur ríkisstjórnarinnar hefur verið að undanförnu, sérstaklega gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Hér hafa menn líka nefnt önnur mál sem ekki er að finna í frv., eins og heilbrigðismál, og minnt hefur verið á fjárhagsvanda á Sauðárkróki og í Reykjavík. Það er engin ástæða fyrir hv. þingmenn sem minnt hafa á þessi mál, sem er sjálfsagt og eðlilegt að gera, annað en taka það trúanlegt sem fyrir liggur af hálfu þingmanna og ráðherra stjórnarflokksins að unnið er að úrlausn þeirra mála sem á hefur verið bent. Við víkjum okkur ekkert undan því að ræða heilbrigðismál í þessari umræðu nú eða síðar.

Varðandi atvinnumálin vil ég til þess að ljúka því sem ég hóf í andsvörum við hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur sem setti mál sitt fram á þann veg að stjórnarflokkarnir hefðu vanrækt að standa að atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna væri atvinnuleysi þar meira en annars staðar ... (ÁRJ: Ég sagði það nú ekki.) Ég held að það verði að leiðrétta þennan málflutning hjá hv. þm. vegna þess að annað er rétt. Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu markað sér almenna stefnu í atvinnumálum sem gefur fyrirtækjum í atvinnulífinu gott svigrúm og góð skilyrði til þess að vaxa og dafna. Það geta menn séð á ýmsum sviðum í atvinnumálum. Sértækar aðgerðir sem lúta að einstökum verkefnum hafa verið tiltölulega fá en athyglisvert er að þau hafa þó verið flest og langsamlega veigamest á höfuðborgarsvæðinu. Það er dálítið athyglisvert í þeim breytta tíðaranda sem er gagnvart hlutverki stjórnvalda í atvinnumálum að engin gagnrýni hefur komið fram svo að ég muni eftir á það að stjórnvöld hafa beint komið að atvinnuuppbyggingu í stórum atriðum á höfuðborgarsvæðinu. Stærsti þátturinn í því er að sjálfsögðu uppbyggingin á deCODE í Vatnsmýrinni, fyrirtæki sem hefur mörg hundruð manns í vinnu. Þáttur ríkisvaldsins er gríðarlega stór í því máli. Í fyrsta lagi lögðu ríkisbankarnir --- og ég legg áherslu á það --- það voru ríkisbankarnir sem lögðu til fé, þeir keyptu hlutafé í þessu fyrirtæki fyrir samanlagt um 6 milljarða kr. Getur nokkur þingmaður bent mér á þátttöku ríkisins í öðru verkefni á landsbyggðinni sem jafnast á við þessa stærðargráðu? Mér þætti gaman að heyra samjöfnuð í því efni.

Í öðru lagi komu stjórnvöld að þessu máli með því að setja löggjöf sem tryggði starfsgrundvöll fyrirtækisins. Í þriðja lagi hafa stjórnvöld komið að þessu fyrirtæki með því að samþykkja heimild til fjmrh. til þess að veita ábyrgð fyrir lántöku allt að 20 milljörðum kr. Mér er til efs, jafnvel þó menn leggi saman beinan þátt ríkisvaldsins í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni sl. 20 ár, að þeir geti fundið samanlagt jafnmikinn stuðning þar eins og í þessu eina máli á höfuðborgarsvæðinu. Mér er það mjög til efs og þætti mjög vænt um það ef fróðir menn gætu dregið fram upplýsingar sem hrektu þessa skoðun mína.

Að halda því svo fram að stjórnvöld eða stjórnarflokkarnir séu eitthvað sérstaklega að skrattast á hagsmunum Reykvíkinga (Gripið fram í.) er náttúrlega algjör bábilja og firra. (Gripið fram í.) Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir eykur ekki hróður sinn með málflutningi af þessum toga. Kjósendur eru nefnilega mjög skynsamir. Þeir sjá í gegnum málflutning þingmanna sem ætla að koma sér áfram með því að reyna að upphefja sjálfa sig á kostnað annarra í þessum efnum. Það er ekki vænlegt, sérstaklega ekki á höfuðborgarsvæðinu, að ætla sér að rýra álit stjórnmálamanna eins og þingmanna stjórnarflokkanna með þessum dylgjum um að þeir líti ekki af neinni alvöru til hagsmuna fólks á höfðuðborgarsvæðinu. Það er ekki boðlegur málflutningur. Hann er ekki æskilegur og hann leiðir ekki til góðs vegna þess að hann er til þess fallinn að skipta þjóðinni í tvennt. Málflutningur þingmanns Samfylkingarinnar verður auðvitað að skoðast í ljósi pólitískrar stefnuyfirlýsingar talsmanns Samfylkingarinnar um hlutverk sitt í landsmálunum sem er það að gæta hagsmuna íbúa Reykjavíkurborgar. (SvanJ: Var það ekki áður en þið flæmduð hana í það hlutverk ...?) Það verður að líta á þessar yfirlýsingar í þessu ljósi og þingmenn Samfylkingarinnar verða að vanda málflutning í þessum efnum. Hins vegar mega þeir mín vegna halda honum áfram ef þeir kjósa því ég veit að það verður þeim ekki til framdráttar.

