Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 15:29:25 (4488)

2003-03-06 15:29:25# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[15:29]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Undanfarna mánuði, reyndar sl. tvö eða þrjú ár, hefur verið nokkur óvissa um stækkun Norðuráls. Nú hillir undir niðurstöðu. Því ber að fagna. Samkvæmt frv. þessu er gert ráð fyrir að Norðurál geti aukið starfsemi sína úr 90 þús. í 180 þús. tonn í ársbyrjun 2006, aftur í 240 þús. tonn árið 2009 og svo í 300 þús. tonn síðar.

[15:30]

Norðurál er eftirsóttur vinnustaður. Þetta er fyrirtæki í góðri sátt við umhverfið. Þetta fyrirtæki sótti um orku til stækkunar í september árið 2000, eða fyrir tveimur og hálfu ári, eins og fram kemur í greinargerð með frv. Ég verð að segja að mér finnst afleitt að fyrirtækið skuli þurfa að bíða svo lengi eftir svari við ósk sinni um stækkun. Staðreyndin er sú að við Íslendingar höfum leitað í áratugi að erlendum aðilum sem vildu fjárfesta í orkufrekum iðnaði á Íslandi, lengst af með litlum árangri með fáeinum undantekningum þó. Þarna er til staðar fyrirtæki sem hefur sannað sig að vera hið ágætasta fyrirtæki. Það er í góðum rekstri, er eftirsóttur vinnustaður og slæmt er að slíkur aðili skuli þurfa að bíða svo lengi eftir svari við ósk sinni. Það er samkeppni um orkuna á Íslandi í dag sem betur fer vil ég segja. Ég held samt að við höfum búið til allt of flókið og langt ferli varðandi virkjanamál okkar. Ef Landsvirkjun vill fara af stað með virkjun eða veituframkvæmdir þá þarf að byrja á rannsóknaleyfi. Síðan kemur mat á umhverfisáhrifum. Þá koma skipulagsmál, aðalskipulag, deiliskipulag, framkvæmdaleyfi og í sumum tilfellum breytingar á friðlýstum svæðum. Á öllum stigum málsins eru kærufrestir og þegar þeir eru nýttir til hins ýtrasta þá gerist það sem þarna hefur gerst, þ.e. að það tekur kannski tvö ár að koma slíku máli í gegn frá því að fyrst eru settar fram óskir um veituframkvæmdirnar.

Ég held reyndar að fleira hafi spilað inn í töf á þessu máli. Ég held að óvarlegar yfirlýsingar einstakra ráðherra hafi ekki greitt fyrir framgangi málsins og þá fyrst og fremst hæstv. landbrh., míns ágæta frænda, sem tók allt of stórt upp í sig að mínu mati varðandi þessar virkjanaframkvæmdir og klikkti svo út með því að kalla mig og fleiri hv. þm. sem höfum mælt með þessum framkvæmdum villimenn. Ég vona að hæstv. ráðherrar læri af þessu að svona götustrákaorðbragð sæmir ekki ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.

Norðlingaölduveitan er auðvitað forsenda fyrir því að Landsvirkjun geti útvegað þá orku sem til þarf til stækkunar á Grundartanga á tilsettum tíma. Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur þurfa að koma að þessari orkuöflun líka. Þau fyrirtæki þurfa þrjú ár til sinna framkvæmda og þess vegna ríður þeim auðvitað á að fá svar við því hvort Landsvirkjun ætlar að vera með eða hvort hún ætlar að fara í þessar framkvæmdir. Fyrstu viðbrögð Landsvirkjunar voru þau að geta ekki svarað þessu fyrr en í haust. En nú hafa þeir sem betur fer tekið af skarið.

