Eftirlit með skipum

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:10:33 (4593)

2003-03-10 12:10:33# 128. lþ. 93.29 fundur 360. mál: #A eftirlit með skipum# (heildarlög, EES-reglur) frv. 47/2003, GE
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:10]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég geri í raun ekki athugasemdir við afgreiðslu þessa máls en vil taka sérstaklega undir þær breytingar sem gerðar eru við 4. tölul. 13. gr. frv. um að hver sem er geti sett fram kröfu um aukaskoðun. Ég tel að slíkt ákvæði hefði verið ákaflega varasamt. Ég lýsi líka ánægju með að stjórn stéttarfélags skuli veitt slík heimild. Þá er unnt að koma á framfæri athugasemd frá trúnaðarmanni um borð í skipi í gegnum stéttarfélagið, svona athugasemd. Ég held að þetta séu mjög góðar breytingar.

Mig langar að nefna aðeins atriði sem lúta að skyndiskoðun Landhelgisgæslunnar. Ég tel að það sé ágætisákvæði. En almennt um Landhelgisgæsluna. Það er vissulega ástæða til þess að skoða á hvern hátt starfsemin er rekin, m.a. það að sjá þessi stóru skip flatreka á grunnslóð einhvers staðar til þess að halda þeim úti. Það er alveg ótrúlegt að það skuli gert á sama tíma og engin skip eru á sjó á grunnslóð.

Ég held líka að menn þurfi að skoða alvarlega breytingar á núverandi fyrirkomulagi eftirlits með grunnslóðarveiðiflotanum. Þessi stóru skip sem við eigum henta auðvitað mjög vel til eftirlits á djúpsævinu eða á dýpri slóð og með úthafsveiðiskipum. Ég held að menn ættu að skoða það að grípa jafnvel til einkavæðingar að hluta til. Ég vona að stjórnarliðar sperri nú eyrun þegar einkavæðing er nefnd við eftirlit á grunnslóð. Það gæti farið þannig fram að eftirlit væri framkvæmt af áhöfn skipa í einkaeign, en æðstu yfirmenn störfuðu hjá Landhelgisgæslunni. Með þessum bátum væri unnt að sinna eftirliti og nauðsynlegri öryggisgæslu og breyta þannig frá ríkjandi fyrirkomulagi. Ég vona að slík atriði hafi komið upp í umfjöllun um rétt Landhelgisgæslunnar til að framkvæma skyndiskoðanir og síðan um störf Landhelgisgæslunnar varðandi eftirlit með skipum. Ég tel að með þessum hætti sem ég er að nefna og hef reyndar komið á framfæri við hæstv. dómsmrh., sé athugandi að auka hagkvæmni í rekstri Landhelgisgæslunnar.

Mér er kunnugt um að í Reykjavíkurhöfn liggur skip eða bátur sem þarf mjög lítið að gera fyrir til þess að hann geti sinnt grunnslóðareftirliti. Ég held að menn ættu að athuga það frekar en að vera með stóru landhelgisgæsluskipin okkar í þessu hlutverki. Ég hygg að þarna mætti spara sem nemur tugum milljóna, jafnvel allt að 150--200 millj. á ári, bara með breytingum á þessum rekstrarhætti. Því nota ég tækifærið þegar þetta mál er til umræðu að koma þessu að. Ég hef engar athugasemdir við störf nefndarinnar nema síður sé. Ég held að það sem hér er gerð tillaga um sé breyting til batnaðar frá frv.