Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:47:55 (4550)

2003-03-06 20:47:55# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:47]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hafnir landsins eru ákaflega mikilvægar og það er svo sem góðra gjalda vert að menn fari yfir þá löggjöf sem um þær hefur gilt og ýmislegt sem örugglega má færa til betri vegar heldur en verið hefur hvað þær varðar. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að hafnir landsins geti orðið í eigu annarra en sveitarfélaga eða slíkra aðila, vegna þess að sú þjónusta sem hafnirnar veita á að vera til reiðu fyrir alla. Ef hafnirnar fara að ganga kaupum og sölum í hlutafélagaforminu þá er kannski einna líklegast að þær endi í eigu stórfyrirtækjanna sem eiga veiðiheimildirnar að óbreyttu kerfi ef ekki tekst að hnekkja því. Og ekki þarf að hafa mörg orð um það að ef slík fyrirtæki eiga eina höfn þá er ekkert endilega víst að þau líti á það sem sitt aðalhlutverk að þjóna einhverjum öðrum útgerðarmönnum hvað varðar aðstöðu í þeirri höfn. Og þó að í 21. gr. þessa lagafrv. standi að skylt sé að taka á móti skipum í höfn eftir því sem rými og aðstaða leyfir, þá vita það allir sem hafa kynnst starfsemi hafna að ef hafnaryfirvöld eru ekki vinsamleg þeim sem þangað vilja sækja þjónustu, þá hafa menn ekkert þangað að gera. Það er enginn vandi að skipuleggja þá aðstöðu sem þar er til staðar handa þeim skipum sem menn vilja þjóna vel og skilja hina eftir sem menn hafa ekki áhuga á að þjóna.

Ég verð að segja eins og er að ég vil miklu frekar líta á hafnirnar einhverjum svipuðum augum og menn vilja núna líta á flutningskerfin í raforkunni, þ.e. að menn verði að tryggja það að þessi þjónusta hafi það að markmiði að veita almenna þjónustu sem allir eiga rétt á. Ég bið þá sem um þetta fjalla í nefndinni að gaumgæfa það hvort þetta frv. tryggi það eða hvort einhver hætta sé á því að eitthvað annað geti orðið upp á teningnum ef menn samþykkja frv. sem hér er á ferðinni.

Þetta var það sem ég vildi koma hér á framfæri. Ég hef ekki lesið þetta fullkomlega í gegn og ætla ekki að fjalla um einstakar greinar. En mér finnst það stór ákvörðun að ætla að breyta um möguleika á eignarhaldi á höfnunum. Það hefur reyndar verið skoðun mín lengi að það sé svo sjálfsagt hlutverk sveitarfélaganna að hafa hafnamálin á sinni könnu og hafa þá til þess tilstyrk þingsins eða hins opinbera í formi styrkja vegna stærri átaka og uppbyggingar í höfnum, að mér hefur ekki fundist vera ástæða til þess að hafa áhyggjur af því, eða ég hef a.m.k. ekki haft áhyggjur af því að menn ætluðu sér að gefa kost á því að það yrði til einhver annar farvegur þarna og við sætum kannski uppi með það eftir fáein ár að það væru bara nokkur fyrirtæki sem ættu allar hafnirnar í landinu af því að þægilegt væri að smokra sér undan ábyrgðinni af því að reka hafnir með því að bæta þeim inn í einhver hlutafélög sem tækju það að sér að reka hafnir landsins og yrðu einn góðan veðurdag orðin að einokunarfyrirtækjum á því sviði.