Í umræðuna um Norðlingaöldu hefur það blandast að mikið hefur verið talað um Þjórsárver og ýmsir talað eins og að sökkva ætti Þjórsárverum sem eru náttúrlega gríðarlegar ýkjur. Menn hafa birt fallegar myndir af þessu dásamlega svæði, Þjórsárverum, og ýmsir látið líta út fyrir að sökkva ætti þessu öllu. Þetta eru náttúrlega bara ýkjur. Við fórum þarna í iðnn. þingsins, skoðuðum þetta svæði og sáum hvað átti að fara undir vatn þarna við Norðlingaöldu. Fyrst og fremst er það gróðurlaust svæði, grjót og gróðurleysi. Samkvæmt hugmyndum Landsvirkjunar átti að fara þarna örlítið inn í Þjórsárverin en ekki að eyða þar neinum náttúruperlum, síður en svo. Hugmynd Landsvirkjunar eða tillaga var geysilega hagkvæm, hagkvæm veita sem hefði verið stórkostleg framkvæmd. Svo varð að hæstv. umhvrh. sagði sig frá þessu máli vegna þess að hún taldi sig hafa lýst skoðun sinni á einhverju stigi málsins. Hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson tók að sér að ljúka málinu. Hann tók í það góðan tíma og vandaði sig mikið við þetta. Ég hafði reyndar talið að hann mundi staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar og samþykkja þessar framkvæmdir Landsvirkjunar. Hann kom hins vegar með nýja niðurstöðu og ég skil ósköp vel sjónarmið hans. Hann varð var við miklar tilfinningar í þessu máli og að málið færi kannski í mikinn hnút ef hann hefði samþykkt tillögu Landsvirkjunar og niðurstöðu skipulagsstjóra. Niðurstaða hans var málamiðlunarleið sem svo virðist að þeir sem hæst létu í andstöðu við þessa framkvæmd séu bærilega sáttir við. Því ber auðvitað að fagna. En auðvitað er þetta ekki eins hagstæð framkvæmd og varð til þess, eins og ég sagði, að Landsvirkjun hrökk aðeins í baklás og taldi sig þurfa hálft ár til þess að svara því hvort þeir færu í þessa framkvæmd. En nú hafa þeir sem betur fer tekið af skarið.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að við Íslendingar eigum að nýta auðlindir okkar til lands og sjávar innan skynsamlegra marka. Það er einfaldlega forsenda aukinnar hagsældar í þessu landi. Ég minni á varðandi framkvæmdirnar fyrir austan sem voru hér til umræðu fyrir örfáum dögum að fyrir lá umsögn frá Alþýðusambandi Íslands þar sem sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur að forsendur aukins hagvaxtar og bættra lífskjara á næstu árum sé stöðug og viðvarandi aukning útflutningstekna. Til þess að svo megi vera telur miðstjórn ASÍ mikilvægt að nýta allar auðlindir til lands og sjávar með skynsamlegum hætti. Í samræmi við þessa grundvallarskoðun er mikilvægt að nýta þá orku sem landsmenn búa að til uppbyggingar á samkeppnishæfu atvinnulífi.``

Ég er hjartanlega sammála þessu og hef oft látið þessar skoðanir í ljós. Það þýðir ekki að okkur sem viljum nýta náttúruna innan skynsamlegra marka þyki eitthvað minna vænt um landið okkar og náttúru þess en þeim sem hæst láta í andstöðu og leggjast gegn öllum stórframkvæmdum. Það verður að minna á það í leiðinni að framkvæmdir Landsvirkjunar eru til mikillar fyrirmyndar. Við fórum mikla ferð um hálendið, iðnn. Alþingis, fyrir líklega tveimur árum, tveggja daga ferð, og skoðuðum allar fyrirhugaðar framkvæmdir Landsvirkjunar og hugmyndir þeirra og í leiðinni allt það sem þeir hafa framkvæmt til þessa. Það verður að segjast eins og er að sá metnaður sem Landsvirkjun leggur í að gera mannvirki sín úr garði er til fyrirmyndar. Það er sama hvort litið er á lón, virkjunarmannvirki, línur eða vegi, allur frágangur á þessu er fyrirtækinu til mikils sóma. Talandi um vegi þá má minna á að vegir Landsvirkjunar hafa gert það að verkum að ég og aðrir fótfúnir Íslendingar getum notið hálendisins sem við gætum ekki annars.

Stækkun Norðuráls mun hafa gríðarlega mikil áhrif. Hún mun náttúrlega í fyrsta lagi hafa áhrif á þjóðarhag. Því er spáð að varanleg aukning landsframleiðslu vegna þessarar stækkunar verði hálft prósent á ári. Útflutningsverðmæti vegna þessa fyrsta áfanga stækkunarinnar verður sennilega um 12 milljarðar á hverju ári. Til verða 300--400 ný störf við verksmiðjuna og þjónustu við hana og það er nú einu sinni svo að mjög eftirsótt er að vinna við þessi stóriðjufyrirtæki. Þar spila náttúrlega inn í launin sem eru betri en almennt á vinnumarkaði. Ég minni á að Atvinnuráðgjöf Vesturlands sendi frá sér skýrslu um laun manna á Vesturlandi ekki alls fyrir löngu þar sem fram kom að stóriðjan á Vesturlandi greiðir langhæst laun allra starfsgreina á vinnumarkaðnum á Vesturlandi að fiskveiðum undanskildum. Meðalstarfsaldur í stóriðjufyrirtækjum er mjög hár. Ég held að hann sé yfir 20 ár í Ísal og svipað í Sementsverksmiðjunni og járnblendiverksmiðjunni. Það segir að þetta eru eftirsóttir vinnustaðir. Það er alltaf biðlisti eftir vinnu þarna. Þegar Norðurál tók til starfa árið 1998 sótti á annað þúsund manns um vinnu þar. Ég skil því aldrei þá sem tala niður til þessara starfa. Sumir tala um þau eins og einhver annars flokks störf og ég skil ekki af hverju þetta eru eitthvað ómerkilegri störf en störf við annan iðnað á Íslandi eða önnur þau störf sem til falla hjá okkar þjóð.

