Þriðja kynslóð farsíma

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:53:16 (4551)

2003-03-06 20:53:16# 128. lþ. 90.8 fundur 659. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um svokallaða þriðju kynslóð farsíma.

Á undanförnum árum hefur farsímanotendum í heiminum fjölgað gífurlega. Tvö farsímakerfi eru nú rekin sem veita talsímaþjónustu og í einhverjum mæli lághraðagagnaflutningsþjónustu. Það eru annars vegar hliðræn kerfi (NMT) og hins vegar stafræn kerfi (GSM 900 og DCS 1800). Hliðræn kerfi eru skilgreind sem fyrsta kynslóð en stafræn kerfi sem önnur kynslóð.

Ríflega átta af hverjum tíu Íslendingum nota GSM-farsíma í daglegu lífi og internetnotkun er meðal þess mesta sem þekkist í heiminum. Með þessu frv. til laga um þriðju kynslóð farsíma er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun úthluti allt að fjórum tíðnum að loknu útboði þar sem bjóðendum gefst kostur á að skila inn tilboðum, m.a. varðandi útbreiðslu farsímanetins og þjónustu, hraða á uppbyggingu nets og móttökustyrk sendinga. Lágmarkskrafa er að farsímanetið nái til 60% íbúa á tilgreindum svæðum. Þá er ekki miðað við landið í heild, heldur tilgreind svæði. En þar sem fullnægja má útbreiðslukröfum umfram 30% með reiki, má gera ráð fyrir mun meiri útbreiðslu. Tíðnigjald er 190 millj. kr. Til að stuðla að víðtækri útbreiðslu á landsvísu er gert ráð fyrir að rétthafar fái afslátt af tíðnigjaldi ef þeir skuldbinda sig til meiri útbreiðslu en tilgreind er sem lágmarkskrafa. Framsal tíðna er hins vegar óheimilt.

Samkvæmt ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins um samræmda innleiðingu þriðju kynslóðar farsímakerfa innan bandalagsins sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn, hvílir sú skylda á íslenskum stjórnvöldum að innleiða löggjöf um þriðju kynslóð farsíma. Eftirlitsstofnun EFTA hefur ítrekað við íslensk stjórnvöld að hraða lögfestingu ákvæða um úthlutun tíðna fyrir þriðju kynslóð farsíma. Með lagafrumvarpi þessu eru þær skyldur uppfylltar.

En ástæðan fyrir því að ekki hefur verið flutt frv. fyrr er að þróun þessarar tækni hefur farið mjög hægt og er nánast ekki komin af stað í Evrópu enn sem komið er nema að nafninu til. Öll önnur aðildarríki EES hafa nú úthlutað tíðnum til þriðju kynslóðar engu að síður.

Skilyrði fyrir tíðniúthlutun eru breytileg og mismunandi aðferðum hefur verið beitt, uppboði, útboði eða þriðju leiðinni. Fjöldi tíðniúthlutana eru fjórar til sex. Heildarfjárhæðin sem greidd hefur verið fyrir tíðnir í þessum ríkjum er rúmlega 10.000 milljarðar króna og má búast við svipuðum kostnaði vegna fjárfestinga. Umhverfið hefur hins vegar breyst í grundvallaratriðum og má búast við því að aðeins hluti þessarar fjárhæðar fengist nú.

Með nýrri kynslóð farsíma, þriðju kynslóðinni, er aukin áhersla lögð á gagnaflutning og nýjar leiðir opnast fyrir samskipti með háum bitahraða. Auk hefðbundinnar grunnþjónustu eins og hágæðatalsíma, faxsendinga, myndsíma og gagnaflutnings með miklum hraða þarf kerfið að geta ráðið við margmiðlun og veitt virkan aðgang að internetinu, staðarnetum og annarri IP-staðlaðri þjónustu.

