Ársreikningar

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 10:53:08 (4573)

2003-03-10 10:53:08# 128. lþ. 93.17 fundur 427. mál: #A ársreikningar# (EES-reglur) frv. 56/2003, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[10:53]

Frsm. efh.- og viðskn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum.

Með þessu frv. er verið að leggja til breytingar á íslenskum reikningsskilareglum sem miða að því að mæta þeirri þróun sem orðið hefur hér á landi og annars staðar, m.a. á vettvangi ESB.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þskj. Lagt er til að skýringarorðin ,,hlutafé`` og ,,hlutur`` í a-lið 1. gr. falli brott. Í öðru lagi er lagt til að hugtakið ,,félagsaðili`` verði notað í stað orðsins ,,aðili`` í c-lið 1. gr. Hugtakið félagsaðili er skilgreint í 2. tölul. 2. mgr. 1. gr. laganna. Sú skilgreining er í samræmi við þá merkingu sem leggja ber í hugtakið aðili í þessari grein frv. og því eðlilegt að það sé notað. Auk þess er hnykkt á orðalagi ákvæðis c-liðar þar sem um er að ræða félagsaðila sem hefur rétt til ákvörðunarvalds á grundvelli samþykkta félagsins eða samninga við það en í e-lið er fjallað um ákvörðunarvald vegna eignarhluta.

Í þriðja lagi eru lagðar til orðalagsbreytingar á a- og b-liðum e-liðar 1. gr. Þær eru ekki efnislegar.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á 2. efnismgr. 6. gr. þess efnis að skýrt sé að aðeins megi í undantekningartilvikum víkja frá ákvæðum laga um samningu ársreikninga ef það leiði til þess að ársreikningur gefi glögga mynd sem hann ella hefði ekki gert hefði verið farið eftir lögum og góðri reikningsskilavenju. Ströng skilyrði eru í greininni um að greina skuli frá slíkum frávikum ásamt ástæðum fyrir þeim og hvaða áhrif þau hafa á afkomu og efnahag.

Þá er lögð til breyting á 11. gr. þess efnis að það verði skýrt nánar hvenær færa skuli tekjur eða gjöld sem varða fyrri ár til breytinga á óráðstöfuðu eigin fé í stað þess að færa fjárhæðirnar á rekstrarreikning. Er tillagan í samræmi við reglu nr. 5 sem reikningsskilaráð hefur gefið út.

Lagt er til að í c-lið 3. tölul. 1. mgr. 20. gr. laganna, sbr. 12. gr. frv., verði vísað til 24. gr. laganna sem fjallar um frávik frá kostnaðarverðsreglunni, til frekari skýringar.

Í sjöunda lagi er til að við frumvarpið bætist ný grein þess efnis að skylt verði að leysa upp endurmatsreikning sem myndaður er með sérstöku endurmati þegar raunvirði fastafjár muna er talið verulega hærra en kostnaðarverð þeirra af ástæðum sem taldar eru varanlegar. Samkvæmt greininni skal fjárhæð árlegrar afskriftar af mismun á endurmetnu verði og kostnaðarverði færð af endurmatsreikningi á eigið fé. Einnig skal leysa upp endurmatsreikning að því marki sem eftir stendur af endurmatinu við sölu eignarinnar eða förgun og ef forsendur fyrir endurmatinu eru ekki lengur fyrir hendi.

Í áttunda lagi er lagt til að við 21. gr. bætist nýr stafliður þess efnis að gera skuli grein fyrir skattinneign með sama hætti og frestaðri skattskuldbindingu.

Í níunda lagi er lagt til að 43. gr. frv. falli brott. Með breytingunni mun bráðabirgðaákvæði laganna um frestun afnáms verðleiðréttra reikningsskila halda sér í tvö ár eins og nú er gert ráð fyrir.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram frekari brtt. við frv. Undir nál. rita hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður og frsm., Pétur H. Blöndal, Guðjón Guðmundsson og Páll Magnússon, og Ögmundur Jónasson og Jóhanna Sigurðardóttir með fyrirvara eins og fyrr greinir.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á, vegna þess að mál sem snúa að ársreikningum hafa talsvert verið í umræðunni, í opinberri umræðu og m.a. í fjölmiðlum, að vegna þessa máls var skipuð sérstök nefnd sem skipuð var fulltrúum fjmrn., fulltrúum frá Félagi löggiltra endurskoðenda og frá Ríkisendurskoðun, svo að dæmi séu nefnd. Hún stóð að undirbúningi þessa máls. Þetta er í meginatriðum tæknileg vinna sem krefst mikillar sérfræðilegrar þekkingar en á vissan hátt pólitískt mál einnig. Við vitum að ársreikningar og lög um ársreikninga skipta mjög miklu máli fyrir efnahagslíf okkar. Það að menn geti metið þær upplýsingar sem fram koma í ársreikningum og skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þá sem fjárfesta í fyrirtækjum. Það getur bæði átt við um einstaklinga, sjóði, bankastofnanir og lífeyrissjóði, svo að dæmi séu tekin.

Það hefur verið gagnrýnt að með þessu frv. sé ekki gengið jafnlangt til móts við þróunina við bókhald og ársreikninga í heiminum eins og æskilegt hefði verið. Því er til að svara að mikil þróun hefur orðið í þessum efnum á síðustu árum. Árvekni manna gagnvart ársreikningum hefur aukist vegna atvika sem komið hafa upp úti í hinum stóra heimi, ekki síst í Bandaríkjunum í tengslum við Enron-hneykslið og fleiri mál af því tagi. Þess vegna er nauðsynlegt að þessi mál séu stöðugt í endurskoðun og menn vinni eins hratt og hægt er að þessu máli.

Með frv. er sannarlega stigið skref í þá átt. Með því er verið að innleiða tilskipanir og gerðir Evrópusambandsins, það sem þar er lagt til grundvallar varðandi ársreikningamál.

Það kom líka fram í starfi nefndarinnar að jafnframt er verið að undirbúa frekari vinnu á þessu sviði. Sú vinna lýtur að þeim viðmiðunum sem settar hafa verið fram á alþjóðlegum vettvangi. Hér er ekki um að ræða skuldbindandi viðmið heldur fyrst og fremst atriði sem sjálfsagt er að hafa til hliðsjónar og taka upp að svo miklu leyti sem hentar við íslenskar aðstæður.

Þegar ég tala um sérstakar íslenskar aðstæður er auðvitað ekki verið að tala um að við eigum ekki að gera jafnstrangar kröfur til hlutafélaga okkar eða fyrirtækja um ársreikninga. Ég er eingöngu að vekja athygli á því að það geta verið sérstakar aðstæður eins og smæð fyrirtækja hér á landi sem valda því að við verðum að hafa það í huga. Það er t.d. ljóst mál að kröfur sem við gerum til stórra fyrirtækja á markaði, um ársreikninga slíkra fyrirtækja, hljóta að vera aðrar en til einyrkjastarfa með lítil umsvif í rekstri sínum.

Ég tel að um það sé samkomulag, menn séu sammála um að þessum málum verði að sinna af mikilli alvöru. Sú þróun sem orðið hefur á alþjóðlegum vettvangi í þessum efnum er nokkuð sem við verðum auðvitað að taka fullt tillit til. Það kom fram að hugmyndin er að þessi mál verði unnin af hálfu hins opinbera. Þetta eru hins vegar afar flókin atriði og kannski ekki jafnauðvelt að taka þau upp að öllu leyti. Auðveldara verður t.d. að taka upp tilskipanir Evrópusambandsins þar sem menn eru komnir í góða þjálfun í þýðingum á miklum lagabálkum. Hér er um að ræða tæknileg hugtök, sem menn verða að vinna mjög nákvæmlega með. Það er ljóst að til slíkra verka verður að kalla mjög sérfróða aðila.

Mig langaði aðeins til hnykkja á þessu í framhaldi af þeirri umræðu sem farið hefur fram. Við fengum í vinnu nefndarinnar talsvert miklar athugasemdir, m.a. frá reikningsskilaráði, endurskoðendum og öðrum varðandi þetta frv. Ég vil aðeins vekja athygli á vinnubrögðum okkar í nefndinni. Ég tel þau hafa verið eðlileg og til marks um að við höfum viljað vanda okkar vinnu. Eins og ég sagði áðan er hér um að ræða býsna tæknilegt og sérhæft mál sem kallar á mikla sérfræðilega þekkingu. Þetta frv. var undirbúið af sérfræðingum sem kallaðir voru til eins og ég rakti áðan.

Eftir að þingnefndin hafði fengið þessar umsagnir í hendurnar varð ljóst að ýmsar veigamiklar athugasemdir mætti gera við efni frv. og þá aðferðafræði sem hafði verið lögð til grundvallar. Þá varð það niðurstaða okkar að vísa málinu til nefndarinnar sem hafði undirbúið frv., með beiðni um að hún færi yfir frv. að nýju með hliðsjón af þeim ábendingum sem komið höfðu fram í starfi nefndarinnar. Það var gert. Á grundvelli þeirrar vinnu leggjum við til þær breytingar á frv. sem hér eru kynntar og ég hygg að gangi í öllum atriðum til móts við þær athugasemdir sem fram komu þó vissulega megi sýna fram á að svo sé ekki að öllu leyti. Engu að síður er hægt að segja með sanni að þær breytingar sem gerð er tillaga um séu allar í þá átt að styrkja frv. í samræmi við þær ábendingar sem fram komu við meðhöndlun málsins.