Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 15:13:13 (4487)

2003-03-06 15:13:13# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, BH
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur sem ítrekaði mikilvægi þess að menn áttuðu sig á og hefðu einhverjar hugmyndir um það hvernig ætti að bregðast við vegna hinna þjóðhagslegu áhrifa þeirra framkvæmda sem við erum að fara út í þessa dagana. Kannski hefur ekki farið fram mikil umræða um það hér í þinginu hvað varðar þessa umræddu framkvæmd, áherslan hefur verið á annarri framkvæmd sem við erum búin að afgreiða frá hinu háa Alþingi.

Eins og hæstv. iðnrh. rakti höfum við fengið hér til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á þeim lögum sem heimiluðu að samningar yrðu gerðir við Norðurál á sínum tíma um álbræðslu á Grundartanga, lög sem eru upprunalega frá árinu 1997. Norðurál hefur síðan óskað eftir því að iðnrn. og Landsvirkjun taki upp viðræður um þriðja áfanga álversins. Upphaflega var gert ráð fyrir að álverið yrði stækkað úr 90 þús. tonnum í 180 þús. tonn en í frv. segir að tækniframfarir valdi því að hagkvæmara sé að stækka álverið upp í 240 þús. tonn. Svo hljómar texti frv. reyndar upp á 300 þús. þannig að svigrúmið er orðið nokkuð meira en ætlað var í upphafi.

Það kom hins vegar fljótlega í ljós að ekki var unnt að afla orku fyrir svo mikla stækkun í einum áfanga og að auki var ekki unnt að taka ákvörðun um stækkun fyrr en fyrir lægi niðurstaða í mati á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Nú liggur sá úrskurður fyrir og því er unnt að leggja fram frv. um stækkunina hér á Alþingi.

[15:15]

Það má kannski, herra forseti, afsaka þá framkomu hæstv. ríkisstjórnar að leggja svo stórt mál fram á þessum tíma árs, þegar u.þ.b. vika er í að þinginu ljúki. Ég vil samt gera við það athugasemd. Það er reyndar ekki þannig að við fáum bara þetta mál til umfjöllunar í síðustu vikunni heldur bíða mörg stærri mál sem eru í vinnslu, þar af eru mörg mál í hv. iðnn. Nefni ég þar sem dæmi raforkulagafrv., mjög stórt mál og umfangsmikið sem við erum með í vinnslu. Annað frv. má nefna sem hér verður mælt fyrir á eftir, um raforkuver.

Ég verð að gagnrýna þau vinnubrögð, herra forseti, að það vinnulag skuli ætíð vera haft ár eftir ár, að stórmál komi svo seint fyrir þingið að þau þarf að vinna nánast í blóðspreng inni í nefndum, eins og því miður stefnir í að hv. iðnn. verði uppálagt að gera í þessu máli. Slík vinnubrögð eru hins vegar ekki til þess fallin að vanda lagasetningu og í raun óásættanleg. Ég verð að segja, fyrir mig og fyrir hönd þingmanna Samfylkingarinnar í iðnn., að við munum leggja áherslu á sá tími sem þarf til að skoða þetta mál verði notaður og málið fái ítarlega og vandaða umfjöllun í nefndinni. Annað er ekki bjóðandi þessari hv. stofnun.

Þegar við ræddum frv. um Fjarðaál fyrir nokkrum vikum gagnrýndu hv. þm. Samfylkingarinnar harðlega það fyrirkomulag sem tíðkað er í skattamálum stóriðjufyrirtækja og erlendra fyrirtækja sem hingað koma og fjárfesta. Við gagnrýndum að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki leggja meiri vinnu í að skapa almennar leikreglur fyrir skattlagningu slíkra fyrirtækja. Auðvitað væri óskastaðan sú, herra forseti, að menn gætu búið til þannig umhverfi fyrir fyrirtækin í landinu að ekki þurfi að semja sérstaklega um skattprósentu og fleira þegar erlend fyrirtæki eru fengin til að fjárfesta hér á landi.

