Þriðja kynslóð farsíma

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 21:22:44 (4554)

2003-03-06 21:22:44# 128. lþ. 90.8 fundur 659. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[21:22]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að stjórnmálamenn eiga ekki að reyna að hafa vit fyrir markaðnum. Hins vegar er nauðsynlegt að við setjum markmið og reynum að hafa vit fyrir þeim sem veita þessa þjónustu á þann hátt að við gerum kröfur um að þjónustan sé í tilteknu magni. Í þessu tilviki gerum við heilmiklar kröfur um að þjónustan sé til staðar um landið allt. Það er grundvallaratriði. Þess vegna er hin svokallaða fegurðarsamkeppnisleið valin. Stjórnvöld vilja byggja þetta kerfi þannig upp að þjónustan sé sem víðast um landið og sem best. Þess vegna er þessi leið valin.

Hér hafa verið bornar upp nokkrar spurningar sem ég vildi fara aðeins yfir. Í fyrsta lagi var spurt: Hvers vegna eru leyfin fjögur? Hvers vegna er einungis gert ráð fyrir því að hægt sé að keppa um fjögur leyfi? Ástæðan er sú að talið er að hægt sé að koma fyrir sex tíðnum og reka sex kerfi hjá okkur. Það var mat sérfræðinga hjá Póst- og fjarskiptastofnun að til að ná hámarksgæðum og hámarksafköstum væri eðlilegt að miða við fjögur leyfi. Þess vegna er miðað við það í þessu tilviki.

Í öðru lagi vil ég taka fram að eins og rækilega kemur fram í frv. stendur vilji stjórnvalda ekki til að gera úthlutun þessara leyfa að sérstakri leið til skattlagningar fyrir ríkissjóð heldur er gert ráð fyrir því að greidd sé sanngjörn upphæð fyrir þessi leyfi. Þess vegna er sú fjárhæð valin sem hér er um að ræða. Ég vil sérstaklega benda á hvernig þetta hefur gengið fyrir sig í Evrópu þar sem mismunandi er greitt fyrir þessi leyfi. Þar sem fegurðarsamkeppnin var viðhöfð er sums staðar ekkert gjald en einungis keppt um þjónustuna upp í það að uppboðsleiðin er valin og þá buðu símfyrirtækin mjög háar fjárhæðir.

Ég vek jafnframt athygli á því að hins vegar er gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtækin greiði, ef breytingarnar á fjarskiptalögunum og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun sem liggja fyrir þinginu verða að lögum, fyrir rekstur þessarar þriðju kynslóðar síma. Fyrir hann verður greitt númeragjald annars vegar og hins vegar veltutengt gjald þannig að í ríkissjóð rennur tiltekið gjald í gegnum það.

Spurt var hvers vegna gert væri ráð fyrir því lágmarki að veita þessa þjónustu á hverju svæði í eigin kerfi sem nemi 30% dreifingu. Ástæðurnar eru þær að við teljum að til að tryggja virka samkeppni sé lágmark að það sé 30% dreifingarmöguleiki með eigin kerfi en það sem er umfram það og upp í 60% megi gera með reikisamningum. Þess vegna er þessi leið valin. Við teljum afar mikilvægt að tryggja samkeppni milli símafyrirtækja í þágu hagsmuna neytenda.

Spurt var um hvað gerðist síðan eftir 15 ár þegar gildistími leyfanna er liðinn. Út af fyrir sig er ekki hægt að segja mikið um það á þessu stigi. En þau símafyrirtæki sem hafa byggt upp kerfi um landið allt hafa auðvitað býsna mikið og gott forskot þegar kemur að úthlutun næst, hvaða aðferð sem viðhöfð verður við þá úthlutun. Engin fyrirheit hafa verið gefin um hvaða aðferð verður notuð þá en forskotið hjá fyrirtækjunum sem hafa byggt upp aðstöðu sína er býsna mikið í að keppa um úthlutun leyfa þegar þar að kemur.

Ég tel ekki flókið eða erfitt að úthluta þessum leyfum á grundvelli þeirra aðferða sem hér er gert ráð fyrir, þ.e. á grundvelli útboðs. Við höfum mikla reynslu af því að bjóða út og það er einmitt kosturinn við að nota útboðsleiðina fremur en uppboðsleiðina. Ég óttast, satt að segja, að það verði ekki mjög mörg símafyrirtæki sem munu lýsa sig viljug til að sinna þessari þjónustu. Lítum bara til þess hversu mörg símafyrirtæki veita GSM-símaþjónustu í dag. Þau eru ekki mjög mörg. Í raun eru aðallega tvö fyrirtæki á GSM-símamarkaðnum. Við verðum að gera ráð fyrir að það verði kannski ekki mjög mikil breyting á því en þó vonar maður auðvitað að samkeppnin haldist og fleiri fyrirtæki komi inn á þennan markað.

Við megum ekki gleyma því að þetta er lítill markaður, afar mikill kostnaður við uppbyggingu þessara kerfa eins og kemur fram, 10--15 milljarðar. Það þarf miklar tekjur til þess að greiða það niður. Það verður að líta á sérstöðu okkar og þess vegna tel ég að þessi leið, útboðsleiðin, sé hin rétta fyrir okkur Íslendinga, sem viljum að útbreiðslan verði sem allra mest og viljum líka að þessi þjónusta sé sem hagstæðust fyrir neytendur.