Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:13:42 (4539)

2003-03-06 20:13:42# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir það fyrsta vil ég minna hv. þingmann á að það er stjórnarfrv. sem hér er verið að mæla fyrir. Að sjálfsögðu fær frv. þinglega meðferð, til þess er það hér til afgreiðslu. Það hefur verið unnið mjög vandlega að því. Mér finnst hins vegar að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefði þurft að kynna sér efni þess betur, t.d. er sérkennileg sú fullyrðing að verið sé að skapa skilyrði til þess að Reykjavíkurhöfn hafi betri aðstöðu en hún hefur núna til þess að hafa yfirhöndina í samkeppni við fiskihafnir. Staðreyndin er í dag sú að Reykjavíkurhöfn hefur algera yfirburði yfir allar aðrar hafnir í landinu. Á meðan halli er á öllum höfnum landsins samtals hefur Reykjavíkurhöfn mjög háar fjárhæðir í afgang af rekstri sínum, sem betur fer.

Breytingin sem hér er einmitt verið að gera með þessu frv. er að skapa skilyrði til þess að fiskihafnirnar geti fengið eðlilegar tekjur af sjávarútveginum en á móti liggur alveg ljóst fyrir að samkeppnisyfirvöld, og um það er alveg sérstaklega fjallað og gert ráð fyrir því, verða auðvitað að sjá til þess að ekki sé fært á milli í rekstri hafna enda er algerlega óleyfilegt að færa tekjur úr vöruhafnaþjónustunni yfir í þjónustu við fiskiskipin. Það er grundvallaratriði. Og við gerum ráð fyrir því að lækka verulega vörugjöldin á móti hagsbótum sem Reykjavíkurhöfn fær, m.a. vegna virðisaukaskattsbreytingarinnar. Ég tel að fiskihafnirnar muni standa mun betur eftir þessa breytingu en er í dag.