Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:43:04 (4529)

2003-03-06 18:43:04# 128. lþ. 90.6 fundur 637. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:43]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að ræða þetta mál í neinum smáatriðum og ekki einu sinni í aðalatriðum einfaldlega vegna þess að ég hef ekki haft tækifæri til þess að kynna mér það. Ég var að sjá þetta þingmál núna. En ég tek eftir því að hæstv. ráðherra tekur fram að gert sé ráð fyrir því að þessi lög taki gildi í október á þessu ári. Satt að segja hrökk ég við. Ég hafði talið mér trú um það þegar ég sá þetta mál hér á borðum okkar alþingismanna að hæstv. ráðherra ætlaði að útbýta því hér til kynningar vegna þess að örfáir dagar eru eftir af þinginu og ekki tök á því að senda frv. út til umsagnar eða fjalla um það með þeim hætti sem vert er, því hér er greinilega á ferðinni veruleg breyting frá því sem nú er hvað varðar þessi svæði.

Ég velti líka fyrir mér: Úr því það var svona mikil vinna hjá nefndinni að gera þessar tillögur og hæstv. ráðherra að undirbúa málið, hvers vegna hún hefur ekki valið þann kostinn að útbýta því hér eingöngu til kynningar og af hverju lýsti hæstv. ráðherra því ekki hér yfir ef hún hefur þá skoðun? Ég verð að taka það þannig að ráðherra vilji að málið klárist hér og verð að segja að ég er nú svona til að byrja með svolítið hissa á því. En kannski verður það útskýrt fyrir okkur hv. þm. sem eigum sæti í umhverfisnefndinni að bæði sé nauðsynlegt að gera þetta með slíkum hraða sem hér er gert ráð fyrir og að málið sé ekki stærra en mér sýnist og því sé allt í lagi að afgreiða það með þessum mikla hraða, sem hlýtur að þýða að menn fá ekki tækifæri til þess að fjalla mjög grannt og vandlega um þetta mikilsverða mál.

Ég hef staðið í þeirri meiningu að lögin sem hér um ræðir vernduðu þetta svæði tryggilega og þess vegna væri engin ástæða til þess að gera neitt með miklum hraða eða í tímaþröng hvað varðar breytingar á þessu og þess vegna sé ástæða til þess að menn skoði nú þetta plagg vel fram að næsta þingi og afgreiði þetta þá með venjulegum hætti þegar þeir hafa gefið sér góðan tíma til að fara yfir málið.

Þetta vildi ég nú segja um málið, hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða um einstakar breytingar sem hér er um að ræða. Mér sýnist í fljótu bragði að þetta gangi kannski númer eitt út á að þrengja og minnka það svæði sem lögin taka til. Það getur vel verið að fyrir því séu ágætisástæður og ætla ég ekki að dæma um það núna. En ég áskil mér allan rétt til þess að óska eftir góðri umfjöllun um þetta mál í hv. nefnd.