Ójafnræðið bitnar ekki aðeins á íslenskum fyrirtækjum sem njóta ekki þeirra kjara sem hin erlendu fyrirtæki fá sem fjárfesta í stóriðjunni. Ójafnræðið verður líka, herra forseti, á milli þeirra fyrirtækja sem starfa hér, t.d. stóriðjufyrirtækjanna. Þetta kom til umræðu vegna frv. um Fjarðaál og var rakið ítarlega þar, m.a. var farið yfir það í hv. iðnn. Eftir að við afgreiddum frá Alþingi frv. um Fjarðaál sem heimilar því ágæta fyrirtæki sérákvæði um tekjuskattsprósentu upp á 18% --- það er í raun og veru þak á því sem hægt er að taka af þeim í tekjuskatt --- en stóriðjufyrirtæki í sömu grein koma að sjálfsögðu á eftir. Norðurál hefur búið við 32% skattprósentu, ef ég man rétt. Þeir hafa, að því er mér skilst, enn ekki greitt tekjuskatt en það er miðað við 32%. Alcan á Íslandi, sem áður hét Ísal, kemur hingað til landsins árið 1968 og greiðir 33% tekjuskatt, hefur greitt stórar fjárhæðir í tekjuskatt til íslenska ríkisins á þeim tíma sem það hefur starfað.

Herra forseti. Það er óásættanlegt og óviðunandi vinnulag að samið sé um svo almenna hluti og almennt starfsumhverfi fyrirtækja eins og skattprósentu. Nú hlýtur það alltaf að vera þannig, herra forseti, að miðað við það ástand sem ríkir í þjóðfélaginu á hverjum tíma þurfi að semja um ákveðna hluti. Það getur oltið á ýmsu. Það getur oltið á efnahags\-ástandinu í landinu eða jafnvel í heiminum. Það getur oltið á stærð fyrirtækisins og ýmsu sem erfitt er að gera sér í hugarlund fyrir fram.

Herra forseti. Auðvitað eiga almennar leikreglur um tekjuskattsprósentu að gilda fyrir alla. Jafnvel væri hægt að hugsa sér --- án þess að ég ætli að að leggja drög að nýjum reglum varðandi skattamál stóriðjufyrirtækja hér --- ef menn telja nauðsyn á og að um millibilsástand sé að ræða þar sem nauðsynlegt sé að hliðra til frá þeim reglum sem gilda um íslensk fyrirtæki, að hafa sérstaka skattprósentu vegna þeirra fyrirtækja sem eru starfandi í þessari grein.

Ég tel það mikið forgangsverkefni að reyna að koma þessu umhverfi í lag þannig að ekki þurfi að setja ríkisstjórn hverju sinni í þá aðstöðu að verða að semja um svona lagað við einstök fyrirtæki. Auk þessa, herra forseti, gefur auga leið að fyrirtæki sem nær betri samningum kallar á að önnur fyrirtæki komi á eftir í kjölfarið. Þessir samningar eru jú opinberir og þar af leiðandi eðlilegt að önnur fyrirtæki á sama sviði geri sömu kröfu.

Nú skilst mér að t.d. Alcan á Íslandi hafi gert kröfu um það við íslensk stjórnvöld að samningar þeirra um þessi mál verði teknir upp. Því hefur verið borið við af hálfu stjórnvalda að um ólíka samninga sé að ræða. Þetta var nokkuð sem við ræddum á sínum tíma í hv. iðnn. þegar þessi umræða fór fram vegna Fjarðaáls. Menn verða, herra forseti, að leggja vinnu í að búa til þannig umhverfi að óþarft sé að fara nýja leið í hvert og eitt skipti sem erlent fyrirtæki setur niður atvinnustarfsemi á landinu.

Auk þessa má skoða, herra forseti, það sem snýr að skattumhverfinu, þ.e. því umhverfi sem íslensk fyrirtæki búa við. Auðvitað er það á mörgum sviðum óásættanlegt. Reyndar hefur ýmislegt verið gert til að gera það umhverfi ásættanlegra fyrir fyrirtækin. Þar er hins vegar ýmislegt óunnið og þar vil ég sérstaklega nefna til sögunnar stimpilgjöldin, herra forseti. Í þessu frv. er, eins og í þeim frv. sem um svipuð mál hafa fjallað, ákvæði um stimpilgjöld og undanþágur frá því sem önnur fyrirtæki búa við hér varðandi stimpilgjöldin. Ég hlýt að spyrja hæstv. iðnrh. hvað standi til að gera af hálfu ríkisstjórnarinnar varðandi stimpilgjöldin. Ég man ekki betur en að því hafi verið lofað á sínum tíma, hástemmd loforð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, að stimpilgjöld yrðu afnumin í áföngum. Ef ég man rétt kom fram tillaga um afnám í áföngum í frv. til fjárlaga fyrir þetta ár sem síðan var dregin til baka. Ég hlýt að spyrja hæstv. iðnrh. hvað stendur til að gera í þessum efnum. Hvar eru loforðin um afnám stimpilgjalda í áföngum? Stendur ekki til að gera neitt í þeim efnum?