Velgengni þriðju kynslóðarinnar er undir því komin hvernig markaðurinn sjálfur bregst við. Japanska fyrirtækið NTT DoCoMo, varð fyrst til þess að hefja rekstur þriðju kynslóðar farsíma í heiminum og eru viðskiptavinir þess nú um 34 milljónir. Innleiðing þriðju kynslóðar kerfa í Evrópu hefur gengið mun hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir, m.a. vegna þess að notendabúnaður hefur ekki verið til staðar. Hann er nú loksins kominn á markað og er mun fullkomnari en núverandi GSM-búnaður. Breska farsímafyrirtækið Hutchison tók þriðju kynslóðar net sitt í notkun 3. mars sl. undir heitinu Þrír. Þá hafa fyrirtæki í nokkrum ríkjum, t.d. Svíþjóð gefið það út að þau muni bjóða þriðju kynslóðar þjónustu á þessu ári.

Frumvarp til laga um fjarskipti hefur verið lagt fram á Alþingi sem mun leysa gildandi fjarskiptalög af hólmi verði það samþykkt. Í því frumvarpi er að finna almennar reglur um úthlutun tíðniréttinda til fjarskiptafyrirtækja, þar með talið fyrir farsímaþjónustu. Reglur þessar gilda einnig eftir því sem við á um tíðniúthlutanir fyrir farsíma af þriðju kynslóð.

Við úthlutun réttinda til að reka þriðju kynslóðar farsímakerfi í öðrum löndum hefur, eins og ég gat um áðan, einkum verið beitt tveimur aðferðum, þ.e. útboði eða uppboði. Báðum aðferðum fylgja kostir og gallar. Ýmsar þjóðir, svo sem Danir, Bretar og Þjóðverjar, hafa valið þá leið að hafa uppboð á farsímaleyfum. Þegar uppboðsleiðin er valin er eingöngu keppt um verð, en engin trygging er fyrir því hver útbreiðsla þjónustunnar verður. Almennt útboð er hins vegar heppilegasta aðferðin til að ná fram yfirlýstum markmiðum mínum sem samgönguráðherra um hámarksútbreiðslu hagkvæmrar farsímaþjónustu. Það er sú leið sem farin er í þessu frv.

Ýmis önnur rök hníga að útboðsleiðinni:

1. Mikil reynsla er af þessari aðferð hér á landi, þ.e. að bjóða út, og er nokkuð mikil reynsla af útboði bæði í framkvæmdum og í útboði á þjónustukaupum ýmiss konar.

2. Með því að ákveða fyrir fram skilyrði og aðferðir við mat á tilboðum má tryggja hlutlægni við val á bjóðendum.

3. Það er ekki skilyrði fyrir árangri að bjóðendur séu fleiri en úthlutaðar tíðnir eins og er í uppboðsleiðinni.

4. Með því að heimila reikisamninga er hagkvæmni aukin og unnt að komast hjá óarðbærum fjárfestingum þrátt fyrir mikla útbreiðslu.

5. Með þessari aðferð er lögð áhersla á mikla útbreiðslu sem er mikilvæg fyrir hagsmuni landsbyggðarinnar.

[21:00]

Við mat á tilboðum verður fyrst og fremst litið til útbreiðslu og verða veitt stig fyrir áætlaða útbreiðslu og útbreiðsluhraða eftir ákveðnum reglum. Miðað er við að bjóðendur geti reiknað út stig sín áður en tilboðum er skilað inn.

Rétthöfum verður heimilt að hafa samstarf um það hvernig þeir uppfylli útbreiðslukröfur samkvæmt tilboðum sínum, þannig að ekki þurfi að byggja upp samhliða fjarskiptanet þar sem markaðsaðstæður standa ekki undir slíkri uppbyggingu. Þannig er fyrirtækjum aðeins gert að byggja upp eigið net þannig að útbreiðslan sé að lágmarki 30% innan hvers svæðis, en útbreiðslukröfur umfram það er heimilt að uppfylla með reikisamningum, þ.e. með samningum við önnur fjarskiptafyrirtæki.

Til að stuðla að víðtækri útbreiðslu þriðju kynslóðar farsíma er lagt til að gerð verði lágmarkskrafa um útbreiðslu á tilgreindum svæðum. Skipting í svæði miðar að því að ná sambærilegri útbreiðslu á farsímaþjónustunni um allt land. Hér er lagt til að lágmarkskrafan um útbreiðslu verði 60% á hverju svæði.

