Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:38:41 (4601)

2003-03-10 12:38:41# 128. lþ. 93.36 fundur 353. mál: #A almenn hegningarlög# (brot í opinberu starfi) frv. 54/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:38]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég virði alveg og met þau sjónarmið og nálgunina sem reynt er að beita í þessu frv. og tek undir mikilvægi þess að á hreinu sé hver ábyrgð og skylda einstaklings er sem tekur að sér verkefni í opinberri þjónustu, sem er á ábyrgð hins opinbera. Ég tel að þarna standi út af álitaefni varðandi þessa ábyrgð.

Tökum sem dæmi að einhver banki taki að sér rekstur á pósthúsi. Stór hluti af þeim verkum sem þar eru unnin eru háð skilyrðum um opinbert eftirlit, opinbera ábyrgð sem bundin er í lögum og því sem er á ábyrgð hins opinbera í þessum rekstri, t.d. póstleynd og ýmislegt þar að lútandi. En það er í sjálfu sér ekki aðalbankinn sem í raun vinnur verkin heldur viðkomandi starfsmenn sem eru þá ráðnir til þess af viðkomandi bankastofnun. Hver er þá staða þessa fólks gagnvart þeirri ábyrgð sem það hefur tekið á sig? Fyrirtækið gerir samninginn eða er ábyrgt en einstaklingarnir sem þarna vinna geta verið þess vegna einn í dag og annar á morgun. Hver er þá ábyrgð þeirra, bæði ábyrgð þeirra persónulega og ábyrgð þeirra gagnvart þeirri þjónustu sem verið er að veita?