Hv. þm. Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir, hefur lagt fram frv. um afnám stimpilgjaldanna í áföngum. Það hefur ekki hlotið afgreiðslu. Það er reyndar í nefnd núna og væri áhugavert að vita hvort hugsanlegt væri af hálfu ríkisstjórnarinnar að samþykkja það frv. eða efni þess fyrir lok þessa kjörtímabils.

Herra forseti. Ég hef gagnrýnt þetta frv. á sama hátt og við gagnrýndum frv. um Fjarðaál, þennan skort á almennum leikreglum varðandi skattana. Hins vegar má segja að það sé ekki bara í skattumhverfinu sem almennar leikreglur og stefnumótun skorti hjá hv. ríkisstjórn. Hið sama blasir líka við á sviði umhverfismálanna. Svo virðist sem hæstv. ríkisstjórn hafi enga sjálfstæða stefnu um hvernig hún vilji sjá farið með náttúruauðlindir landsins, hverjar þeirra eigi að nýta og hverjar ekki.

Herra forseti. Grundvöllur þess að unnt sé að móta slíka stefnu felst í tvenns konar aðgerðum. Í fyrsta lagi þarf að kortleggja náttúruna og meta eftir þeim aðferðum sem til þess hafa verið notaðar með góðum árangri í nágrannaríkjum okkar. Tillaga þess efnis og nánari útfærsla á þeirri hugmynd kemur fram í þáltill. sem ég ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar hef lagt fram á þingi. Að lokinni slíkri kortlagningu væri í raun og veru hægt að meta landið í heild og leggja mat á einstök svæði. Í kjölfarið væri hægt að gera það sem hæstv. ríkisstjórn er að því er mér skilst byrjuð á, þ.e. rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. En svo virðist sem hæstv. ríkisstjórn gangi illa að koma þeirri rammaáætlun til framkvæmda. Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh. hvernig gangi með þann áfanga rammaáætlunarinnar sem átti að ljúka núna í febrúar, muni ég það rétt. Ég hef þetta ekki alveg á hreinu en mig minnir að talað hafi verið um að þessum áfanga ætti að ljúka í febrúar. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. um hvort von sé á honum og hvenær, hvort einhvað liggi fyrir varðandi þá vinnu.

Auðvitað hefði verið eðlilegra, herra forseti, að leggja vinnu í að klára rammaáætlun og setja fram þá kosti sem í stöðunni eru og ákveða síðan í hvaða framkvæmdir ætti að ráðast. Þetta höfum við þingmenn Samfylkingarinnar margsinnis sagt við umræðuna. Það er óeðlilegt að hið háa Alþingi byrji á vitlausum enda og taki hvert stórmálið á fætur öðru fyrir án þess að fyrir liggi þessi ágæta rammaáætlun sem væri hinn eini rétti grundvöllur framkvæmda, við gætum þá séð hvernig heildarmyndin liti út áður en við tækjum ákvarðanir um einstakar framkvæmdir.

Ég tel mjög brýnt að þessari vinnu verði hraðað. Það kann að vera að í það þurfi að setja meira fjármagn eða meiri mannskap. Ég veit það ekki. A.m.k. þarf að flýta þessari vinnu. Aðeins á grundvelli slíkrar vinnu er hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir til framtíðar um nýtingu náttúruauðlindanna, nýta auðlindirnar sem best og hagkvæmast í svo mikilli sátt við umhverfið sem mögulegt er.

Herra forseti. Með gagnrýni minni á skort á almennum leikreglum er ég ekki að segja að Samfylkingin muni leggjast gegn því að stækka Norðurál, einkum í ljósi þess að úrskurður hæstv. setts umhvrh. í tengslum við orkuþörfina fór nokkuð farsællega að mínu mati miðað við þau ósköp sem í stefndi á tímabili. Samfylkingin er hlynnt uppbyggingu stóriðju svo fremi hún sé gerð í sem mestri sátt við umhverfið. En ég vil enn og aftur ítreka að mikilvægt er að slíkar stórákvarðanir séu teknar á grundvelli heildaráætlunar sem fyrir liggur um hvaða virkjanakostir eru í boði og hvernig sé hagkvæmast og best að nýta þá. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. iðnrh. um rammaáætlunina, hvort hún geti upplýst um hvernig þær framkvæmdir sem við erum að ræða um komi út í þeirri heildarmynd.

Að öðru leyti, herra forseti, munum við hv. þm. Samfylkingarinnar í iðnn. leggjast yfir þetta mál ásamt öðrum nefndarmönnum og skoða ofan í kjölinn hvað í því felst og gera betri grein fyrir afstöðu okkar við 2. umr. um málið.