Þriðja kynslóð farsíma

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 21:04:55 (4552)

2003-03-06 21:04:55# 128. lþ. 90.8 fundur 659. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[21:04]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um þriðju kynslóð farsíma er í sjálfu sér ekki stórt eða mikið í sniðum og ekki efnismikið. Í örstuttu máli gengur það út á að hér er verið að móta lagaramma utan um þá starfsemi sem væntanlega mun snúa að því að koma upp dreifikerfi og þjónusta síma, þ.e. hina svokölluðu þriðju kynslóðar farsíma eins og þeir hafa verið skilgreindir. Hugmyndin gerir ráð fyrir, virðulegi forseti, að veitt verði fjögur leyfi og þeim úthlutað eftir tilteknum reglum.

Fyrsta spurningin sem vaknar við þetta er hvers vegna ákveðið er að leyfin skuli vera fjögur. Ekki finnst svar við þeirri spurningu, hvorki í greinargerð né frv. sjálfu. Er það eitthvað sem hæstv. samgrh. telur að sé passlegur fjöldi eða tengist það hugsanlega þeim möguleika sem tíðnisviðin gefa í þessum efnum? (Gripið fram í: Eða flokkakerfinu.) Eða tekur það mið af fjórflokkakerfinu í landinu? Ég skal ekkert um það segja. (Gripið fram í: Er það ekki bara góð skýring?) Það er svo sem ekki verri skýring en hver önnur hvað það varðar að í raun og veru er hvergi skýringu að finna um þetta tiltekna efni í frv. eða greinargerð með því. Þess vegna er það það fyrsta sem maður staldrar við í þessum efnum, þ.e. hvers vegna leyfin eru fjögur en ekki tvö eða níu, ellefu eða sautján sem eru fallegar tölur líka og gætu sjálfsagt vel komið til álita.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, held ég að mikilvægt sé að menn séu ekkert að rugla neitt með það að leyfisgjaldið verður 40 milljónir hjá hverjum sem fær þetta leyfi, vegna þess að með svokölluðum reikisamningum þar sem fyrirtæki munu væntanlega gera samning sín á milli um aðgang að kerfum þeirra, þá mun það þýða að menn þurfa ekki að fara nema 15% upp fyrir þessi 60%, þ.e. upp í 75% dreifingu með reikisamningum, og þá eru menn komnir niður í þessar 40 millj. kr., þannig að gjaldið verður aldrei hærra en 40 millj. kr. og það er það sem þessir reikisamningar gera ráð fyrir.

Í sjálfu sér hef ég svo sem enga skoðun á því hvort gjaldið eigi að vera 40, 60, 80 eða 100 milljónir. Ég skal játa það hér í þessum ræðustóli að ég hef í raun og veru ekki hundsvit á því hvað er rétt verð. Og af þeim sökum gagnrýni ég þá aðferð sem hér er beitt vegna þess að það kemur ekkert fram í greinargerðinni af hverju menn leggja þetta upp með þessu móti, þ.e. tíðnigjaldið er auglýst 190 milljónir en fyrir hvert prósent sem menn fara upp fyrir 60% í dreifingu á landinu, þá lækkar gjaldið um 10 milljónir. Þegar menn eru komnir upp í 75% dreifingu, þá er það komið niður í þær 40 milljónir sem um ræðir. Og með reikisamningum munu menn alltaf, virðulegi forseti, fara niður í þetta gjald, þannig að raunverulegt gjald verður 40 millj. kr. Það liggur fyrir.

En það sem stendur kannski í mér og væntanlega fleirum er hvernig þetta verð er fundið. Hvernig eru þessi réttindi metin? Af hverju förum við ekki þá leið einfaldlega að láta þessi fyrirtæki meta þau réttindi sjálf? Kannski meta þau fyrirtæki sem hugsanlega kunna að fara í þetta réttindin upp á 700 millj. kr., ég veit það ekki. Kannski meta þau réttindin upp á 14 millj. kr. eða einhvers staðar þarna á milli.

Ég geri mér ekki grein fyrir, virðulegi forseti, hversu mikils virði þessi réttindi eru, en það er eitt sem er alveg ljóst að hæstv. samgrh. gerir það ekki heldur. Því að engin rök eru fyrir því hvers vegna þessi leið er farin. Ég hefði talið miklu eðlilegra, virðulegi forseti, af því að á ákveðinn hátt má segja að hér sé verið að veita réttindi sem að mörgu leyti má líkja við réttindi til að nýta takmarkaða auðlind, þó að ekki sé alveg hægt að setja það upp á sömu hillu og takmarkaða auðlind, en þó er margt svipað með því. Þetta eru tiltekin takmörkuð réttindi sem eru veitt með þessum hætti. Og gjaldið fyrir þau réttindi verður 40 millj.

