Ársreikningar

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 11:22:25 (4576)

2003-03-10 11:22:25# 128. lþ. 93.17 fundur 427. mál: #A ársreikningar# (EES-reglur) frv. 56/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[11:22]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er óþarfi að hafa langt mál um afstöðu mína, sem kemur heim og saman við það sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég vil byrja á að taka undir með hv. formanni efh.- og viðskn., Einari K. Guðfinnssyni, að þetta mál er fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Sérfræðingar hafa komið að málinu og unnið lengi að því.

Það kom nokkuð á óvart undir lokin þegar okkur barst erindi frá fyrrverandi formanni reikningsskilaráðs. Það setur óneitanlega strik í reikninginn. Ég fagna því að nefndin skuli kölluð saman milli 2. og 3. umr. til að fara yfir málin og reisa þar vegvísi inn í framtíðina um hvernig tekið skuli á þessum málum.

Skilningur okkar er sá að þær breytingar sem verið er að gera á lögum með þessu frv. séu í þá átt að styrkja lögin eins og kom fram í framsögu hv. formanns nefndarinnar. Sá fyrirvari sem við höfðum á frv., ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, laut að launakjörum stjórnenda fyrirtækja. Við töldum koma til álita að setja í þessi lög ákvæði þess efnis að fyrirtæki yrðu skylduð til að greina frá þessum launakjörum. Ég er reyndar á þeirri skoðun að öll launakjör í fyrirtækjum og stofnunum eigi að vera opinbert mál og eigi ekki að líðast neitt pukur kringum launakjör. Ég tel að þetta eigi við um fyrirtæki og stofnanir.

Það var rætt um lífeyrissjóði í þessu sambandi. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur reifað í efh.- og viðskn. og ég tekið undir þau sjónarmið að eðlilegt sé að þar sé einnig allt uppi á borði. Varðandi hugmyndir okkar um að festa kvaðir um upplýsingaskyldu í þessu efni í ársreikningalög þá féllum við frá því eftir að ljóst var að Kauphöllin hygðist setja reglur um nákvæmlega þetta efni varðandi þau fyrirtæki sem skráð eru á Verðbréfaþingi. Það er ástæðan fyrir því að við féllum frá okkar tillögu.

Að öðru leyti styðjum við frv. og höfum að sjálfsögðu þann fyrirvara á að við reisum vegvísi um framhald vinnunnar, vegvísi inn í framtíðina.