Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:46:44 (4502)

2003-03-06 16:46:44# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:46]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra ber friðlandið fyrir brjósti í úrskurði sínum. Ég hef talið það vera þakkarvert og til fyrirmyndar að hann skuli hafa virt friðlýsinguna og friðlandsmörkin í úrskurðinum. Það kemur líka í ljós í svari hans núna að hann gerir þá kröfu að grunnvatnsstaðan sé óbreytt. Þá liggur auðvitað beint við, herra forseti, að spyrja: Ef það kemur í ljós þegar farið verður að reikna þessi mál til hlítar að grunnvatnsstaðan í verunum breytist við að gera þetta setlón, og við þá staðreynd að þar verði tekinn stærstur hluti Vesturkvíslar og Litlu-Arnarfellskvíslar, getum við þá átt von á því að hæstv. settur umhvrh. hafni því að þetta setlón verði framkvæmt? Og hvernig eigum við að komast að því án þess að setja þetta sérstaka setlón í mat á umhverfisáhrifum?

Herra forseti. Það kom fram í máli forstjóra Landsvirkjunar á fundi sem haldinn var með iðnn. og umhvn., sameiginlegum fundi þar sem þessi úrskurður var til umfjöllunar, að Landsvirkjun hefur aldrei litið á veitu nákvæmlega á þessum stað sem annað en sjálfstæða framkvæmd. Og forstjóri Landsvirkjunar sagði það beinum orðum að nú væru þeir að fá þetta setlón framkvæmt sem mótvægisaðgerð og það væri þess vegna sem það þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. Það er þessu sem ég mótmæli, herra forseti, að við skulum geta kallað hlutina tveimur ólíkum nöfnum. Ef það er sjálfstæð framkvæmd þarf það að fara í mat, en ef það heitir mótvægisaðgerð, nákvæmlega sama framkvæmd, þarf það ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. Mér finnst þetta vera tvískinnungur, herra forseti, og ég gagnrýni hann.