Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:15:52 (4496)

2003-03-06 16:15:52# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:15]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ekki get ég sagt að ég sé sammála miklu af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Ég tek undir það með hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni að hvað varðar skatta er ekki verið að mismuna. Það er einmitt verið að koma í veg fyrir það. Rétt er að draga það fram að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur tekjuskattur á fyrirtæki verið lækkaður úr 50% í 18% og það er verið að færa þessi fyrirtæki að því skattumhverfi. Það er stærsti liðurinn í skattapakka fyrirtækja.

Ég get svo sem tekið undir það að hv. þm. hefur ekki talað niðrandi um það fólk sem vinnur í álverksmiðjum. Hins vegar, eins og fram kemur í þingtíðindum, hefur þingmaðurinn háttvirtur talað afskaplega óvirðulega um störf fólksins sem leggur sig allt fram, og er kannski af öðrum toga.

Hins vegar verður hv. þingmanni mjög tíðrætt um, og það er svolítið stefna í málflutningi hv. þm. Vinstri grænna, að störf í álverksmiðju séu afskaplega einhæf, þetta sé einhæft atvinnulíf. Það er einfaldlega rangt. Ég spyr hv. þm. hvort hann þekki ekki öll þau nýsprotafyrirtæki sem hafa sprottið upp í samstarfi við Alcan í Straumsvík og Norðurál á Grundartanga. Ég spyr hv. þm. hvort hann viti hver hafi fengið nýsköpunarverðlaun Útflutningsráðs. Viti hann það ekki get ég upplýst að það var Jón Hjaltalín Magnússon og fyrirtæki hans fyrir það að flytja út hugbúnað og róbóta, fyrir verkefni sem hefur verið unnið og þróað í samstarfi við álverksmiðju.

Þingmaðurinn hlýtur að gera sér grein fyrir því að fjölmargar smiðjur og þjónustufyrirtæki hafa viðskipti við álverksmiðjur og það eru þau sem fagna tilkomu þeirra. Dæmi um það má vel sjá í Hafnarfirði, og hv. þm. ætti að heyra bæjarstjórann á Akranesi lýsa áhrifum Grundartangauppbyggingarinnar á mannlíf og atvinnulíf á Akranesi.