Skattaskjól Íslendinga í útlöndum

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:42:20 (4464)

2003-03-06 13:42:20# 128. lþ. 90.94 fundur 474#B skattaskjól Íslendinga í útlöndum# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:42]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Segja má að þetta sé tvíþætt mál, annars vegar viðleitni manna til þess að komast hjá skattgreiðslum með ólögmætum hætti, sem auðvitað er tekið á eftir eðlilegum leikreglum sem við höfum komið okkur upp í þjóðfélaginu, og hins vegar sú vaxandi tilhneiging, sérstaklega þeirra sem hafa auðgast mikið á skömmum tíma og jafnvel án þess að leggja mikið á sig, að telja eðlilegt og sjálfsagt að þeir megi nýta sér allar þær smugur sem sérfræðingar þeirra kunna að finna í lögum og reglum til þess að komast hjá því að taka þátt í íslensku þjóðfélagi, leggja sitt af mörkum með skattgreiðslum og vera eðlilegir þjóðfélagsþegnar. Þessi þróun sem er afsiðandi þróun hefur að mínu viti gengið allt of langt og við eigum ekki að taka undir hana heldur þvert á móti eigum við fordæma hana. Við eigum að fordæma menn sem leggja sig fram um að vera sérfræðingar fyrir ríkt fólk til þess að leiðbeina því hvernig það geti komist hjá því að borga skatta með svokallaðri aflandsþjónustu eins og dæmi var hér nefnt um þar sem fyrrum ríkisbankarnir tóku að sér forustuhlutverk og brautryðjendastarf í þessari viðleitni. Það á auðvitað ekki að vera svoleiðis. Við sem störfum í stjórnmálum eigum að tala fyrir því að það sé eðlilegt og sjálfsagt að þeir sem hafa efni borgi, að þeir sem vilja búa í íslensku þjóðfélagi taki þátt í því með því að leggja sitt af mörkum og borga sína eðlilegu skatta. Þannig hlýtur það alltaf að vera, herra forseti.