Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 15:17:32 (4613)

2003-03-10 15:17:32# 128. lþ. 93.39 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv. 40/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur var ég sem áheyrnarfulltrúi viðstödd afgreiðslu þessa máls úr allshn. Ég tek undir orð formannsins þegar hún segir að nefndin hafi lagt alúð og metnað í að vinna þetta mál. Það er alveg hárrétt. Ég fagna sérstaklega því sem kemur fram í nál. um það hvernig nefndin hnykkir á því að það sé ætlun löggjafarsamkundunnar að efnislegt innihald þessa mansalsákvæðis sem hér er fjallað um verði túlkað í samræmi við ákvæði Palermó-samningsins. Þetta er auðvitað gífurlega mikilvægt og dýrmætt að hafa í nál. og ég fagna því að það skuli tekið svona vel utan um það í álitinu.

Þá er líka mikilvægt að ítreka það að nefndin ræddi um vitnavernd og fórnarlambavernd í þessu sambandi. Það kom fram í umræðum nefndarinnar að kannski væri þörf á því að skoða breytingar á öðrum lögum hvað þetta varðar því sannleikurinn er sá að þegar glæpamenn sem stunda þessa óviðurkvæmilegu glæpi, mansal, nást þá er þeim refsað. Þeir eiga yfir höfði sér refsingu. En það sem gerist er að fórnarlömbin verða allt í einu vegalaus. Fórnarlömb þessara glæpamanna standa allt í einu uppi í einhverju landi í Evrópu, mögulega á Íslandi, án þess að hafa nokkur réttindi í viðkomandi landi. Þess vegna hafa þau lönd sem hafa verið að reyna að takast á við þetta hingað til búið til ákvæði sem varða vitnavernd og fórnarlambavernd þar sem yfirvöld í viðkomandi landi taka fórnarlömbin upp á sína arma og þau eru gerð lögleg í landinu, þannig að þau fái yfirgripsmikla og meðvitaða aðstoð við að koma undir sig fótunum og ná áttum, til þess að það gerist ekki, sem hefur gerst í útlöndum, að fórnarlömbin eru rekin úr landi, enda aftur í klóm sömu glæpamanna og sömu hringiðunni þannig að glæpirnir verða ekki stöðvaðir.

Ég fagna því líka, herra forseti, að nefndin er sammála um að mikilvægt sé að hugað verði áfram að því að veita fórnarlömbum mansals nauðsynlega vernd, svo sem vitnavernd, og í því sambandi hvet ég hæstv. dómsmrh. til þess að halda áfram að vinna í málinu á þessum nótum. Þurfi að koma til breytingar á öðrum lögum en hér um ræðir þá þarf bara að gera þær breytingar hið allra, allra fyrsta.

Eins og fram hefur komið er ég samþykk afgreiðslu þessa frv. og sátt við nál. að öllu leyti. Þó þarf ég að gera hér grein fyrir einu atriði sem ég bar inn á fundi nefndarinnar. Það varðar hugmyndir mínar um refsingu eða að það verði gert refsivert að kaupa vændi. Það var einn af þáttunum sem nefndin tók til umræðu í umfjöllun þessa máls, því hér er verið að opna greinar í hegningarlögunum sem lúta að þessum málum. Mansalið er auðvitað stór hluti af möguleikum fólks á að stunda vændi. Ég hef nú lagt fram frv. á Alþingi fjögur ár í röð sem gerir ráð fyrir því að kaup á kynlífsþjónustu verði refsiverð. Af því ég sé ekki að það eigi afturkvæmt úr nefnd lýsti ég því yfir við nefndina að ég hefði fullan hug á því að koma með brtt. við þetta frv. sem gerði kaup á vændi refsiverð.

Þess vegna hef ég gert brtt. við þetta frv. og henni hefur verið dreift til þingmanna á þskj. 1145. Þar geri ég ráð fyrir að við frv. bætist ný grein, sem verði þá 5. gr., og að hún orðist svo, með leyfi forseta:

,,Við 1. mgr. 206 gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sömu refsingu varðar það að kaupa vændi.``

Þetta er sem sagt í þeirri grein hegningarlaganna þar sem fjallað er um að það að stunda vændi sér til framfærslu sé refsivert. Á eftir þeirri setningu komi sem sagt ný setning sem geri það refsivert á sama hátt til sömu refsingar að kaupa vændi.

Nú voru í Svíþjóð árið 1998 sett lög sem eru sambærileg við þetta sem gengu í gildi, ef ég man rétt, 1. janúar 1999. Áhrif þessarar lagasetningar, að banna hreinlega eða gera kaup á vændi refsiverð, hafa verið könnuð og við þingmenn höfum átt þess kost að skoða niðurstöður þeirra kannana á erlendum vettvangi þar sem við höfum verið á ráðstefnum tengdum þessu málefni og sannleikurinn er sá að þeir glæpamenn sem stunda mansal hafa nú á seinni árum, eftir lagasetninguna, sniðgengið Svíþjóð. Það hefur því orðið marktæk breyting á ástandinu í Svíþjóð hvað þetta varðar. Götuvændi og vændi sem beinlínis tengist mansali virðist heyra sögunni til. Úr því hefur dregið stórlega og það hefur verið þakkað þessum lögum sem Svíarnir settu.

Nú hafa Evrópuþjóðirnar fengið hvatningu um það frá Evrópuþinginu að skoða möguleikann á þessari sænsku leið. Það er mjög mikil hreyfing meðal kvennasamtaka um alla Evrópu varðandi það að þjóðir skoði sænsku leiðina. Ég hefði talið það til sóma og fyrirmyndar, herra forseti, að íslensk stjórnvöld gengju á undan með góðu fordæmi, fetuðu braut Svíanna og settu ákvæði á borð við þetta í lög.

Nú tel ég vera tækifæri til þess þar sem þessar greinar hegningarlaganna eru opnar þar sem Alþingi er að fjalla um nákvæmlega þessa hluti. Þess vegna legg ég til þessa breytingartillögu. Hún þarf svo sem ekki frekari skýringar við, herra forseti. Ég vísa síðan til þeirra umræðna sem átt hafa sér stað um þau frv. sem ég hef lagt fram, sem á þessu þingi er á þskj. 39, 39. mál. þingsins.

Svo vil ég í lok máls míns geta þess að hæstv. dómsmrh. hefur látið svo um mælt í fjölmiðlum að hún telji þessa sænsku leið geta verið til skoðunar. Ég vil fá að vitna hér í orð hennar í Fréttablaðinu frá 18. september 2002 þar sem fjallað er um lagafrumvörp þau sem hæstv. ráðherra er að leggja fram. Það er verið að segja frá átaki Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna gegn verslun með konur, sem er búið að hleypa af stokkunum. Síðan segir í blaðagreininni, með leyfi forseta:

,,Íslendingar horfa til reynslu nágrannaríkjanna í þessum málum, einkum Svíþjóðar, en þar hefur verulega dregið úr verslun með konur síðan lögum var breytt þar og refsingar gegn mansali hertar.``

Þarna er verið að vitna til orða hæstv. dómsmrh. á fréttamannafundi sl. haust. Ég tel því fyllstu ástæðu til þess að Alþingi skoði það með mjög opnum hug hvort ekki megi gera þessa breytingu með þeirri tillögu sem ég nú hef mælt fyrir og er á þskj. 1145.