Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 14:43:36 (4478)

2003-03-06 14:43:36# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég svari ekki þessum útúrsnúningum. Hv. þm. hefur ekki einu sinni hlustað á andsvar mitt áðan. Ég sagði einmitt að vegakerfi okkar væri allt saman, þjóðvegakerfið, okkar allra. Þess vegna höfum við látið óátalið þegar meira fé hefur farið til landsbyggðarinnar. Ég ætla ekkert að fara að flokka landsbyggðina neitt. Ég er að tala um vegaframkvæmdir utan höfuðborgarsvæðisins og ætla alls ekki að fara að etja saman höfuðborgarsvæðinu og dreifbýlinu.

Aftur á móti er mjög ósanngjarnt, þegar mesta atvinnuleysið er hér, að minnst af fjármagninu skuli koma hingað þegar ætlunin er að ráða bót á atvinnuleysi og bágu atvinnuástandi hjá þjóðinni með þessu átaki. Þá kemur minnst til þeirra sem verst eru staddir varðandi atvinnu. Ég var að gera athugasemdir við það.

Ég minni á að við höfum ekki gert athugasemdir við að minna fé hafi komið til okkar á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. En við gerum það núna þegar tilgangurinn er að leysa ófremdarástand í atvinnumálum, eins og þessu frv. er ætlað að gera.