Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:17:32 (4541)

2003-03-06 20:17:32# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Frumvarpið gerir ráð fyrir að skapa fiskihöfnunum betra svigrúm til að afla sér tekna. Það er eitt af grundvallaratriðum þessa máls. Virðisaukaskattsbreytingin felur í sér hagsbót fyrir þær hafnir einnig. En það er algerlega rangt hjá hv. þm. að Reykjavíkurhöfn muni hafa 600 millj. kr. hag með þessari breytingu í virðisaukaskattskerfinu. Þær upplýsingar hef ég ekki fengið. Hann hlýtur þá að fá aðrar og betri upplýsingar en ég um það.

Hitt er á að líta að ég tel að lækkun á vörugjöldunum muni koma sjávarútvegi mjög til góða. Sjávarútvegurinn þarf á því að halda að vörugjöld séu lækkuð. Með lækkun á vörugjöldunum kemur það inn í kostnað við flutning á sjávarafurðum og með þessari breytingu er ætlast til þess og gert ráð fyrir að Reykjavíkurhöfn, og þessar stóru vöruhafnir sem eru reyndar ekki margar, verði ekki betur settar eftir þessa breytingu. Á það hef ég lagt mjög mikla áherslu. Ég hef einnig lagt áherslu á að ekki sé hægt að færa á milli í rekstri hafnanna frá vörugjaldaþjónustunni til að greiða niður þjónustu við fiskihafnirnar.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fara nánar ofan í þau atriði sem hv. þm. ræddi um. Samgn. þingsins mun að sjálfsögðu fara yfir þetta. Ég minni á að Hafnasamband sveitarfélaga, sem er í forsvari fyrir hafnirnar í landinu, hefur mælt með samþykkt frv. með þeim breytingum sem á því hafa verið gerðar.