Það er þetta sem ég vil gagnrýna, virðulegi forstei. Ég hefði talið miklu eðlilegra að þau fyrirtæki sem hyggjast veita þessa þjónustu og starfa á þessu sviði hefðu metið verðmæti þessara réttinda sjálf. Ég held þau séu alveg í stakk búin til þess og ég held að hugmyndir eða rök í þá veru að mörg fyrirtæki hafi boðið allt of hátt á sínum tíma, haldi ekki. Ég held að menn séu komnir yfir það ,,hæp``. Virðulegi forseti. Ég biðst nú afsökunar á því að nota það orð en ég held að menn séu komnir yfir það að ímynda sér að þetta muni skila einhverjum óheyrilegum hagnaði. Ég held því að við eigum að treysta forstjórum og forsvarsmönnum þessara fyrirtækja til að meta þessi réttindi sjálfir og þá verður einhver tiltekin verðmyndun á þeim, en ekki eins og hér er lagt upp að einhvers konar verðlagsstofnun, ,,à la`` hæstv. samgrh., setji verðmiða á slík réttindi. Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég einnig nefna það sérstaklega vegna þess að ég hjó eftir því í ræðu hæstv. ráðherra að hann lagði mikið upp úr því og undir það get ég tekið, að ekki yrði farið í offjárfestingar, þ.e. menn gætu samnýtt þetta. Undir það sjónarmið tek ég. Að menn geti samnýtt þetta og reglurnar séu ekki þannig að þær ýti mönnum út í óþarfar fjárfestingar. Það er ekki vel farið með fé ef hið opinbera er að setja slíkar reglur. Þess vegna spyr ég, virðulegi forseti, af hverju er það gert að skilyrði að hvert fyrirtæki sem fær þessi réttindi, gefum okkur að þau verði fjögur, skuli byggja upp sitt eigið fjarskiptanet þannig að það séu að lágmarki 30% innan hvers svæðis? Og til að það sé nú í samhengi, þá eru svæðin fjögur, þ.e. í fyrsta lagi höfuðborgarsvæðið, í öðru lagi Vesturland, Vestfirðir og Norðurland vestra, og þá væntanlega eins og kjördæmin voru skilgreind hér áður og fyrr, í þriðja lagi Norðurland eystra og Austurland og í fjórða lagi Suðurland og Suðurnes, þ.e. þessi fjögur svæði. Á hverju þessara svæða er hverju fyrirtæki sem fær réttinn til að veita þjónustu við þriðju kynslóð farsíma, skylt að koma upp kerfi sem þjónustar að lágmarki 30% innan hvers svæðis.

Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað gerði til þó að einn aðili kæmi sér upp slíku kerfi og seldi síðan inn á það ef hægt yrði að koma fyrir einhverjum skynsamlegum reglum? Vegna þess að 30% duga vitaskuld engan veginn. Það gæti þýtt að fjögur fyrirtæki væru með 30% kerfi, ef svo má að orði komast, 30% fjarskiptanetakerfi jafnvel á sama svæði þar sem er auðveldast og ódýrast að koma því upp, því það er allsendis óvíst að samningar takist milli fyrirtækjanna um að hver um sig sjái um sitt svæði. Þá erum við að kalla þarna fram einhvers konar fjárfestingu, óþarfafjárfestingu, vegna opinberra reglna sem samræmast síðan ekki þeim málflutningi sem hæstv. ráðherra var með hér áðan. Ég sit reyndar í hv. samgn. og ég fæ því tækifæri til að fjalla betur um þetta. En þetta er eitt af þeim atriðum sem ég átta mig ekki á, af því að með þessari leið verður heldur ekki komið upp samkeppni milli fjarskiptaneta, vegna þess að hvert net þjónustar svo lítinn hluta svæðisins. Það er því mjög erfitt að átta sig á hvaða pólitísku markmiðum er verið að reyna að ná þarna. Og þetta tryggir landsbyggðinni ekki nokkurn skapaðan hlut heldur, virðulegi forseti.

Almennt vildi ég segja um þetta að ég tel að réttara hefði verið að fara svokallaða útboðsleið, en þó með svona fegurðarsamkeppnisívafi, þ.e. að það lægi nákvæmlega fyrir hvaða þjónustu menn ættu að veita. (Samgrh.: Þetta er útboðsleið.) Nei, virðulegi forseti, þetta er ekki uppboðsleið, það er Verðlagsstofnun sem ... (Samgrh.: Þú sagðir útboðsleið.) Ég er að segja að þetta er verðlagsstofnunarleið. Það sem ég á við, virðulegi forseti, er að eðlilegt hefði verið að gera lágmarkskröfur til dreifingar á landsbyggðinni en síðan hefði fyrirtækjunum sjálfum verið í sjálfsvald sett hvernig þau verðmeta þessi réttindi. Það er m.a. sú leið sem auðlindanefnd lagði til á sínum tíma, en einhvern veginn hefur það æxlast þannig að ekki einni einustu hugmynd sem út úr þeirri nefnd kom er fylgt eftir af hæstv. ríkisstjórn. Ekki einni einustu. Það þarf því í sjálfu sér ekki að koma á óvart. En það hefði verið miklu eðlilegra, virðulegi forseti, að þetta hefði verið lagt upp þannig að menn hefðu skilgreint ákveðna lágmarksdreifingu og síðan hefðu menn boðið í þessi réttindi og þá hefði myndast, ef svo má að orði komast, eðlilegt verð á þeim verðmætum sem hér væri verið að veita.

Ég held, virðulegi forseti, og tel að það hefði verið miklu ærlegra og heiðarlegra af hæstv. ráðherra að segja einfaldlega í frv. að það muni kosta, úr því að hæstv. ráðherra ákveður að fara þessa leið, 40 milljónir að fá þessi réttindi. Þessar 190 milljónir, virðulegi forseti, er held ég eitthvað sem eigi að flagga einhvers staðar en engin meining er á bak við. Þetta vildi ég segja um frv., virðulegi forseti.