Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:09:13 (4493)

2003-03-06 16:09:13# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Guðjón Guðmundsson horfa mjög þröngt á þetta mál. Hann horfir á álframleiðsluna hér á landi í hlutfalli við álframleiðslu í heiminum. Við erum nú gefnir fyrir að líta dálítið stórt á okkur og meta okkur þannig á heimsvísu. Ég horfi á atvinnulífið og útflutningsframleiðslu Íslands. Verði af þeirri stækkun sem þarna er fyrirhuguð til fulls og framkvæmdum fyrir austan og jafnvel fyrirhugaðri stækkun við Straumsvík þá mun láta nærri að útflutningstekjur okkar verði orðnar um 45--55% tengdar áli. Við verðum komin í verri stöðu en varðandi fiskinn á árunum upp úr 1980. Það er gríðarleg áhætta fyrir land eins og Ísland. Sömuleiðis verða um 80% af virkjaðri orku okkar bundin í einni atvinnugrein, hráefnisframleiðslu á áli. Ég tel þetta líka verulegt umhugsunarefni. Með þessum hætti erum við keyrð inn í mjög fábrotið atvinnulíf og einhliða notkun á orkunni okkar.

Það er rangt hjá hv. þm. láti hann að því liggja að ég tali niður til starfsfólks sem er að vinna sín störf. Það geri ég ekki. Ég hef hvergi kynnst öðru en að vinnandi fólk, hvort sem það er við landbúnað, sjávarútveg eða í verksmiðjum, í álverksmiðjunni á Grundartanga eða járnblendiverksmiðjunni, leggi sig alls staðar fram. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem leggur sitt af mörkum með höndum sínum og hugviti hvar sem er.