Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:39:32 (4547)

2003-03-06 20:39:32# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, LB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:39]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. hefur nú heyrt afstöðu þeirra þingmanna sem hafa tjáð sig í þessu máli og held að sé vægt til orða tekið að halda því fram að menn hafi verulegar efasemdir um þetta tiltekna mál. Frumvarpið byggir á einhvers konar samkeppnissjónarmiðum. Þó held ég að flestir átti sig á því að engar forsendur eru fyrir samkeppni á þessu sviði. Hér er verið að tala um lífæð byggðanna og að fara að tefla þeim saman á þennan hátt er grafalvarlegt mál. Í slíkri samkeppni yrði einhver undir, þá yrðu einhver byggðarlög undir. Það er eðli málsins samkvæmt. Ef tefla á að byggðunum saman á þennan hátt þá verða einhverjar byggðir undir.

Þess vegna spyr ég hæstv. samgrh. þar sem ég átta mig ekki alveg á því sjálfur: Hvað ætlar hann að segja við það fólk sem býr í þeim byggðum sem kunna að verða undir, fólk sem hefur byggt sér hús eða keypt sér fasteignir í þeim byggðum sem hafa orðið undir? Hvað ætlar hann að segja við þetta fólk ef svo fer, sem ég geri ráð fyrir og það er eðli málsins, að tiltekin höfn verði undir þannig að hún er ekki samkeppnishæf við aðra sem leiðir til þess að viðskipti við þá höfn dragast saman og verða nánast lítil sem engin? Hvað ætlar hæstv. samgrh. að segja við fólk í þessum byggðarlögum? Þetta er óhjákvæmileg afleiðing þeirrar hugmyndar og hugsunar sem býr að baki frumvarpinu. Hvað ætlar hæstv. samgrh. að segja við þetta fólk? Það er fyrsta spurningin sem ég beini til hæstv. samgrh. Svo er önnur: Er ekki heiðarlegra, virðulegi forseti, að koma bara fram og segja að með þessari hugmynd sé ætlunin að leggja af tiltekin byggðarlög og segja þá bara hvaða byggðarlög það eigi að vera? Væri það ekki miklu heiðarlegra? Samkeppnin er grimm og þegar menn stofna til samkeppni um lífsbjörgina sjálfa og einhver verður undir þá verða einhverjir fyrir verulegum skakkaföllum, verulegu tjóni.

Hæstv. ráðherra verður að svara þessu og gera okkur grein fyrir því hvernig hann hyggst bregðast við gagnvart þeim byggðarlögum sem verða undir. Þetta er lykilspurning sem við þurfum að fá svar við og við þurfum að fá svar við henni áður en málið kemur inn í samgn. Ég sit í hæstv. samgn. og kem því til með að fjalla um málið. En hvernig ætlar hæstv. ráðherra að taka á vanda þeirra byggða sem verða undir í þeirri samkeppni sem hann er hér að skapa um sjálfa lífsbjörgina?