Kosningar til Alþingis

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 12:53:41 (4608)

2003-03-10 12:53:41# 128. lþ. 93.37 fundur 391. mál: #A kosningar til Alþingis# (talning atkvæða, kjörseðlar o.fl.) frv. 15/2003, LB
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[12:53]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg eða stór um frv. sem hér er til umræðu. Ég vil þó nefna það í þessu samhengi að það var nokkuð góð sátt um það í allshn. að fjölga mögulegum umdæmiskjörstjórnum úr einni í tvær. Hins vegar var það skýrt hjá öllum nefndarmönnum að sá kostur yrði einungis nýttur í undantekningartilvikum. Hér er fyrst og fremst tekið mið af hinum þremur svokölluðu landsbyggðarkjördæmum. Þau eru mjög stór og komi til kosninga yfir vetrartímann er vitaskuld allra veðra von. Hugmynd allshn. er fyrst og fremst sú að möguleikinn á að koma upp tveimur umdæmiskjörstjórnum verði einungis nýttur þegar veður og annað slíkt krefst þess.

Ég vildi bara hnykkja á þessu, virðulegi forseti. Þótt hér sé verið að leggja til þessar breytingar býr sú hugsun að baki. Hér er því fyrst og fremst um einhvers konar tryggingarákvæði að ræða ef eitthvað slíkt kæmi upp.

Að sama skapi tek ég undir sjónarmið hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að hluta til a.m.k., að vandað verði til utankjörfundaratkvæðagreiðslu og settar skýrar reglur um hvernig þær eigi að fara fram. Það skiptir miklu máli. Eins og ég man lögin hefur hæstv. dómsmrh. skýrar heimildir til að setja reglur um þetta efni. Það er mikilvægt að sú heimild verði nýtt í því skyni að tryggja að utankjörfundaratkvæðagreiðslur fari fram eins og við ætlumst til. Fátt er fólki heilagra og mikilvægara en kosningarrétturinn. Almannavaldið verður því að tryggja eins og kostur er að vilji kjósenda komist til skila og engin hætta sé á að það misfarist á nokkurn hátt.

Þetta vildi ég leggja til þessarar umræðu, virðulegi forseti. Helst þó til að taka undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni allshn., varandi brtt. allshn. Ég vildi árétta að hugmyndin um viðbótarumdæmiskjörstjórn eigi aðeins við í algerum undantekningartilvikum og séu til öryggis ef kosningar kynnu að fara fram um vetur. Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti.