Vátryggingastarfsemi

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 10:48:54 (4571)

2003-03-10 10:48:54# 128. lþ. 93.15 fundur 485. mál: #A vátryggingastarfsemi# (ökutækjatryggingar, EES-reglur) frv. 28/2003, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[10:48]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum. Þetta frv. fylgir frv. dómsmrh. til breytinga á umferðarlögum, nr. 50/1987, sem allshn. hefur til umfjöllunar.

Með frv. er lagt til að lögfest verði ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja. Ekki er gert ráð fyrir að frv. leiði til aukins kostnaðar hjá tryggingafélögunum né hærri iðgjalda eftir því sem fram kom í nefndinni enda er ekki um að ræða mörg tilvik sem þetta frv. tekur til miðað við þá sögu sem við höfum og tryggingafélög þekkja af störfum sínum.

Nefndin leggur til orðalagsbreytingu á frv. Breytingin er ekki efnisleg en lagt er til að í staðinn fyrir hið sérkennilega orð ,,tjónsuppgjörsaðili`` í fyrri málsl. 1., 2. og 3. gr. frv. komi gagnsærra og betra orð: tjónsuppgjörmiðstöð.

Undir þetta nál. rita nefndarmenn úr efh.- og viðskn. en hv. þm. Hjálmar Árnason og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.