Vátryggingastarfsemi

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 10:32:24 (4560)

2003-03-10 10:32:24# 128. lþ. 93.3 fundur 377. mál: #A vátryggingastarfsemi# (EES-reglur, gjaldþol) frv. 37/2003, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[10:32]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að reglur EES-réttar, sem kveða á um lágmarkssamræmingu að því er varðar gjaldþol vátryggingafélaga, verði lögfestar. Fram kom á fundum nefndarinnar að ekki væri ástæða til að ætla að breytingarnar leiddu til hækkunar iðgjalda.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingarnar taki þegar gildi, en samkvæmt EES-reglunum er ekki gerð krafa um að gjaldþol sé reiknað með þeim hætti sem í frumvarpinu greinir fyrr en á reikningsárinu 2004. Nefndin telur ekki efni til að ganga lengra en krafa er gerð um og leggur því til að þær greinar frumvarpsins sem varða útreikning gjaldþols komi fyrst til framkvæmda við eftirlit sem byggist á ársreikningum vegna reikningsárs næsta árs, þ.e. ársins 2004. Þá leggur nefndin til smávægilega orðalagsbreytingu á 2. tölul. 1. efnismgr. 2. gr. Breytingin hefur ekki efnisbreytingu í för með sér.

Nefndin telur rétt samkvæmt ábendingu Fjármálaeftirlitsins að benda sérstaklega á misskilning sem fram kemur í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins eins og nánar er rakið í þessu nál.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fylgja í nefndarálitinu.