Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 11:57:25 (4456)

2003-03-06 11:57:25# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[11:57]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég saknaði svara frá hv. þingmanni varðandi hina svörtu bletti. Ég vona að hv. þm. svari því í seinna andsvari og vona að við séum sammála í þeim efnum eins og mér heyrist við vera varðandi byggðamálin og kemur mér það út af fyrir sig ekki á óvart.

Eitt vakti þó sérstaka athygli mína í ræðu hv. þm. Það var um þær 700 millj. sem hér eru áætlaðar til Byggðastofnunar og útlistanir hv. þingmanns á því sem hann taldi að þessar 700 millj. ættu að fara í. Hann vitnaði þar til ummæla hæstv. iðnrh. sem ég því miður missti af í morgun. Mér skilst að þessi orð hafi fallið þegar hæstv. iðnrh. var í andsvari fyrr í umræðunni nema orðin hafi fallið á einhverjum fundi í Framsfl. sem gæti auðvitað einnig verið. Ég held að það hafi verið hér í morgun. Ég trúi því. Það er athyglisvert vegna þess að í frv. segir um þessar 700 millj., með leyfi forseta:

,,Við ráðstöfun fjárins verði tekið mið af þeim áherslum sem fram koma í byggðaáætlun 2002--2005.``

Byggðaáætlunin á þessu tímabili var samþykkt með svolítið sérstökum hætti. Ef ég man rétt var hv. þm. með mjög margar efasemdir einmitt um þær áherslur sem þar komu fram. Ef ég man áfram rétt var hv. þm. einnig með miklar athugasemdir við það hvernig byggðaáætlunin hefði verið framkvæmd á fyrstu missirunum þannig að ég velti fyrir mér, herra forseti, og vil spyrja hv. þm. að því hvort um sé að ræða einhverjar breytingar á þessum áherslum eða hvort það sé þá misminni mitt að skort hafi verulega á það í áherslum byggðaáætlunarinnar að menn ætluðu sér að leggja mikla áherslu eða nægilega áherslu á Vestfirði.