Neytendakaup

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 10:40:49 (4566)

2003-03-10 10:40:49# 128. lþ. 93.10 fundur 556. mál: #A neytendakaup# (EES-reglur) frv. 48/2003, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[10:40]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um neytendakaup.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfestur verði sérstakur lagabálkur sem hafi að geyma allar réttarreglur sem við eiga í hefðbundnum neytendakaupum, þ.e. þegar kaupandi er leikmaður andspænis seljanda sem hefur atvinnu sína af sölu.

Frumvarpið felur í sér aukna neytendavernd sem felst einkum í því að ákvæði laganna, verði frumvarpið samþykkt, eru ófrávíkjanleg, þ.e. samningur seljanda og neytanda sem felur í sér kjör sem eru neytanda óhagstæðari en leiðir af lögunum er ógildur. Lög um lausafjárkaup eru í þessum samanburði að meginstefnu til frávíkjanleg.

Verði frumvarpið að lögum verða lagaákvæði er varða neytendakaup auðskiljanlegri og aðgengilegri en nú að okkar mati.

Breytingarnar, auk þeirra orðalagsbreytinga sem nefndarálitið rekur í sjálfu sér ekki, eru eftirfarandi:

Lögð er til breyting á ákvæði 14. gr. frumvarpsins um áhættuflutning þess efnis að neytandi beri ekki áhættuna af tilviljunarkenndum atburði sem verður meðan söluhluturinn er hjá seljanda.

Lagt er til að í stað orðsins ,,kvaðir`` í g-lið 2. mgr. 15. gr. verði notað orðið réttindi.

Lagðar eru til breytingar á c-lið 1. mgr. 16. gr.

Lögð er til breyting á 3. mgr. 37. gr.

Lagt er til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að aðilar að neytendakaupum geti snúið sér til kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa sem starfar samkvæmt bráðabirgðaákvæði í kaupalögum. Kærunefndinni var komið á fót til reynslu til ársins 2005 við lögfestingu laga um lausafjárkaup. Kærunefndin hefur frá upphafi fjallað um ágreiningsmál er snerta neytendakaup og er ekki ástæða að okkar mati til að breyta því. Í lok ársins 2005 er gert ráð fyrir að það verði metið hvort og þá á hvaða forsendum nefndin starfi áfram.