Miðað við þær kröfur má áætla að heildarkostnaður við uppbyggingu þriðju kynslóðar farsímakerfis verði á bilinu 10--15 milljarðar króna. Er þá miðað við uppbyggingu kerfa fjögurra rétthafa og hámarksreiki á landsbyggðinni. Það samsvarar 45 þús. kr. á íbúa sem er sambærilegur kostnaður og við uppbyggingu kerfa í Mið-Evrópu, en talsvert lægri en kostnaður er á Norðurlöndunum.

Eins og áður hefur komið fram mun allt að fjórum bjóðendum verða úthlutað tíðnum til rekstrar þriðju kynslóðar farsímaneta að undangengnu almennu útboði. Gildistími tíðniúthlutunar verður 15 ár og er tíðnigjald ákveðið 190 millj. kr. Tíðnigjaldið mun þannig skila umtalsverðum tekjum í ríkissjóð, sem líta má á sem gjald fyrir afnot af þeim takmörkuðu gæðum sem til úthlutunar eru. Rétt er þó að hafa í huga í þessu samhengi að það er ekki útboðið sem slíkt sem mun skila tekjum og að þau tíðnisvið, sem eru til úthlutunar samkvæmt lögum þessum, eru í raun ekki verðmæti í sjálfu sér. Þau verða hins vegar verðmæt á grundvelli viðskipta- og markaðssjónarmiða þar sem þau eru takmörkuð. Þetta er háð ýmsum atriðum, fyrst og fremst tíðnigjaldinu og útbreiðslukröfu. Verðmæti þeirra tíðnisviða sem eru til úthlutunar eru síðan endanlega leyst úr læðingi í skjóli þeirrar aðferðar sem yfirvöld ákveða að viðhafa við úthlutun þeirra. Þar sem aðstæður eru ólíkar hér á landi og í öðrum ríkjum innan EES-svæðisins, m.a. þar sem markaður hér er minni og landfræðilegar aðstæður um margt ólíkar, ber að fara varlega í allan samanburð á þeim tekjum sem tíðnigjald skilar í ríkissjóð. Á endanum greiða neytendur fyrir tíðnigjaldið. Þannig má telja öruggt að þar sem tíðnigjald verður mjög hátt munu gjöld fyrir fjarskiptanotkun endurspegla þá staðreynd, auk þess sem það gæti hugsanlega tafið framþróun fyrir þriðju kynslóð farsíma, ef farsímafyrirtæki færu að skuldsetja sig verulega til að greiða fyrir tíðnir. Slík niðurstaða er ekki í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnar Íslands að hlúa beri að upplýsingaþjóðfélaginu og örva alla tækniþróun í landinu, þar með uppbyggingu og notkun á GSM-símakerfum.

Við ákvörðun þeirrar aðferðar sem viðhöfð verður við úthlutun tíðna var framangreint haft í huga og reynt að fara bil beggja, þ.e. að tryggja að ríkið fái hæfilegt endurgjald fyrir að veita afnot af þeim takmörkuðu gæðum sem eru til úthlutunar, en jafnframt að koma í veg fyrir að gjaldtakan hafi óæskileg áhrif á framþróun þriðju kynslóðar farsímakerfa.

Það er mikilvægt að benda á það hér að við þessi markmið stjórnvalda um víðtæka dreifingu fjarskiptaþjónustu til allra landsmanna lækkar tíðnigjaldið umtalsvert við aukna dreifingu.

Með þriðju kynslóð farsíma verður til nýr þjónustumarkaður þar sem beitt verður nýrri tækni og nýjum aðferðum til samskipta í viðskiptum sem ætla má að hafi almennt jákvæð áhrif á efnahagslífið. Gera má ráð fyrir að réttindi til rekstrar þriðju kynslóðar farsíma og útbreiðsla kerfisins muni einnig hafa í för með sér aukna samkeppni á farsímamarkaði.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og samgn.