Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 14:22:01 (4474)

2003-03-06 14:22:01# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég minnist þess ekki að það hafi fyrr komið fram með svo afdráttarlausum hætti hér á Alþingi að ríkisstjórnin hafi beitt sér fyrir því að ríkisbankarnir fjárfestu 6 milljarða í fyrirtækinu deCODE. Ég minnist þess ekki að það hafi verið fjallað um málið með þessum hætti áður. Í rauninni er hv. þm. hér að upplýsa um stórt mál, miklu stærra en ég hafði gert mér grein fyrir að gæti verið þegar um er að ræða afskipti stjórnvalda af þróun atvinnulífsins. Kaup á 6 milljörðum af hlutafé eru ekkert smáræði, herra forseti, ef við setjum það í samhengi við annað sem við erum að gera og horfum þá kannski bara á þetta frv. sem við erum að vinna með núna.

Herra forseti. Í rauninni finnst mér þetta svo stórt að ég skil ekki alveg hvernig hv. þm. sem hafa kannski að sumu leyti verið ósáttir við þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur verið með í atvinnumálum hafa getað setið undir þessari stóru fjárfestingu. Ég kannast reyndar við að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi ýjað að þessu fyrr þannig að þetta er ekki alveg nýtt frá honum, en að aðrir skuli með þögninni hafa samþykkt þessa stórkostlegu fjárfestingu ríkisstjórnarinnar í einu einstöku fyrirtæki finnst mér mjög merkilegt.

Varðandi aftur byggðaáætlunina sýnist mér að hv. þingmaður hafi a.m.k. svarað hér fyrir Framsfl. og hvaða skilning hann hefur á þessu máli og hvernig hann afgreiddi það fyrir sína hönd.