Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 17:48:23 (4516)

2003-03-06 17:48:23# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[17:48]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og skal endurtaka það sem ég hef reyndar sagt áður í andsvörum að þetta mál er seint fram komið, því verður ekki neitað. En það eru nokkur atriði sem mig langar aðeins að koma inn á sem hafa komið fram í umræðunni.

Þá er það fyrst að það er fundið að því að ekki skuli vera skapaðar almennar reglur um skattamál þannig að ekki þurfi að koma til þess að gerðir séu samningar eins og sá sem hér um ræðir og enn fremur sá samningur sem gerður var við Fjarðaál. Þá er það að segja að auðvitað er það framtíðarstefna stjórnvalda að almennar reglur gildi og það verði það jákvætt og áhugavert íslenskt skattumhverfi að ekki þurfi á slíkum samningum að halda. Hins vegar er það þannig með svona stór fyrirtæki eins og hér um ræðir að þau falla ekkert sérstaklega vel að öllum þeim skattareglum sem við búum við í dag. Ýmsir skattar sem lagðir eru á eru þess eðlis að viðkomandi fyrirtæki njóta ekki þeirra kosta sem þeir skattar eiga að uppfylla, skattar sem varðar ýmis gjöld, t.d. iðnaðarmálagjald. Það hlýtur að teljast eðlilegt að á það sé litið sérstaklega.

Eins má segja um fasteignaskattana sem eru skattar sveitarfélaganna. Ég held að flestir sjái að það er dálítið langt gengið að láta fyrirtæki sem þessi sem hér um ræðir borga fasteignaskatta eins og lög kveða á um og sama má segja um gatnagerðargjöld og annað slíkt. Ég tel ekki að hér sé um að ræða jafngríðarlegar skattaívilnanir og talað hefur verið um.

Það var talað um stimpilgjöldin. Það er rétt sem kom fram að það hefur verið stefna stjórnvalda að draga verulega úr þeim. Það hefur svo sem gengið hægt, það er ekki hægt að neita því. Að það sé ósamræmi á milli fyrirtækja er rétt. Hins vegar hefur sú ákvörðun verið tekin í tengslum við stækkun Norðuráls að tekjuskattshlutfallið lækki niður í 18%. Það gerist samt ekki strax, það gerist ekki fyrr en árið 2009. Sú lækkun á að sjálfsögðu við um fyrirtækið í heild sinni, hvort sem það verður rekið áfram sem eitt fyrirtæki eða hvort sérstakt fyrirtæki verður stofnað um stækkunina.

Síðan varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Hún segir að það vanti pólitískar ákvarðanir. Það sem kemur fram í þessu frv. er pólitísk ákvörðun. Það er pólitískur vilji stjórnvalda að heimila þessa stækkun, og frv. gengur út á það. Þegar það hefur verið samþykkt hér sem lög frá Alþingi er það pólitísk stefna og pólitísk ákvörðun.

Síðan er það ákvæðið í 3. gr. sem hefur komið hér til umfjöllunar, síðasta málsgrein 3. gr. Það snýst um að heimilt verði í fjárfestingarsamningi að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema slíkir skattar og gjöld séu þá lögð með almennum hætti á önnur fyrirtæki hér á landi þar sem samsvarandi útblástur eða mengun á sér stað, þar með talin álfyrirtæki. Þetta er í sjálfu sér ekkert annað en það að hér er kveðið á um að jafnræði skuli gilda á milli fyrirtækja. Þetta er engin dekurstefna við eitt eða tvö fyrirtæki, þetta er jafnræðisregla. Ég útiloka ekki að það sé hægt að hugsa sér að það verði eitthvert gólf þannig að það þurfi ekki að leggja þetta á --- ef til þess kemur --- smæstu fyrirtæki og allra minnsta útblástur, heldur sé alveg hægt að hugsa sér að þarna verði um það að ræða að þeir sem eru með slíkt alveg í lágmarki mundu ekki falla undir þetta ákvæði. Þetta eru bara hlutir sem ekki er búið að taka neina ákvörðun um en engu að síður er kveðið á um þetta í frv. Mér finnst hv. þingmenn vera að gera of mikið úr þessu og að það beri svolítinn keim af því að það sé verið að finna sér eitthvað til þess að setja út á, en ég lýsi nú ánægju með það að mér heyrist að hv. þm. Samfylkingarinnar séu almennt hlynntir þessari stækkun álversins á Grundartanga. Það er gott mál.

