Fyrirtækjaskrá

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:23:18 (4597)

2003-03-10 12:23:18# 128. lþ. 93.35 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv. 17/2003, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:23]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. um frv. til laga um fyrirtækjaskrá.

Við fengum nokkra aðila á okkar fund sem tengjast þessu frv. á einn eða annan hátt og eru þeir taldir upp á þskj. 1005.

Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi gildandi lög um fyrirtækjaskrá, nr. 62/1969, og er það flutt samhliða frumvarpi til laga um breytingar á ákvæðum laga um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir, sem ég mælti fyrir áðan, sem stunda atvinnurekstur er varða skráningu þessara félaga og stofnana. Þar er lagt til að skrár samkvæmt þessum lögum verði færðar frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra.

Með frumvarpinu er lagt til að fyrirtækjaskrá verði flutt frá Hagstofu Íslands til ríkisskattstjóra sem annist framvegis færslu fyrirtækjaskrár og útgáfu kennitalna til fyrirtækja, stofnana og annarra aðila samkvæmt nánari ákvæðum þar að lútandi. Þá mun fjármálaráðherra fara með mál sem varða fyrirtækjaskrá. Að öðru leyti er ekki um að ræða miklar breytingar á efnisatriðum frá gildandi lögum um fyrirtækjaskrá, heldur felast þær einkum í uppstokkun og framsetningu ákvæða þannig að einstök efnisatriði eru dregin fram með þeim hætti að betri yfirsýn fáist yfir áhersluatriði.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það sé liður í framkvæmd þeirrar stefnu sem lýst var í athugasemdum við frumvarp um afnám laga um Þjóðhagsstofnun og felst í því að ná fram frekari hagræðingu í stjórnsýslunni og styrkja um leið hagskýrslugerð með því að endurskipuleggja Hagstofu Íslands og flytja frá henni verkefni sem tilheyra ekki lengur þeirri starfsemi. Þá hefur jafnframt verið litið til þess að hagskýrslugerð og rekstur stjórnvaldsskráa í einni stofnun hefur á síðari árum ekki þótt jafnheppileg og var þegar skrárnar voru stofnaðar. Þetta stafar ekki síst af þeirri þróun sem orðið hefur á viðhorfum og reglum um meðferð persónubundinna gagna, samanber grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna um opinbera hagskýrslugerð frá árunum 1992 og 1994 sem Ísland hefur staðfest.

Nefndin tekur undir markmið frumvarpsins og telur brýnt að stjórnvöld á ýmsum sviðum geti unnið með eina samhæfða skrá sem er opinber og aðgengileg til eftirlits. Þá telur nefndin yfirfærsluna til embættis ríkisskattstjóra eðlilega og samrýmast meginverkefni þeirrar stofnunar.

Bent hefur verið á nauðsyn þess að breyta gildistökuákvæði laganna þannig að yfirfærsla umræddra verkefna verði hnökralaus. Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi breytingu:

Í stað dagsetningarinnar ,,1. apríl 2003`` í 12. gr. komi: 1. júlí 2003.

Þetta nál. er, eins og áðan, samhljóða álit frá hv. allshn.