Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:31:29 (4544)

2003-03-06 20:31:29# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:31]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að segja mörg orð. Þó vil ég segja eitt: Ég tel rétt að slá algerlega út af borðinu hugmyndir um að hlutafélagavæða hafnirnar. Til hvers getur það leitt? spyr hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Hæstv. ráðherra svaraði því áðan. Hann sagðist eygja þann möguleika fyrir nýja hluthafa eða hluthafafjárfesta að háfa arðinn út úr þessari starfsemi. Það finnst mér ekki vænlegt, nema síður sé.

Hæstv. ráðherra sagði að það þyrfti að fá fjármagn inn í hafnirnar, fjárfesta, en þeir þyrftu að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Í orðum hans felst að niðurstaðan yrði sú þegar upp er staðið að þeir tækju meira út úr fjárfestingu sinni en þeir settu í hana eða legðu af mörkum þannig að ég hef miklar efasemdir um þetta.

Herra forseti. Ég ætla ekki að leggja dóm á frv. Ég hef ekki kynnt mér það nægilega vel til að geta haft á því nokkurt vit. En ég legg áherslu á þann þátt sérstaklega sem varðar rekstrarformið. Hér hafa komið ýmis sjónarmið fram.

Ég vek athygli á því að það er stutt eftir af þessu þinghaldi en mörg stór og veigamikil mál bíða afgreiðslu þingsins. Hvorki ég né aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum standa gegn því að mál fái skjóta meðferð og komist til nefndar, en þar legg ég áherslu á að þau fái vandaða afgreiðslu. Á það mun að sjálfsögðu reyna um helgina og á komandi þingdögum.