Ég vil líka minna á annað verkefni en deCODE þar sem hlutur ríkisins er gríðarlega stór og það er væntanleg uppbygging tónlistar- og menningarhúss á höfuðborgarsvæðinu þar sem hlutur ríkisins er ríflega 3 milljarðar kr. Vegna þess að ríkið leggur þessa peninga fram verður hægt að ráðast í frekari framkvæmdir í uppbyggingu á hóteli og skapa þar mikla atvinnu fyrir fólk sem hér býr. Geta menn nefnt dæmi um beina þátttöku ríkisins á landsbyggðinni sem jafnast á við þessi tvö dæmi? Það held ég ekki. Ég er ekki að nefna þessi tvö dæmi vegna þess að ég hafi lagst gegn þeim. Því fer fjarri. Ég er að nefna þau til þess að undirstrika það að stjórnarflokkarnir hafa beitt sér í atvinnumálum á höfuðborgarsvæðinu ákaflega myndarlega. Mér þykir það ósanngjarn málflutningur af hálfu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að halda öðru fram. Að mínu viti væri hægt að færa sterkari rök fyrir því af hálfu þingmanna landsbyggðarinnar að menn hefðu getað gert meira á landsbyggðinni og meira í líkingu við það sem gert hefur verið á höfuðborgarsvæðinu. Það væri hægt að færa sterkari rök fyrir þeirri gagnrýni en þeirri gagnrýni sem hv. þm. hefur haft hér í frammi. En ég ætla ekki að gera það.

Þetta vildi ég taka fram, herra forseti, þannig að alveg væru skýrar, a.m.k. af minni hálfu, þær áherslur að stjórnarflokkarnir hafa staðið sig vel í atvinnumálum á höfuðborgarsvæðinu og að stærstu verkefnin sem stjórnvöld hafa komið beint að og tengjast atvinnuuppbyggingu eru einmitt á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil að menn viti af því í þessari umræðu svo að þeir geti forðast að halda öðru fram.

[11:45]

Herra forseti. Ég vil segja um efni þessa frv. að öðru leyti að ég fagna því að ákveðið er að bæta við fé til vegamála. (Gripið fram í: ... gagnrýna það?) Ég heyri ekki neinn gagnrýna það þannig að ég hygg að það sé mjög góð samstaða meðal þingmanna um þessar tillögur. Sú tillaga að fjögurra ára áætlun í samgöngumálum sem liggur fyrir Alþingi var að sumu leyti vonbrigði fyrir sum svæði landsins, eins og á Vestfjörðum, ekki vegna þess að það væri beinlínis verið að skera niður fjármagn til vegaframkvæmda þar heldur hitt að breyttar aðstæður, hönnun og ákvörðun um gerð vega hefur leitt það af sér að kostnaður við þær framkvæmdir sem menn samþykktu í langtímavegáætlun árið 1998 hefur reynst vera hærri en menn áætluðu þá. Fjárveitingar í samgöngutillögunni sem hæstv. samgrh. lagði fram voru dálítið frá því að unnt væri að halda þeim framkvæmdahraða sem ákvarðaður var í þeirri áætlun, sérstaklega á þeim verkefnum sem lúta að uppbyggingu Djúpvegar frá Ísafirði til Brúar í Hrútafirði. En með þessari viðbót sem hér er lögð til tekst að breyta tillögunni þannig að menn munu vera nær þeim markmiðum sem sett voru með samþykkt langtímaáætlunar 1998. Þannig verður reyndar framkvæmdum hraðað frá því sem þar er gert ráð fyrir varðandi Vestfjarðaveg frá Patreksfirði og austur Barðastrandarsýsluna þannig að framkvæmdir á þeirri leið munu ganga hraðar fyrir sig en þar er gert ráð fyrir. Framkvæmdir við Ísafjarðardjúp munu ganga hægar fyrir sig en þó verður ekki nándar nærri eins mikill munur á og stefndi í. Ég tel því að með þessari tillögu sé verulega bætt úr.

