Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 15:25:41 (4614)

2003-03-10 15:25:41# 128. lþ. 93.39 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv. 40/2003, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er verið að fjalla um nál. um frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, um kynferðisbrot gegn börnum og mansal.

Eins og fram kom hjá hv. formanni allshn. var í rauninni um tvenns konar breytingar að ræða, annars vegar hvað varðar börnin, fyrstu tvær greinarnar, og síðan varðandi mansalið. Ég fagna því að það var mjög fín og fagleg umræða í hv. allshn. Við fengum mjög góðar umræður, bæði með fólki úr ráðuneytinu og frá refsiréttarnefnd þannig að þar var ekki tekist á um gagnstæð sjónarmið heldur fyrst og fremst reynt að horfa breitt á málið og sjá hvað við gætum gert betur.

Við ræddum talsvert hvað varðaði börnin, hvort við ættum að setja svokallað refsigólf eða gólf á þennan brotaflokk eins og er t.d. í nauðgunarmálunum. Það sýndi sig í gegnum þær umræður að það er nokkuð sem verið er að taka út alls staðar á Norðurlöndunum. Það er í rauninni eitthvað sem er hætt, en stendur enn eftir hér varðandi nauðgunarmálin. Því var talið ráðlegt að gera það ekki núna.

Mikið var rætt um fyrninguna og mikilvægi þess að fólk hefði ríkulegan tíma þegar um kynferðisafbrot er að ræða því það er ekki fyrr en fólk kemst á ákveðinn aldur og fer að skoða sjálft sig almennilega að það grípur til þess að fara í mál t.d. gagnvart gerendum.

Það sem gerist hins vegar ,,átómatískt`` í þessu frv. er að herðing refsinganna þýðir að fyrningartími brotanna lengist. Það gladdi mig mjög því ég hafði ekki áttað mig á því. Hér er því um verulega bót að ræða.

Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að ræða það sem við ræddum talsvert í nefndinni og það er varðandi skaðabætur til þeirra sem beittir eru kynferðislegu ofbeldi. Fyrir þinginu liggur eitt lítið frv. um breytingu á því máli. En það urðu ákveðin mistök í þinginu, í svokölluðum bandormi fjárlaga 1996, að þessi brotahópur var skorinn niður um helming. Það átti að laga í næstu fjárlögum á eftir. Það hefur ekki verið gert og þess vegna flutti ég ein lítið frv. um að þetta yrði lagað. Það er búið að vekja athygli dómsmrh. og dómsmrn. á þessu máli. Hér er í rauninni bara um spurningu um leiðréttingu á mistökum að ræða. Núverandi bætur fyrir þann hóp barna sem í þessu lendir duga varla fyrir þeim sálfræðiviðtölum sem þau þurfa eftir svo mikla misnotkun og varðandi alvarleika málsins.

Seinni þátturinn í þessu frv. er mansalið. Við erum loksins að sjá að núna er það alveg á hreinu að mansal varðar við hegningarlög. Þessu ber auðvitað að fagna og voru um þetta mjög fínar umræður í nefndinni. Þetta lýtur að svonefndum Palermó-samningi sem hér hefur aðeins verið ræddur. Það er líka áréttað í nál. að hann verði fullgiltur við fyrsta tækifæri vegna þess að í honum öllum kemur fram þetta með vitnaverndina sem var talsvert rætt í nefndinni en er ekki í frv. Þetta er eitt af því sem hefur verið rætt á ráðstefnu eftir ráðstefnu og núna síðast á Grand Hótel fyrir hálfum mánuði síðan. Þar voru sérfræðingar frá Svíþjóð, Bandaríkjunum, Noregi og víðar. Þar var þetta rætt og þar voru að sjálfsögðu hæstv. dómsmrh. og hæstv. félmrh. sem fluttu einmitt tölur varðandi þessi mál og þar var vitnaverndin eitt af stóru málunum. Eiginlega öll lönd eru því orðin sammála um þetta. Það kom fyrst fram á fundi í Kaupmannahöfn, sennilega 1999 eða 2000, um þessi mál að vitnaverndin væri algjörlega nauðsynleg því hana þarf líka upp á það að koma böndum á þessa aðila.

