Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:42:55 (4548)

2003-03-06 20:42:55# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:42]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er nú alltaf skemmtilegt á kvöldstundum þegar menn bregða sér í ham kappræðulistarinnar. Það er alveg auðheyrt að menn minnast þess rækilega að kosningar nálgast. Málflutningur hv. þingmanna einkennist satt að segja mjög af því. Ég held að þegar hv. þingmenn fá tækifæri til þess, ekki síst þeir sem eru í samgn., að kynna sér þetta frv. --- raunar veit ég að menn þekkja nú nokkuð til frv., sumir hverjir a.m.k. vegna rækilegrar umfjöllunar um það áður --- þá munu þeir komast að raun um að hér er frv. á ferðinni sem hefur þann tilgang að styrkja stöðu hafnanna í sjávarbyggðunum og sem svar við hugleiðingum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar vil ég bara undirstrika og ítreka það atriði. Frumvarpið gengur út á að koma í veg fyrir þá þróun sem hefur átt sér stað undanfarandi ár, þ.e. að fiskihafnirnar úti á landi hafa verið að veikjast. Með frumvarpinu verður gengið í þveröfuga átt. Það er verið að auka tekjur hafnanna og það þurfa hv. þm. að vita að áfram er gert ráð fyrir ríkisstyrkjum til framkvæmda við hafnargerð í minni fiskihöfnum og áfram verða heimildir til þess fyrir Alþingi að taka ákvörðun um það við afgreiðslu fjárlaga að veita fjármuni til uppbyggingar hafnanna. Ég held því að hv. þingmenn ýmsir, sem sýna hér einlægan vilja til þess að standa með byggðunum úti um landið, muni komast að raun um að þetta frv. er afskaplega mikilvægt fyrir landsbyggðina.

Ég hvet hv. þingmenn til þess að kynna sér málið áður en þeir tala með þeim hætti sem hér hefur verið gert.