Raforkuver

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:36:14 (4527)

2003-03-06 18:36:14# 128. lþ. 90.5 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mér finnst nú eiginlega ástæða til að velta því fyrir sér hvort þetta raforkulagafrv. sem er til meðferðar hjá hv. iðnn. sé í strandi eða hvort það geti verið að hæstv. ráðherra geri ráð fyrir því að (Gripið fram í.) málið sé bara í strandi og ekkert sé hægt að gera annað en koma með þessa skemmri skírn hingað og klára málið með þessu stutta frv., hvort það hafi orðið niðurstaða milli stjórnarliða að þetta væri svona björgunarbátur í málinu. Mér dettur það nú aðeins í hug að slíkt væri mögulegt og fróðlegt verður að sjá framhaldið.

En það sem ég ætla að segja um þetta mál almennt er að ég sé ástæðu til þess að fara jákvæðum orðum um hvað verið er að tala hérna um. Þetta er niðurstaða sem ég styð, þ.e. að raforku verði aflað með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir vegna þarfarinnar sem nú liggur fyrir á raforku til framleiðslu á áli í Hvalfirði. Ég ætla hins vegar að sleppa því að ganga nánar eftir þeim spurningum sem ég lagði fram í umræðunni áðan. En mér finnst að hæstv. ráðherra hefði kannski getað svarað þeim skýrar. Sérstaklega er ég hugsi yfir því að þetta fyrirtæki sem um er að ræða skuli fá breytingar á sínum skattareglum sem um var samið þegar um var að ræða miklu lægra raforkuverð en verið er að tala um í þeim samningum sem hafa verið gerðir síðan. Mér finnst a.m.k. að þingið ætti að fá að vita hvort ekki hafi verið gætt hagsmuna okkar í þessu máli með þeim hætti að úr því nú á að gefa eftir á skattasviðinu þá hafi líka raforkuverðið verið endurskoðað og fyrirtækin sem eru í þessari framleiðslu hér á landi standi jafnfætis í heildina. Það er ekki nóg að menn hafi sömu prósentuna í skattheimtunni ef um er að ræða kannski verulegan mismun á raforkuverði því framleiðslukostnaður á áli hlýtur þó að vera samanlögð útkoma út úr þessu þegar upp er staðið. Ýmislegt er nú fleira í þessum pökkum öllum saman.

Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál. Ég tel að það sé svolítið skondið að menn skuli telja sig knúna til þess að koma með þetta inn í sérstöku frv. En ástæðurnar fyrir því kunna að vera einhverjar sem ég hef ekki áttað mig á og ætla svo sem ekki að fara að velta mér upp úr því hér. En ég taldi ástæðu til þess að koma hér og lýsa því yfir að ég er sammála því að orkunnar verði aflað með þeim hætti sem hér gert ráð fyrir.