[15:30]

Í Bretlandi og víðar hefur margt verið að gerast. Þar hefur t.d. verið reynt að nálgast þá dólga sem stundað hafa mansalið, sem er arðbærara en nokkur fíkniefnasala, í gegnum skatta. Þar hafa menn gert upptæka Bensa, Jagúara, peninga og annað. Þeir hafa verið mjög öflugir og það er eitt af því sem Svíar skoða líka mikið. Þessa var getið í síðustu skýrslunni um vændið hér heima þar sem fjallað var um mansalið, þ.e. að reyna að ná í þennan hóp skattalega. Hann fer auðvitað mjög leynt og er eflaust auðvelt að koma þeim peningum úr landi. Þetta voru mjög frjóar og fínar umræður í allshn.

Mikilvægi vitnaverndarinnar hefur verið rætt fund eftir fund. Ég tel að þau mál afgreiðist örugglega fyrr en síðar, ég tala ekki um ef við fullgildum Palermó-samninginn. Þetta er einn liðurinn í honum og ég mundi fagna því ásamt öllum þingheimi.

Mig langar að minna á að í Háskólabíói er núna, í tengslum við ráðstefnu fyrir hálfum mánuði, verið að sýna mynd sem heitir ,,Lilya 4-ever``. Það er sú mynd sem ég talaði um að félmn. og allshn. mundu taka til sýningar á sínum tíma þegar mansalið var rætt. En það kostaði auðvitað talsverða fjármuni og reyndist ekki unnt. En ég vil hvetja alla þá sem áhuga hafa á þessum málum að kynna sé hve hræðilegt mál mansal er og sjá þessa mynd. Ég veit að það er sérstök sýning á morgun klukkan eitt. Hún er annars sýnd í Háskólabíói. Ég veit ekki, herra forseti, hvort það er við hæfi að vera með auglýsingar í þingsalnum, ég hef ekki lent í því áður. Það er afar mikilvægt að fólk kynni sér þessi mál. Núna hrynur inn tölvupóstur frá ungum mönnum sem hafa séð þessa mynd. Fyrir þeim hefur opnast nýr heimur og er það vel. Þannig að við eigum að leggja okkur fram hvað þetta varðar.

Ég vil minna á að á fundinum á Grand Hóteli fyrir hálfum mánuði var verið að tala um mansal, vitnaverndina og allan þann erfiða pakka. Þangað kom einmitt lögreglumaður frá Svíþjóð, frá lögreglunni í Stokkhólmi, og kom bersýnilega í ljós að það forðast allir Svíþjóð. Það er alveg á hreinu. Hins vegar eru vandamálin yfirþyrmandi, t.d. í Finnlandi við landamærin. Þannig væri afar mikilvægt fyrir okkur að fá upplýsingar um stöðuna í Finnlandi. Hún var mjög slæm árið 1998 og hefur ekki lagast.

Ég var búin að reikna það út á sínum tíma að 20% af þeim dönsurum sem fóru hér í gegn, sem miklu meira var af fyrir hálfu ári en núna, tengdust mansali. Það er bara allt of stór hópur fyrir svona lítið land. Við eigum áfram að vera á varðbergi gagnvart þessu. En ég fagna þeim skrefum sem hér eru tekin. Það er ekki spurning. Þau eru fín, bæði gagnvart börnunum og gagnvart mansali.

Af því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kemur með brtt. varðandi kaup á vændi þá hef ég ekki enn fengið að sjá neinar skýrslur, því miður. Ég reyni bara að gera skurk í því því. Ég hef ekki getað nálgast þær. Ég er búin að garfa í því undanfarna daga á netinu. Ég vil sjá þær vegna þess að málið snertir mig líka sem fagmann. Ég hef fengið mikið af þessum vændisstelpum í stuðningsviðtöl í gegnum árin. Þess vegna hef ég vitað af þeim. En í Svíþjóð hefur verið talað um að kannski hafi yngstu stelpurnar farið neðan jarðar. Við verðum að ná þeim.

En ef það eru komnar miklar skýrslur --- það er alltaf verið að tala um að þær séu komnar --- vildi ég gjarnan biðja hv. þm. að taka ljósrit af þeim þegar hún kemur með þær hingað til landsins til að upplýsa okkur þingmenn. Ég vil svo sannarlega ekki standa í vegi fyrir því að þetta breytist.