Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 19:52:37 (4534)

2003-03-06 19:52:37# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[19:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að leggja dóm á þetta frv. en þó vekja athygli þau markmið sem hæstv. ráðherra leggur sérstaklega áherslu á, að örva samkeppni á milli hafnanna. Þá vakti athygli hve lengi og af hve miklum ákafa hæstv. ráðherra talaði fyrir hlutafélagavæðingu hafna á Íslandi. Hann færði rök fyrir máli sínu eða setti öllu heldur fram staðhæfingar. Hlutafélagavæðingin mundi laða fleiri til samstarfs um eignarhald af einhverju tagi. Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvaða eignarhald af einhverju tagi hann er að tala um. Hvaða aðila er hann að tala um þar? Og hverjir eru kostirnir að mati hæstv. ráðherra? Jú, möguleikar á því að greiða arð til eigenda. Finnst hæstv. ráðherra sem á að koma hér fram fyrir skjöldu fyrir hönd skattgreiðenda þetta vera helstu kostirnir við að gera íslenskar hafnir að hlutafélögum, að veita fjármagn út úr höfnunum í vasa nýrra eigenda?

Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri betur fyrir okkur hvað hann á við þar, því við þekkjum náttúrlega dæmin úr einkavæðingu annars staðar frá þar sem einkavæðingin hefur leitt til stóraukins kostnaðar fyrir skattborgarann. Ég er hræddur um að hæstv. ráðherra skuldi okkur nánari skýringu á því hvað hann á við.