Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:02:54 (4518)

2003-03-06 18:02:54# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:02]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að jafnræðið sé einmitt tryggt með þessum texta eins og hann hljómar. (Gripið fram í.) Ég sé ekki að það þurfi að breyta honum. Þetta er ákvæði til þess að tryggja jafnræði. En að sjálfsögðu verður farið yfir þetta í nefndinni. Ef þarna er einhver vafi á má alltaf skoða hugsanlegar breytingar á texta.

Hv. þm. spurði líka um Eftirlitsstofnun EFTA. Sá samningur sem nú er í gildi við Norðurál hefur fengið meðferð hjá Eftirlitsstofnun EFTA, eins og oft hefur komið fram, og samþykki þar. Ég reikna því með því að sú breyting sem nú er gerð á samningnum verði líka borin undir eftirlitsstofnunina.

Ég man ekki hvort það var fleira sem hv. þm. ... (SvanJ: Jú, samningar.) Já, hvort þegar séu komnir samningar um orkuverð. Það er búið að tala um orkuverð að sjálfsögðu á milli þessara aðila og kominn einhvers konar rammasamningur. En það hefur ekki verið lokið við hann endanlega. Alla vega er hann kominn nægilega langt til þess að fyrirtækið treystir sér til þess að fara að vinna að stækkun og í viðræður við viðskiptaaðila sem hugsanlega mundu sjá fyrirtækinu fyrir hráefni og eins að fara í viðræður við lánastofnanir.