Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:06:57 (4521)

2003-03-06 18:06:57# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:06]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það þarf ekki endilega að þýða að jafnræði sé milli fyrirtækjanna þó að sett séu sambærileg ákvæði í lögin frá því í gær og það sem verið er að fjalla hér um vegna þess að þetta fyrirtæki á lengri sögu og hjá þessu fyrirtæki liggur fyrir samningur um raforkuverð. Það liggur líka fyrir að talað var um að lækka þá tekjuskattsprósentu sem fyrirtækið bjó við samkvæmt gamla fyrirkomulaginu.

Ég spyr því bara mjög ákveðið: Er endurskoðun á fyrra raforkuverði inni í þessu? Endurskoðuðu menn raforkuverðið eða verður það endurskoðað með tilliti til þeirra breyttu skattareglna sem þarna er um að ræða?

Síðan hlýt ég að spyrja og satt að segja vonast til þess að hægt sé að breyta þessu ákvæði um að öll önnur fyrirtæki séu sett undir hvað varðar þetta ákvæði um mengunina vegna þess að eins og það er orðað þá er varla hægt að sjá að það komi hagsmunum þessa álfyrirtækis neitt við hvernig við setjum reglur um annan atvinnurekstur í landinu hvað þetta varðar. Með því að setja þetta orðalag inn er miklu frekar hægt að lesa þá þannig að það sé hugsað til þess að koma í veg fyrir að stjórnvöld á Íslandi geti sett ákvæði af þessu tagi, þ.e. að það að draga öll önnur fyrirtæki inn í þetta sé hugsað beinlínis til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að koma svona ákvæði við á Íslandi.

Ef það er hugsunin í þessu þá segi ég: Stjórnvöld á Íslandi hljóta að hafa verið í afar erfiðri samningsaðstöðu gagnvart þessu fyrirtæki þar sem þau fallast á þetta.