Skattaskjól Íslendinga í útlöndum

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:50:25 (4468)

2003-03-06 13:50:25# 128. lþ. 90.94 fundur 474#B skattaskjól Íslendinga í útlöndum# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:50]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er athyglisverðast við þessa umræðu að allir hv. þingmenn virðast sammála um að hér sé verk að vinna. Hér þurfi að taka á. Það virðist ljóst að ýmist er farin sú leið að víkja sér frá því að fara eftir lögum eða nýta lögin til að komast hjá því að greiða eðlilega til samfélagsins.

Það er auðvitað fagnaðarefni ef allir hv. þm. eru sammála um að taka þurfi til í kerfinu. Því miður, herra forseti, hefur það ekki ætíð verið svo. Á undanförnum missirum og árum hafa verið lagðar fram ýmsar tillögur sem m.a. hafa gengið í þá átt að efla þær eftirlitsstofnanir sem við eigum í samfélaginu til að auðvelda það að farið sé eftir lögunum. Þær tillögur hafa undantekningarlaust verið felldar.

Það er hins vegar rétt hjá hæstv. fjmrh. að nú starfar nefnd í kjölfar samþykktar tillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var 1. flm. að, um að fara yfir þessi mál. Það er auðvitað mikilvægt, þegar niðurstaða þeirrar nefndar verður ljós í sumar, að við völd verði ríkisstjórn sem fer eftir þeim tillögum sem frá þeirri nefnd koma.

Herra forseti. Fyrir tveimur árum lögðu nokkrir hv. þm. Samfylkingarinnar fram tillögu um að settar yrðu skorður við því að fjármagn yrði flutt úr landi áður en það væri skattlagt. Því miður, herra forseti, felldu ríkisstjórnarflokkarnir þá tillögu. Við skulum vona að nú sé breyttur hugsunarháttur á því heimili.