Skattaskjól Íslendinga í útlöndum

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:30:40 (4461)

2003-03-06 13:30:40# 128. lþ. 90.94 fundur 474#B skattaskjól Íslendinga í útlöndum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ekki er það sérstök löngun mín að gera málefni einstaklings að umræðuefni á Alþingi. En óneitanlega var það tilefni þess að ég óskaði eftir þessari utandagskrárumræðu þegar upplýst var að skattrannsóknarstjóra sem rannsakað hefur skattamál Jóns Ólafssonar reiknaðist til að hann hefði vantalið skattskyldar tekjur um rúma 2 milljarða á árunum 1996--2001. Vanframtaldar tekjur eru sagðar 208 millj. kr. og vanframtalinn söluhagnaður 1.284 millj. kr., vanframtaldar eignir hálfur milljarður og síðan margvísleg hlunnindi sem ekki eru talin fram.

Skýrsla skattrannsóknastjóra um þetta mál hefur verið til ítarlegrar umræðu í fjölmiðlum en Jón Ólafsson mun sjálfur hafa sent hana Morgunblaðinu til umfjöllunar að því er mér skilst.

Þessi skýrsla veitir heilmikla innsýn inn í þann heim sem hér hefur verið skapaður á síðustu árum í ferli sem kallað hefur verið braskvæðing samfélagsins. Það er einkar athyglisvert að augu skattrannsóknarstjóra virðast beinast mjög að samspili þess einstaklings sem grunaður er um skattsvikin við fjármálastofnanir sem komið hafa sér upp útibúum í skattaparadísum erlendis. Í skýrslu skattrannsóknastjóra segir m.a., með leyfi forseta:

,,Með stofnun Inuit Enterprises Ltd. virðist Jón stíga fyrsta skrefið í að færa eignarhald sitt í fjárfestingum til erlendra lögaðila. Eftir það hlutast Jón til um stofnun fjölmargra erlendra lögaðila, að því er virðist til að halda utan um þær fjárfestingar sem farið er í af hans hálfu í tengslum við umsvif hans hér innan lands. Þessi framgangur er í samvinnu við innlenda og erlenda banka, svo sem Kaupthing Luxembourg, Íslandsbanka hf. og Rothschild Trust Company. Verður ekki betur séð en þetta sé þáttur í þeim áformum Jóns er hann kýs að kalla ,,skattalega fyrirhyggju``.``

Þetta er orðrétt upp úr skýrslu ríkisskattrannsóknarstjóra.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa aftur og ítrekað sett fram þingmál um svokölluð aflandsvæði og kallað eftir aðgerðum íslenskra stjórnvalda bæði til að koma í veg fyrir neikvæða skattasamkeppni milli ríkja og til að koma í veg fyrir undanskot undan skatti með fjármagnstilflutningum landa á milli. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa hvorki verið mikil né jákvæð. Jafnan þegar þessi mál hafa verið tekin upp á Alþingi af okkar hálfu og fyrirspurnum beint til ríkisstjórnarinnar hafa viðbrögðin verið á einn veg. Fullkomið andvaraleysi um hagsmuni almennings.

Ekki var heldur vart við mikil viðbrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar bankastjóri ríkisbanka virtist leggja blessun sína yfir hin erlendu skattaskjól. Hinn 6. janúar árið 2000 sagði Halldór Kristjánsson bankastjóri Landsbankans í viðtali við Morgunblaðið um svokallaða aflandsþjónustu bankans sem rekin er í skattaparadís á Ermarsundi, með leyfi forseta:

,,Það sem fyrst og fremst vakti fyrir okkur þegar ákveðið var að bjóða upp á þessa tegund þjónustu var að við vildum breikka alþjóðlega þjónustu okkar og gefa kost á lögsögu, eins og Guernsey, sem sérhæfir sig í því að veita hagstæð skattaleg skilyrði til rekstrar og býður upp á einfaldar og ódýrar lausnir í alþjóðlegum viðskiptum. Við sáum mjög vaxandi þörf fyrir þessa þjónustu, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum.``

Síðar í viðtalinu segir bankastjóri Landsbankans um bankaleyndina á Guernsey sem hann telur til mikilla kosta, með leyfi forseta:

,,Bankaleyndin er mikilvæg af mörgum ástæðum. Hún er til dæmis mikilvæg þeim sem vilja halda fjárfestingum sínum og öðrum ákvörðunum fyrir sjálfa sig. Við þekkjum það á Íslandi að margir einstaklingar vilja ekki að aðrir viti eitt eða neitt um þeirra stærri mál, af eðlilegum ástæðum.``

Víkjum nú aftur að skýrslu skattrannsóknarstjóra um málefni Jóns Ólafssonar. Fram kemur í skýrslunni að viðkomandi einstaklingur hafi selt eignir og eignarhluta til Inuit Enterprises Ltd. á margföldu nafnverði viðkomandi eignarhluta. Söluverð eignarhlutanna úr landi er þannig einungis lítið brot af söluverðinu inn í landið aftur. Og hvar skyldu höfuðstöðvar Inuit Enterprises Ltd. vera? Þær eru á Bresku Jómfrúreyjum í Karíbahafinu. Hér virðist það vera að gerast sem alþekkt er í hinum alþjóðlega fjármálaheimi, að skjóta eignum til erlendra ríkja og svæða þar sem fullkomin leynd ríkir um fjármálaumsvif og skattgreiðslur eru litlar sem engar. Síðan hverfa eignirnar í illrekjanlegu ferli.

Að lokum ætla ég að vitna í leiðara Morgunblaðsins frá 15. febrúar sl., með leyfi forseta, en þar var þá fjallað um þessi mál:

,,Í þessu samhengi sýnist augljóst að ríkisstjórn og Alþingi hljóta að skoða vandlega þá löggjöf sem nú er í gildi á þessum sviðum og hvort þörf er á breytingum til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að flytja fjármuni úr landi án þess að eðlilegir skattar séu greiddir af þeim.``

Í fjmrn. hefur verið unnið að athugun á því að setja svokallaða CFC-löggjöf, Controlled Foreign Company, en slíka löggjöf er að finna erlendis. Slík löggöf fjallar um skattalega meðferð erlendra félaga sem eru í eigu innlendra félaga.

Spurning mín til hæstv. fjmrh. er þessi: Hvað líður þessari athugun og á hvern hátt ætlar hann að bregðast við þessum tíðindum sem þó voru fyrirsjáanleg þegar ríkisstjórnir undir forustu Sjálfstfl. hófust handa um að braskvæða Ísland?