Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 14:42:06 (4477)

2003-03-06 14:42:06# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir verður þá að svara því hvað henni finnst sanngjarn skerfur.

Mér finnst alveg makalaust, ef hv. þm. hefur hlustað á ræðu mína áðan, að tala um umburðarlyndi höfuðborgarsvæðisins. Hvað má þá segja um umburðarlyndi Akureyringa? Ég vil fá svör hv. þm. við því hvort hún telji að vegakerfið milli Akureyrar og Reykjavíkur eða austur um frá Akureyri til Austurlands sé meira mál Akureyringa en annarra Íslendinga. (ÁRJ: Ég var ekkert að segja það.) Um þetta snýst málið. Að taka sig út úr á þann hátt sem hv. þm. gerir finnst mér ekki sanngjarnt.

Hvað finnst hv. þm. um þau plön sem ég var að vitna í, þar sem á næstu tólf árum á að setja 21 milljarð á vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu en ekkert í 16 þús. manna samfélag á Akureyri? Hver er þá umburðarlyndur? Eins og ég skil hv. þm. þá spyrðir hv. þm. Akureyringa við landsbyggðina. Þeir hljóta að hafa fengið, eftir skilgreiningu þingmannsins, of mikið vegna umburðarlyndis Reykvíkinga.

Þetta er mjög ósanngjörn framsetning og ég vildi benda á það.