Áhrif á svæðið vegna þessarar stækkunar, þ.e. svæðið norðan Hvalfjarðar, verða auðvitað mjög mikil. Við sem búum á Akranesi þekkjum hvað gerðist þar þegar járnblendiverksmiðjan hóf starfsemi í lok áttunda áratugarins. Þá varð mikil fjölgun íbúa þarna. Síðan varð kyrrstaða þangað til Norðurál tók til starfa 20 árum síðar. Þá varð aftur mikil fjölgun, mikill uppgangur og mikil bjartsýni. Við sjáum í dag að gríðarlega mikið er byggt á Akranesi og að mér heyrist fyrst og fremst vegna væntinga um þessa stækkun álversins. Áhrifin á sveitirnar í kring eru líka mjög mikil. Við vitum það sem þarna búum að starfsemin á Grundartanga hefur gert það að verkum að búskapur hefur haldist miklu betur á jörðum þarna en annars staðar á Vesturlandi. Menn hafa ekki þurft að selja jarðir sínar og fara burtu og selja þær sem sumaróðul fyrir höfuðborgarbúa eins og gerist hérna vestur um og vestur á Snæfellsnes og Dali og víðar. Margir í sveitinni þarna vinna í verksmiðjunni samhliða búskapnum, t.d. í Hvalfjarðarstrandarhreppi einum, sem er nú ekki mjög fjölmennur hreppur, vinna 25 manns á Grundartanga og ég hygg að það sé svipað eða trúlega meira í Skilmannahreppi þannig að þetta hefur gríðarleg áhrif á sveitirnar í kring, mjög jákvæð áhrif. Sama má segja um Borgarnes þar sem tugir Borgnesinga vinna í álverinu og reyndar fólk upp um Borgarfjörð allt upp í Reykholtsdal. Á öllu þessu svæði eru miklar væntingar og mikil ánægja með þessa fyrirhuguðu stækkun.

Stækkun Norðuráls mun því tvímælalaust styrkja byggðina norðan Hvalfjarðar. Það er nú svo að 84% starfsmanna í álverinu búa norðan Hvalfjarðar og þar er sú stefna ríkjandi að fólk norðan fjarðar gengur fyrir með vinnu. Hátt í 70 þjónustuaðilar á Vesturlandi höfðu þarna viðskipti á síðasta ári. Ég hygg að þetta hlutfall sé svipað í járnblendiverksmiðjunni þó ég hafi ekki séð nýjar tölur um það. Þar vinnur að stærstum hluta fólk sem býr norðan fjarðar.

Þessi fyrirhugaða stækkun á Grundartanga mun því hafa gríðarlega jákvæð áhrif á þetta svæði sem er auðvitað hið besta mál. Reiknað er með því að þegar stækkunin verður að fullu gengin í garð --- það er að vísu kannski áratugur í það --- verði um 570 manns starfandi við álverið, og þar tala menn um að afleidd störf séu 1,5 á hvert starf. Þarna erum við því að tala um talsvert á annað þúsund störf þegar verksmiðjan verður komin í fulla stærð.

Sem betur fer er talað um frekari uppbyggingu á Grundartanga. Grundartangi býður upp á gríðarlega mikla möguleika. Þar er mikið landsvæði, góð höfn, frábær höfn sem reyndar kemur til með að þurfa að stækka á næstu árum og það er enginn vafi á því að þarna mun koma frekari starfsemi og reyndar er nú þegar fyrirtæki að skoða möguleika á uppbyggingu á nýrri starfsemi.

Herra forseti. Ég vil bara með þessum örfáu orðum fagna framlagningu þessa máls og vona að það fái afgreiðslu á Alþingi sem fyrst.