Varðandi byggðamálin er líka fagnaðarefni að hér er lagt til að setja sérstakt fjármagn til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni í svonefndu atvinnuátaki sem hljóðar upp á 700 millj. og á að renna til Byggðastofnunar sem á að hafa umsjón með ákvörðun og útdeilingu fjárins. Ég tel fyllilega tímabært að stofnunin fái aukið fé til þessa verkefnis og legg áherslu á sjónarmið mín sem ég vil gjarnan að verði höfð til hliðsjónar við ákvörðun á ráðstöfun á því fé. Ég tel að menn eigi að horfa til þeirra annarra framkvæmda og atvinnuuppbyggingar sem eru í gangi á næstu árum þegar menn útdeila þessu fé eftir svæðum. Það er ljóst að það eru og verða gríðarleg umsvif á Austurlandi. Það er líka ljóst að það eru töluverð umsvif við Eyjafjörð og sérstaklega á Akureyri sem hið opinbera stendur fyrir á mörgum sviðum. Veruleg uppbygging mun eiga sér stað á þessum svæðum á landsbyggðinni.

Það er líka ljóst að uppbygging álvers í Hvalfirði mun hafa góð áhrif á því svæði, eða væntanleg stækkun álvers í Straumsvík sem líklega má ætla að verði af á næstu árum. Hún mun líka hafa góð áhrif á því svæði. Ég held að menn eigi að horfa til þess og verja þessu fé þá á þeim svæðum landsbyggðarinnar þar sem síst gætir áhrifa af þessum umsvifum. Það eru auðvitað svæði um allt land þó að þau séu misjafnlega stór á hverjum stað. Segja má að stærsta samfellda svæðið þar sem ég hygg að ekki muni gæta mikilla áhrifa af þessum framkvæmdum og uppbyggingu í kjölfar þeirra sé í Norðvesturkjördæminu, frá Húnaflóa um Vestfirði og í Dali. Ég held að það megi segja nokkuð augljóst að jákvæðra áhrifa þessara framkvæmda muni síst gæta þar og þó helst á þann veg að fyrirtæki á þessu svæði gætu fengið verkefni sem tengdust uppbyggingunni fyrir austan og norðan og í Hvalfirðinum, en líka hitt að fólk muni sækja úr þessum landsvæðum til atvinnu á uppbyggingarsvæðunum. Þess vegna er nauðsynlegt að styrkja atvinnulíf á þessum veikari svæðum til þess að það geti betur haldið í vinnuafl sitt á meðan þessi þensla og uppbygging gengur yfir. Það verður best gert að mínu viti með því að styðja við bakið á þeim atvinnugreinum sem eru helstar fyrir á þessu svæði. Fljótlegasta og áhrifaríkasta aðgerðin til mótvægis er að styrkja þær atvinnugreinar. Nýsköpun er auðvitað ágæt en slæm reynsla er fyrir því að ætla sér að treysta atvinnulíf eingöngu með nýsköpun. Það er tímafrekt og áhættusamt. Ég hef ekki mikla trú á því að menn geti byggt upp mikið af störfum á landsvæði eins og því sem ég nefndi, einvörðungu með því að fitja upp á atvinnu í greinum sem ekki eru fyrir á svæðinu. Ég minni á að samkvæmt könnun, Samtaka atvinnulífsins hygg ég að það hafi verið, áforma atvinnurekendur í sjávarútvegi að fækka fólki hjá sér um 4%, og þá fyrst og fremst við landvinnslu. Það styður það enn að stjórnvöld horfi til landsvæða þar sem síst gætir áhrifa af framkvæmdum við álver og tengdar framkvæmdir og þar sem sjávarútvegur og landbúnaður er hátt hlutfall starfa í atvinnulífi svæðisins.

Þetta eru þau sjónarmið mín í þessu máli sem ég vildi gjarnan koma hér að. Jafnframt fagna ég yfirlýsingu iðn.- og viðskrh. um það efni þar sem fram kom að horft yrði sérstaklega til Vestfjarða varðandi atvinnuþróunarmál og að hún liti þá til þeirra tillagna sem Vestfirðingar hafa komið sér saman um í sinni sérstöku byggðaáætlun frá síðasta ári. Ég geri mér góðar vonir um að ráðstöfun þessa fjár geti nýst vel á þeim svæðum landsins þar sem ég tel þess mest þörf á næstu árum.