Mig langar til að fara nokkrum orðum um rammaáætlun sem hér hefur komið þó nokkuð mikið til umfjöllunar. Undirbúningur að gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma hófst í apríl 1999 með skipun verkefnisstjórnar og faghópa. Í 1. áfanga, sem er að ljúka, er áhersla lögð á mat virkjunarhugmynda í jökulám, að mestu á hálendinu, og á mat hugmynda um virkjun jarðhita til raforkuframleiðslu á háhitasvæðum nærri byggð auk Torfajökulssvæðis. Mat stendur nú yfir á 19 kostum í vatnsafli og um 20 kostum í jarðhita. Niðurstöður faghópa munu berast verkefnisstjórn í marsmánuði, þ.e. í yfirstandandi mánuði. Verkefnisstjórnin mun draga þær saman í yfirlitsmyndir og skýrslur sem greina frá þeirri aðferðafræði sem beitt er við mat og samanburð, annmörkum sem eru á matsvinnu vegna skorts á gögnum eða vegna annarrar óvissu, og ýmsum leiðum til að raða virkjunarhugmyndunum í forgangsröð með tilliti til hagkvæmni og umhverfisáhrifa. Þess er vænst að gögnin nýtist einnig sem upplýsingar fyrir þá sem vinna að skipulagsáætlunum um landnotkun og verndaráætlunum fyrir landsvæðin.

Niðurstöður 1. áfanga munu sýna að það sem mestu ræður um röðun kosta er annars vegar hagkvæmni og hins vegar þættir sem ráðast af mati á náttúrufarslegum gildum. Það sem skilar mestu í heildarmati á umhverfisáhrifum af orkuvinnslu er að bera saman orkuvinnslukosti og vísindalega unna náttúruverndaráætlun. Þess vegna er mikilvægt að treysta vísindalegan grunn að verndaráætlunum fyrir hálendi Íslands. Niðurstöður í 1. áfanga byggjast á samanburði á milli einstakra virkjunarsvæða en ekki nema að litlu leyti á sýn til landsins alls. Matið er mikið byggt á náttúrufarslegu verðmæti einstakra svæða en það mat hlýtur að líða fyrir skort á yfirsýn þegar eingöngu eru til rannsóknir á þeim stöðum sem áhugaverðir þykja til virkjunar.

Af þessum sökum er æskilegt að jafnhliða mati á virkjunarkostum verði í 2. áfanga rammaáætlunarinnar einnig unnið að náttúruverndaráætlunum í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun enda leggi þessar stofnanir verulega til verksins á móti.

Með 1. áfanga fæst samanburður á öllum 35--40 stærstu virkjunarkostum í vatnsafli og í jarðhita nærri byggð. Í 2. áfanga yrði athygli beint að smærri virkjunum í vatnsafli sem jafnframt eru nær byggð á láglendi. Jarðhitavirkjanir sem eftir eru liggja hins vegar meira á miðhálendinu og í 2. áfanga er stefnt að forathugun á fimm vatnsorkusvæðum, fyrir utan þau sem byrjað er á og eru langt komin í undirbúningi, og sex nýjum háhitasvæðum. Auk þess sem safnað er efni til 2. áfanga með rannsóknum verður þörf á að endurskoða niðurstöður úr 1. áfanga jafnótt og fram koma hugmyndir um breytta tilhögun og mótvægisaðgerðir til að sneiða hjá óæskilegum umhverfisáhrifum. Þetta mat gæti verið í höndum fámennari verkefnisstjórnar sem nyti aðstoðar stofnana og sérfræðinga en umfangsmeiri matsvinna á vegum faghópa yrði varla nauðsynleg fyrr en kominn er vænn hópur rannsakaðra kosta eftir nokkur ár.

Þetta vildi ég segja um stöðu mála í sambandi við rammaáætlun en þarna er um gríðarlega mikið verkefni að ræða, og vissulega mjög mikilvægt líka.

Ég vil þá að síðustu segja það, hæstv. forseti, að það er skammt stórra högga á milli, það er óhætt að taka undir það með hv. þingmönnum, þar sem í gær voru samþykkt hér lög um Fjarðaál en í dag er mælt fyrir frv. til laga um breytingar á lögum sem varða stækkun Norðuráls. Það hefur verið nokkuð gert úr því í umræðunni að þetta sé merki um þröngsýni stjórnvalda og þetta sé það eina sem lögð sé áhersla á. Það er alls ekki rétt. Það er hins vegar þannig að á þessu sviði eru erlendir aðilar tilbúnir að fjárfesta á Íslandi og þess vegna er brugðist við því á jákvæðan hátt. Það verða hv. þm. að hafa í huga.

Ég vil halda því fram að ímynd álfyrirtækja hafi breyst mjög mikið á síðustu árum, það sýnir bara best umræðan sem nú hefur farið fram um stækkun Norðuráls miðað við þá umræðu sem fór fram á þeim tíma þegar Norðurál hóf störf á Íslandi. Það voru mikil mótmæli og forveri minn stóð frammi fyrir því að honum voru afhentar mótmælaundirskriftir á Arnarhóli og það var undir lögregluvernd. Þannig var tíminn þá en ég lýsi mikilli ánægju með það að ímynd þessara fyrirtækja hefur breyst mikið. Ég held að það sé m.a. vegna þess að bæði Norðurál og Ísal hafa verið að gera góða hluti, hafa veitt fólki vel launaða vinnu og hafa staðist allar kröfur hvað varðar mengunarþáttinn.

Þetta held ég að ég hafi lokaorð mín í þessari umræðu og þakka fyrir hana.